Börn aftur tekin að veikjast í Fossvogsskóla

Börn eru tekin að veikjast aftur í Fossvogsskóla eftir því sem ég hef frétt. Í morgun í borgarráði lagði ég fram 2 tillögur og eina fyrirspurn í tengslum við Fossvogsskóla og myglu í skólahúsnæði borgarinnar:
 
Tillaga Flokks fólksins að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál í skólum koma upp
 
Flokkur fólksins leggur til að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum. Fram til þessa er aðeins verið að sjá toppinn á ísjakanum. Eftir að meirihlutinn í borginni hefur vanrækt að halda við skólahúsnæði árum saman er komið að skuldadögum.
Fleiri myglumálum eiga örugglega eftir að koma fram í dagsljósið næstu árin og þá þarf að vera til faglega samþykkt verklag. Í þessum málum ríkir óreiða. Í húsnæði eins og Fossvogsskóla þar sem áratuga vanræksla verður til þess að húsið nánast eyðileggst er enn vandi þótt farið hefur verið í endurbætur. Nú eru börn aftur farin að veikjast. Hefjast verður handa að nýju með því að gera almennilegar mælingar og í framhaldi fara í þær framkvæmdir mælingar sýna að þurfi að gera. En þar sem enginn verkferill er til þegar mál af þessu tagi koma upp gerist ekki mikið og mörgum finnst að sópa eigi vandanum undir teppi. Borgarfulltrúi skynjar að lítið er eftir af trausti í garð meirihlutans í borgarstjórn, skóla- og frístundaráðs og Heilbrigðiseftirlitsins. Allir eru orðnir þreyttir á ástandinu og ekki síst hvað kerfið er seint að taka við sér og hvað langan tíma það tekur að bregðast við.
 
Tillaga Flokks fólksins að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla.
 
Lagt er til að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla. Foreldrar hafa ítrekað reynt að komast í samband við embættismenn borgarinnar en það gengur illa. Það hefur aldrei verið gerð alvöru úttekt eftir að sagt var að „verki“ var lokið.
Heilbrigðiseftirlitið hefur komið þarna, gengið í gegn en slík heimsókn hefur aldrei skilað sér segja foreldra barna í Fossvogsskóla. Flokkur fólksins vill að skóla- og frístundarráð taki málið alvarlega og bregðist við með öðru en þögn Eftir að hafa rætt við foreldra er það upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins að margir treysti Heilbrigðiseftirlitinu ekki lengur og ekki heldur mælitækjum þeirra. Ef ekki er eitthvað sýnilegt er hreinlega metið að ekkert sé að. Slík vinnubrögð eru með eindæmum ófagleg ef rétt reynast. Nú eru börn að veikjast aftur. Málið þolir því enga bið.
 
Fyrirspurn um stöðu mála í Fossvogsskóla
 
Flokkur fólksins óskar eftir að spyrja um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Þar kom aftur upp leki í nóvember þar sem yngstu börnin eru og aftur eru komin upp alvarleg veikindi. Börn eru ítrekað að veikjast og ekki næst samband við Heilbrigðiseftirlitið til að gera alvöru mælingar. Er þetta komið út í það að borgin axli ekki lengur ábyrgð og að foreldrar og foreldrafélag verði að taka málið í eigin hendur, kaupa mælingar sjálft. Foreldrar eru ekki tilbúnir að fórna heilsu barna sinna degi lengur á meðan borgarmeirihlutinn stingur hausnum í sandinn og lætur sem ekkert sé. Að minnsta kosti 7 börn sýna einkenni nú og einhverjir af foreldrum og kennurum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af ástandinu þarna og hvað skóla- og frístundarráð og Heilbrigðiseftirlitið er lengi að taka við sér og lætur eins og vandinn sé jafnvel bara léttvægur? Þetta er í það minnsta upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins
 
 

Bloggfærslur 20. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband