Frístundakortið ekki fyrir börn fátækra foreldra

Á næsta fundi borgarstjórnar 18. febrúar vil ég ræða enn meira um afbökun reglna frístundakortsins og minna aftur á upphaflegan tilgang þess. Ég mun tengja umræðuna við tillögu mína um að fjölga stöðugildum hjá Leikni sem er lítið íþróttafélag í Efra Breiðholti. Félagið berst í bökkum og er að reyna að halda úti fótboltadeild með aðeins einn starfsmann. Í hverfi 111 býr hæsta hlutfall fjölskyldna með fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Þar er einnig lægsta hlutfall barna sem stunda íþróttir en í þessu hverfi er jafnframt Frístundakortið minnst nýtt af öllum hverfum eða innan við 70%. Í sumum öðrum hverfum er notkun Kortsins yfir 90%. Ef horft er á íþróttir einungis þá er notkun þess einnig minnst í hverfi 111 í samanburði við önnur hverfi(aðeins 21% stúlkna og 43% drengja). 

Ég tel að ein af ástæðum þess að börnin eru ekki að nota Frístundakortið í hverfi 111 sé sú að foreldrar sem eru í fjárhagserfiðleikum eru tilneyddir til að nota rétt barna sinn til frístundakortsins til að greiða frístundaheimilið eða tungumálakennslu auk þess sem gefa þarf upp rétt Frístundakortsins til að hægt sé að sækja um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól eða afskriftir skulda hjá borginni. Svona er nú komið fyrir Frístundakorti barnanna.

Haustið 2018 voru 6.298 börn í 1.-4. bekk. Frístundakortið var nýtt upp í greiðslu fyrir dvöl 1.503 barna á frístundaheimili eða 23,9% þeirra.

Upphaflegur tilgangur Frístundakortin var að öll börn án tillits til efnahags foreldra geti lagt stund á íþróttir. Árið 2009 var af tilstuðlan VG reglum um Frístundakortið breytt, fyrst þannig að hægt var að nota það til að greiða frístundaheimili en svo var haldið áfram að gengisfella Kortið með því að tengja það við fjárhagsaðstoð og skuldir foreldra. Þar með gat barnið ekki notað það til að greiða með æfingagjöld t.d. til að leggja stund á fótboltaiðkun hjá Leikni. 

Hægt er að fara aðrar leiðir til að hjálpa fólki í fjárhagsvanda en að hrifsa af börnunum rétt þeirra til að nota Frístundakortið. Ég hef bent á styrki á grundvelli 16. gr. A. Eins og staðan er nú er ekki hægt að sækja um styrk samkv. þeirri grein nema uppfylla skilyrði um fjárhagsaðstoð og til að uppfylla skilyrði um fjárhagsaðstoð þarf að gefa eftir rétt barnsins til Frístundakortsins. Svona ganga nú kaupin á eyrinni fyrir sig í borginni. 

Börn eru á Frístundaheimili til þess að foreldrar geti unnið úti.  Eins og þessum málum er háttað í dag er verið að beita börn efnaminni foreldra órétti. Það er verið að gefa þeim tækifæri með hægri hendi en hrifsa það til baka með þeirri vinstri.

 

 


Bloggfærslur 14. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband