Við tökum ekki þátt í þessum blekkingarleik

Foreldrar þekkja börnin sín best. Þau vita hvers þau þarfnast. Breyta þarf inntökuskilyrðum í sérskóla strax svo allir þeir sem þess þurfa og óska hafi aðgang að þeim. 

Flokkur fólksins vill fjölga sérúrræðum skóla þannig að sérhvert barn fái úrræði við hæfi. Öll börn sem greinast með þroskahömlun eiga að hafa aðgang að sérúrræðum og sérskólum ekki bara sum. 

Skóli án aðgreiningar virkar ekki fyrir öll börn. Það hefði þurft miklu meira fjármagn inn í skólana til að styðja við kennara. Það hefði þurft að ráða í alla skóla þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, sálfræðinga og annað aðstoðarfólk til að styðja við nemendur og kennara sem þurfa mikið aðlagað námsframboð og kennslu. Sem dæmi þjóna 5 sálfræðingar 17 leik- og grunnskólum í Breiðholti. Útilokað er fyrir þessa sálfræðinga að mæta þörfum barna 17 skóla sem þurfa á sálfræðiþjónustu eða sálfræðiathugunum að halda.

Flokkur fólksins veit að ekki er hægt að setja alla undir sama hattinn. Hugsunin um Skóla án aðgreiningar er falleg en þjónar ekki hagsmunum allra barna. Í mörgum tilfellum hefur einfaldlega ekki tekist að aðlaga nemendur með þroskahömlun að jafnöldrunum eða jafnaldrana að þeim. Einnig hefur ekki alltaf tekist að breyta skólahúsnæði þannig að fullnægjandi sé fyrir þroskahamlaða.


Ef þroskinn er langt frá jafnöldrunum breikkar alltaf bilið þannig að stundum gengur þetta upp á yngsta stiginu (1.-4.bekk) en fer svo að verða erfiðara þegar nemendur verða eldri og þeir þá í mikilli hættu með að einangrast.

Klettaskóli er sérskóli og þeim börnum sem þar stunda nám líður vel. Þeir eru námslega sterkir meðal jafninga og blómstra. Í dag eru inntökuskilyrðin mjög ströng. Nemendur þurfa að hafa mikla fötlun til að fá inngöngu þangað. 

Við í Flokki fólksins líðum ekki að nokkru barni líði illa í skólanum vegna þess að það upplifir sig síðra, finnur að það ræður ekki við verkefnin og á erfitt með að mynda félagsleg tengsl.

Barn sem fær ekki að stunda nám á sínum forsendum brotnar saman. Við gerum þá kröfu að ávallt skuli hugsa fyrst og fremst um félagslegan þátt nemenda þegar velja á þeim skólaúrræði.

Flokkur fólksins vill ekki taka þátt í þeim blekkingarleik að sannfæra fólk um að Skóli án aðgreiningar sé skóli fyrir öll börn. 


Bloggfærslur 9. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband