Samtal við barnið lykilatriði

Þjónusta við börn hefur vissulega verið í þróun í Reykjavík síðustu misseri og einhverjar nýjungar í þeim efnum litið dagsins ljós. Biðlisti barna eftir sálfræðiþjónustu skólasálfræðinga hefur þó aldrei verið eins langur og nú. Á þriðja þúsund börn bíða ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu, þá helst sálfræðinga og talmeinafræðinga. Þessi sami listi taldi 400 börn árið 2018.

En það eru aðrar áhyggjur sem mig langar að reifa hér. Með tilkomu verkefnisins Betri borg fyrir börn stóð til að færa fagfólk skólanna meira í nærumhverfi barnanna þ.e. í skólana. Það hefur ekki orðið raunin. Sálfræðingar skólanna eru með starfsstöð á miðstöðvum en með ákveðna viðveru í skólunum. Það sem þó hefur færst meira út í skólana er stuðningur við kennara og starfsfólk með tilkomu svokallaðra lausnateyma. Því ber sannarlega að fagna.

Ekki nóg

Það er mín skoðun sem sérfræðingur í klínískri sálfræði að brýnt er að barnið sjálft fái tækifæri til að ræða við fagaðila eins og aldur og þroski þess leyfir, með eða án foreldra eftir atvikum. Í samtali barns og sálfræðings hlustar sálfræðingurinn ekki einvörðungu á orð barnsins heldur er með einbeitingu á fjölmörgum öðrum atriðum í fari og háttum barnsins. Fagaðili horfir á líkamsmál og hlustar eftir raddblæ og augna- og svipbrigðum til að lesa og meta líðan, kvíða og áhyggjustig barnsins. Eitthvað sem barn segir getur vakið sálfræðinginn til meðvitundar um að það þurfi að skoða málið nánar. Það getur leitt til þess að barn opni sig enn frekar um hluti sem ella hefðu ekki komið upp á yfirborðið. Það getur skipt sköpum að sjónarhorn og vinkill barnsins af eigin máli komi fram milliliðalaust ef ske kynni að upplifun þess er önnur en foreldranna eða kennara. Mál barns er líklegra til að fá úrlausn sé því gefið tækifæri til að tjá sig sjálft frá innstu hjartarótum við fagaðila frekar en að einungis sé rætt við aðstandendur eða kennara. Mikilvægt er að gera hvort tveggja. Ég óttast að bilið milli nemenda og sálfræðinga sé að breikka enn frekar í skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Eins nauðsynlegt og það er að veita skólum og foreldrum ríkan og tryggan stuðning í málefnum barna má aldrei gleyma börnunum sjálfum.

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

 Pistill birtur í Fréttablaðinu 30. mars 2023


Bloggfærslur 31. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband