Bleyta fyrst og sópa svo

Ég lagði fram tillögu í borgarráði í vikunni að aukin áhersla verði lögð á götuþvott að vori samhliða almennri götusópun með það að markmiði að draga úr svifryksmengun og bæta loftgæði í borginni
 
Flokkur fólksins leggur til að aukin áhersla verði lögð á götuþvott að vori samhliða almennri götusópun með það að markmiði að draga úr svifryksmengun og bæta loftgæði í borginni. Bleyta þarf götur áður en þær eru sópaðar á þurrviðrisdögum og að götusópun lokinni þarf að þvo götur eins fljótt og auðið er. Á ári hverju safnast ógrynni af ryki, möl, drullu og rusli á vegum borgarinnar. Á vorin hefjast þrif á götum borgarinnar. Í áætlunum um hreinsun gatna í Reykjavík má sjá að þegar húsagötur eru sópaðar þá er samhliða, eða skömmu eftir, þvegið göturnar. Þegar hinsvegar stofnæðar borgarinnar eru þrifnar þá líður langur tími á milli sópunar og þvotts. Samkvæmt verkáætlun lauk hreinsun stofngatna 26. apríl sl. en þær verða ekki þvegnar með vatni þar til 25. maí. Þegar vélsópar hreinsa vegkanta þá skilja þeir ávallt eftir hluta af fínasta rykinu. Því er mikilvægt að götur séu spúlaðar skömmu eftir. Ellegar myndast lag af hárfínu ryki á vegum. Á háhraða götum þyrlast þetta ryk upp og myndar töluvert af svifryki í andrúmsloftinu. Þetta sjáum við vel þegar við ferðumst á stofnæðum borgarinnar. Það er bráðnauðsynlegt að draga úr svifryki. Svifryk er afar heilsuspillandi og þá sérstaklega fyrir fólk með öndunarsjúkdóma.
 
Greinargerð
 
Til að sporna gegn svifryksmengun er mikilvægt að hefja þvott á stofnæðum borgarinnar strax að lokinni sópun. Þá gæti það einnig hjálpað til ef götur eru bleyttar áður en þær eru sópaðar á þurrviðrisdögum. Þó vélsópar séu með vatnsspíssa þá mynda þeir ekki svo mikið vatn að það dugi til að bleyta nægilega göturnar þegar óhreinindi eru mikil, eins og raunin er þegar hreinsun hefst á vorin. Það er varasamt að þvo götur áður en þær eru forsópaðar. Þá er hætta á því að niðurföll stíflist. Það er þó hægt að bleyta þær áður en þær eru sópaðar. Það mætti gera með því að láta vatnsbíl og götusóp þræða göturnar í beit. Þá eru einnig til nýir sópar með háþrýstispíssum og vatnssugum sem nota mætti á staði þar sem ryksöfnun er mikil.
 
Rykmengun er viðvarandi vandamál þegar götur eru sópaðar í þurru veðri. Það vita borgarbúar vel. Því ber að leggja aukna áherslu á að götur séu bleyttar vel áður en þær eru sópaðar svo að sópunin mengi ekki út frá sér. Því er lagt til að Reykjavíkurborg ráðist í breytingar á gildandi verkáætlunum með það að markmiði að auka götuþvott og draga úr svifryksmengun. Þá er mikilvægt að Reykjavíkurborg hafi samráð með Vegagerðinni um hvernig megi endurskipuleggja sópun og þvott stofnæða borgarinnar.
 
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Einn stærsti áfangi lífs míns

Glefsur úr viðtali Vikunnar:

"Þegar Flokkur fólksins kom fram
á sviðið og fór að leggja áherslu á
fjölskyldumálin fórum við Inga Sæland að tala
saman á messenger og það gerðist mjög
hratt að ég gaf kost á mér í oddvitasæti
flokksins í borgarstjórnarkosningunum,“
útskýrir Kolbrún. „Og nú er ég búin að vera
næstum tvö ár í borgarstjórn og hef lagt fram
örugglega á fjórða hundrað mála, alls konar
mál."

"Fyrir utan að eignast börnin mín og barnabörnin mín
var það að vera kosin í borgarstjórn einn
stærsti áfangi lífs míns. Ég er mjög þakklát
fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og vil
standa mig vel.“

mynd blog svart hv
 

Ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda undantekning

Ég hef verið óþreytandi í að benda á kostnað vegna ferða embættismanna, borgarstjóra og hans aðstoðarmanns erlendis. Vonandi snarfækkar ferðum núna í kjölfar Covid-19 enda allir orðnir flinkir í fjarfundum. Á sameiginlegum fundi Skipulags- og samgönguráðs og Umhverfis- og heilbrigðisráðs var lagt fram yfirlit yfir ferðir ráðanna árið 2019. Hér erum við að tala um 12 milljónir sem vel mætt nota í þágu eldri borgara og öryrkja svo ekki sé minnst á börnin.
Bókun Flokks fólksins við yfirliti yfir ferðakostnað starfsmanna Umhverfis- og skipulagssviðs 2019:
Það fer gríðarmikið fé í ferðir erlendis hjá þessum sviðum, oft fara heilu hóparnir á ráðstefnur og e.t.v. í skoðunarferðir. Eiginlega er þetta ekki boðlegt enda allt á kostnað borgarbúa. Dagpeningar er stór hluti þessa kostnaðar og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til að þeir verði lagðir af og í staðin tekið upp notkun viðskiptakorts eins og mörg fyrirtæki hafa tekið upp og er slíkt fyrirkomulag með ákveðnu hámarki eðlilega. Nú má vænta þess að ferðum snar fækki vegna þess að með
Covid-19 lærði fólk að nota fjarfundakerfi. 
Ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda ættu því að geta orðið alger undantekning. Í tilfelli þessa sviðs er upphæðin 12.139.972. fyrir árið 2019. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hversu mikið borgarbúar hafa grætt á að þessar ferðir voru farnar?
 
Sjálf hef ég farið eina ferð á vegum borgarinnar, á fund oddvita til Osló.
Svo því sé haldið til haga. Ég reikna ekki með að fara frekari ferðir á þessu kjörtímabili, sé það alla vega ekki fyrir mér nú.

Bloggfærslur 11. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband