Kaupgleði er eitt en kaupæði allt annað

Hvar liggja mörkin á milli kaupgleði og kaupæðis?

Mörgum þykir afar gaman að ganga um verslunarmiðstöðvar, skoða gluggaútstillingar en enn fleirum finnst gaman að fara inn í verslanir, skoða hluti, máta föt og kaupa síðan eitthvað sem þeim þykir fallegt.

Kaupgleði er mjög einstaklingsbundin. Á meðan sumir vilja helst eyða mörgum tímum á viku í verslunum eru aðrir sem líkar það illa og fara helst ekki í verslanir nema að þeir neyðist til þess þegar þeim bráðvantar eitthvað. Ástæðan gæti t.d. verið að viðkomandi líður illa innan um margt fólk, í stóru rými og þar sem vöruúrvalið virðist óendanlegt.

Það lætur ekki öllum vel að eiga auðvelt með að taka ákvarðanir um hvað skuli kaupa og hvað ekki. Að velja, vita hvað maður vill getur vafist fyrir sumu fólki á meðan aðrir eru eldsnöggir að finna út hvað hentar þeim. Hversu auðvelt einstaklingurinn á með að taka ákvarðanir hvað hann ætli að kaupa fer eftir mörgu, þó ekki endilega hvort viðkomandi hafi ekki þroskað með sér ákveðinn smekk eða stíl heldur kannski frekar hvort viðkomandi upplifi það sem einhverja sérstaka áhættu að kaupa eitthvað sem honum mun kannski síðan ekki líka. Hugmyndir fólks um hvernig það vill verja peningunum sínum spilar einnig hlutverk í þessu sambandi sem og hvort einstaklingur skilgreinir sig sem vandlátan og jafnvel sérsinna. Sjálfsmat, ánægja með útlit eru þættir sem skipta sköpum þegar kemur að því að ákveða fatakaup.

En eitt er að vera haldin kaupgleði og annað að vera með kaupæði þótt oft megi telja að þarna sé mjótt á mununum. Kaupæði er þegar einstaklingur ver svo miklum tíma í verslunum í að kaupa eitt og annað að það er farið að koma niður á öðrum þáttum í lífi hans. Um er að ræða fíkn þar sem stjórnleysi hefur fest sig í sessi. Oftar en ekki er kaupfíkillinn snöggur að ákveða sig hvað hann ætlar að kaupa enda er þetta frekar spurning um að kaupa mikið og oft frekar en að kaupa fáar, vel ígrundaðar vörur. Sá sem haldin er stjórnleysi vill allt eins kaupa til að gefa öðrum eins og að kaupa eitthvað handa sjálfum sér. Mestu máli skiptir að hann sé að kaupa.

Kaupæði vísar til stjórnlausrar, áráttukenndra kaupa þar sem kaupandi hefur ekki tök á að stöðva atferlið jafnvel þótt öll heimsins skynsemi mæli gegn eyðslunni sem kaupunum fylgir. Sá sem er haldinn kaupfíkn er oft líka með söfnunaráráttu. Honum finnst hann þá þurfi að eiga allt af ákveðinni tegund sem hann er að safna.

Meira um þetta hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Eina miðaldra konu þekki ég sem ég átta mig ekki á hvort er með kaupæði eða kaupgleði eða eitthvað annað.  Það er eins og hún telji sig "þurfa" að eyða öllum pening sem hún eignast. 

  Framan af hjónabandi sínu leiddi þetta oft til árekstra á milli þeirra hjóna.  Kallinn er næstum öfgamaður í hina áttina:  Mjög pössunarsamur í fjármálum og leggur mikið upp úr því að eiga dálítinn sjóð "til öryggis".

  Þetta endaði með því að þau komu sér upp algjörlega aðskildum fjármálum og tiltekinni skiptingu á heimilisútgjöldum.

  Konan vinnur þannig að hún fær óreglulegar launagreiðslur og misháar.  Við hverja útborgun fer hún í verslunarferð og eyðir hverri krónu sem eftir stendur þegar hún hefur borgað reikninga.

  Eitt sinn vann kallinn happdrættisvinning upp á núvirði kannski 2 milljónir.  Þegar hann sagði kellu tíðindin spurði hún strax áhugasöm og glöð:  "Hvað eigum við að kaupa fyrir þetta?"  Í annað sinn voru þau hjón stödd hjá lögfræðingi sem gerði þeim grein fyrir að konan hafði erft upphæð er á núvirði væri kannski 1 milljón.  Hún snéri sér strax að kallinum sínum og spurði:  "Hvað eigum við að kaupa fyrir þetta?"

  Þessi kona hleypir sér ekki í skuldir og stundar ekki spilakassa eða neitt slíkt.  En peninga getur hún ekki átt stundinni lengur.  Uppistaðan af því sem hún kaupir eru föt á þau hjón og börn þeirra.  Allur hópurinn á miklu fleiri föt en hann þarf á að halda.  Konan sækir mikið í útsölur og tilboð og telur sig stöðugt vera að græða þá upphæð sem munar á fullu verði og afsláttarverði.   

Jens Guð, 29.1.2010 kl. 01:52

2 Smámynd: Hörður Halldórsson

Matarfíklar hafa  þurft  að skrá matardagbók og skipuleggja sínar máltíðir.Sama gildir um þá sem hættir til kaupæðis Gera áætlun og framfylgja henni.

Hörður Halldórsson, 29.1.2010 kl. 07:37

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband