Hvað er í gangi hjá Félagsbústöðum?

Félagsbústaðir hafa talsvert verið til umræðu að undanförnu og kemur ekki til af góðu. Margir hafa leitað til mín og sagt farir sínar ekki sléttar í samskiptum við þetta fyrirtæki sem er undir B hluta borgarinnar. En fæstir þora að koma fram undir nafni af ótta við afleiðingar.

Þetta er óhuggulegt og tel ég að við þurfum að leggjast á eitt til að finna út hvað sé þarna í gangi. Á fyrsta borgarstjórnarfundi lagði ég fram tillögu um að óháðir aðilar yrðu fengnir til að taka út ýmsa þætti þarna, ekki einungis reksturinn. Þessari tillögu var í gær, á fundi borgarráðs, vísað til umsagnar hjá fjármálastjóra og innri endurskoðun. Ég var ósátt við þessa afgreiðslu og lét bóka það. Hefði viljað sjá óháðan aðila kalla sjálfur eftir gögnum m.a. hjá fjármálastjóra og frá innri endurskoðun eftir atvikum.

Í gær var ég með aðra tillögu sem tengist Félagsbústöðum. Hún hljóðar svona:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á biðlista Félagsbústaða
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að gerð verði úttekt á biðlista Félagsbústaða. Í greiningunni komi fram:

1. Hverjir eru á biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar?

2. Hverjar eru aðstæður þessara aðila, fjölskylduaðstæður, aldur og ástæður umsóknar?

3. Hversu langur er biðtíminn?

4. Hvað margir hafa beðið lengst og hversu lengi er það, hverjir hafa beðið styst, hversu stutt er það?

5. Hve margir hafa fengið einhver svör við sinni umsókn og hvernig svör eru það (flokka svörin) og hversu lengi voru þeir búnir að bíða þegar þeir fengu svör?

6. Hafa einhverjir sótt um oftar en einu sinni, ef svo er, hvað margir og hverjir höfðu fengið svör við fyrri umsókn sinni og þá hvers lags svör?

7. Hvað margir hafa fengið synjun síðustu 10 árin og á hvaða forsendum?

8. Hvað margir bíða á listanum sem hafa fengið einhver svör við umsókn sinni en þó ekki synjun?

9. Hvar eru þeir sem bíða nú búsettir?

10. Hvað margir hafa sent ítrekun á umsókn sinni síðustu 3 árin?

Tillögunni var frestað.


Bloggfærslur 29. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband