Borgin ætti að reka sinn eiginn "Arnarskóla"
22.5.2020 | 20:14
Ég hef verið með bókanir vegna þess að borgin hefur sett stopp umsóknir í Arnarskóla vegna þess að svokallað ytra mat liggur ekki fyrir sem ekki er í höndum borgarinnar að framkvæma.
Skólayfirvöld í borginni samþykktu að greiða inngöngu fjögurra barna nú nýlega í Arnarskóla en segir að ekki verði opnað á umsóknir vegna fleiri nemenda fyrr en ytra mat skólans liggur fyrir. Arnarskóli býður upp á heildstæða skólaþjónustu sem er úrræði sem hentar sumum börnum betur en fyrirkomulag sem kallar á meiri þvæling milli staða. Í Arnarskóla er hugað að einstaklingnum og að mæta þörfum hans að öllu leyti.
Ekkert kemur í staðinn fyrir persónulega nánd
22.5.2020 | 10:58
Í vikunni samþykkti velferðarráð að hraða innleiðingu stafrænnar tækni á velferðarsviði m.a. vegna jákvæðrar reynslu af nýtingu rafrænna lausna á tímum COVID-19 faraldursins, s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu, notkun fjarfundabúnaðar til ráðgjafasamtala og móttöku rafrænna umsókna um fjárhagsaðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins fannst sjálfsagt að vera með í þessari tillögu en vildi á sama tíma leggja áherslu á að ekkert kemur í staðinn fyrir persónulega nánd.
Rafrænar lausnir eru sannarlega framtíðin og tekið var heljarstökk í framþróun á snjalllausnum vegna COVID-19. Jákvæð reynsla er af nýtingu rafrænna lausna s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu og víða. Innleiðing tæknilausna einfaldar margt en það sem fulltrúi Flokks fólksins vill halda til haga er að það eru ekki allir sem nota snjalltækni til að hafa samskipti við umheiminn. Ástæður eru ótal margar. Þessum hópi fólks má ekki gleyma í allri snjalltæknigleðinni. Starfsfólk þarf að vera næmt á hvað hentar hverjum og einum og hvað hann þarf og vill. Notandi þjónustu á að stýra ferð enda er hann sá eini sem veit hvað hann þarf, vill og getur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því að persónuleg tengsl, nánd og snerting eigi eftir að dragast saman vegna allra þeirra rafrænu lausna sem nú eru í boði. Það má aldrei hverfa frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann. Einnig er mikilvægt að gera reglulega athuganir á rafrænum lausnum og hvernig þær eru að nýtast.