Spákonur, spámiðlar og fólk sem leitar til þeirra
21.3.2010 | 08:34
Þörfin að vilja vita hvað framtíðin ber í skauti sér blundar í brjósti fjölmargra. Af hverju vill fólk fá að vita hvað verður eða verður ekki?
Við þessu er ekkert eitt svar. Ekki er ósennilegt að ástæðan sé m.a. sú að fólk vill vera undir eitt og annað búið sem kann að bíða þeirra handan við hornið. Sumir eru e.t.v. kvíðnir, óttast að eitthvað slæmt gerist og leita þess vegna til spákonu til að freista þess að fá áhyggjum sínum eytt.
Aðrir leita til spáfólks til að fá góð ráð, hvað þeir eigi að gera undir ákveðnum kringumstæðum, hvort verið sé að taka réttar ákvarðanir eða hvaða ákvörðun sé heppilegust í einstaka málum og svona mætti lengi telja.
Oft leitar fólk til spákonu og spámiðla þegar það hefur orðið fyrir áfalli og finnst t.d. fótunum hafa verið kippt undan sér, eða ef það á við einhvern sérstakan vanda að glíma og vill heyra hvort vænta megi bata innan tíðar eða annarra lausna.
Fjöldi þeirra, sem starfa við það að spá fyrir öðrum um framtíðina liggur ekki fyrir og enn síður er hægt að segja til um hve stór hópurinn er sem hefur leitað til spákonu eða leitar eftir slíkri þjónustu með reglubundnu millibili.
Í nærveru sálar 29. mars leiðir Sigrún Elín Birgisdóttir áhorfendur inn í heim þeirra sem starfa við það að segja fyrir um framtíð fólks.
Við ræðum um fjölmarga vinkla málsins bæði út frá sjónarhóli þeirra sem leita til spáfólks og einnig út frá sjónarhornum spáfólksins.
Við skoðum kynjamismun í þessu sambandi t.d. hvort það séu frekar konur en karlar sem sækjast eftir því að láta spá fyrir sér og ef svo er hver skyldi vera skýringin?
Einnig hvaða eiginleika/hæfileika/þekkingu hafa þeir sem eru hvað færastir í að skyggnast inn í framtíð fólks hvort heldur með aðstoð spila t.d. Tarrotspila eða með því að lesa úr táknum í kaffibolla? Er það skyggnigáfan sem gildir?
Hvernig er samkeppni háttað innan spástéttarinnar?
Hvað ef spákonan er illa upplögð og á vondan dag?
Margir hafa reynslu af því að fara til spákonu en þegar fram líða stundir kemur í ljós að fátt ef nokkuð hefur ræst.
Tekur spádómurinn e.t.v. bara mið af núverandi stöðu og ástandi viðkomandi, vonum og óskum sem þegar upp er staðið verða e.t.v. aldrei að veruleika?
Allir vilja heyra um að þeirra bíði fjölmörg ferðalög, ríkidæmi og þeir sem eru ólofaðir vilja gjarnan heyra hvort stóra ástin sé nú ekki brátt væntanleg inn í líf þeirra.
Hvað ef ekkert slíkt sést nú í spilunum heldur jafnvel bara tóm ótíðindi, veikindi og gjaldþrot?
Svo er það efahyggjufólkið sem þykir þetta allt hin mesta vitleysa, slær sér á lær og segir sveiattan, að þú skulir trúa á þetta bull!
Á hinn bóginn má spyrja hvort þetta sé nokkuð meiri vitleysa en hvað annað? Spáfræði og spámenn er ekkert nýtt fyrirbæri. Sú var tíðin að litið var til spámanna af virðingu og á þá var hlustað með andakt.
Hvað sem öllum skoðunum, trú og viðhorfum til spáfólks og spádóma líður getur það varla skaðað að heimsækja spákonu a.m.k. einu sinni á ævinni. Sumum kann að finnast það vera skemmtileg reynsla og smá krydd í tilveruna. Aðalatriðið hlýtur að vera að varast að taka spádóma of alvarlega og minnast þess ávallt, hverju svo sem spáð er, að hver er sinnar gæfu smiður. Það siglir engin hinu persónulega fleygi nema skipstjórinn og á þeirri leið er bara einn ábyrgur, hann sjálfur.