Varasamt að blogga um erfiða lífsreynslu.

Ég vil taka undir með sjúkrahúspresti í Mbl. í dag þar sem hún ráðleggur foreldrum að hafa bloggsíður barna sinna læstar og að blogg um erfiða reynslu geti haft neikvæðar afleiðingar. Eins og fram kemur og vitað er þá hefur það færst í vöxt að foreldrar langveikra barna bloggi um reynslu sína, tilfinningar og meðferð. Þegar fólk opinberar sig og börn sín með þessum hætti fyrir alþjóð þá er hætta á að einhverjir taka hlutina úr samhengi, misskilningur geri vart við sig og viðbrögð séu ekki endilega alltaf jákvæð. Á þetta hefur áður verið bent og ekki vanþörf á. Blogg eða skrif hvort sem það er sett í bréfaform eða í dagbækur hefur þekkt meðferðargildi, fólk hreinlega skrifar sig frá vanlíðan eða áföllum. Það er mjög svo af hinu góða.  Hvað bloggið varðar er reynslan opinberuð fyrir stórum hópi af alls konar fólki. Vissulega má skilja hversu gott það er fá stuðningsyfirlýsingar og hvatningaorð frá kunnugum jafnt sem ókunnugum, finna að fjöldinn allur fylgist með manni og hugsar til manns. Hættan er samt eins og fyrr segir að ekki séu öll viðbrögð jákvæð. Fyrir foreldra langveikra barna getur slíkt verið mikið áfall og skapað enn meiri vanlíðan en ella. Mín skoðun er sú að fólk í þessari stöðu eigi einungis að hafa bloggsíður sínar opnar fyrir vini og vandamenn en ekki fyrir alþjóð. Slíkt er allt of áhættusamt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Sammála!

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 5.3.2007 kl. 10:45

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

 Góð ábending.  Það er alveg rétt að maður veit aldrei hverjir lesa og kommentera á það sem maður skrifar.  Og ef maður er viðkvæmur fyrir, getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.  Mér finnst pistlarnir þínir undanfarið fullir af visku og góðum ráðum, sem gott er að hafa í huga og melta.  Hafðu þökk fyrir Kolbrún mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.3.2007 kl. 11:47

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég þekki sjálf nokkra sem blogga um erfiða lífsreynslu og veit að þeir telja slíka tjáningu hafa hjálpað sér. Ég hugsa að fáir sem eru að kljást við mjög erfiða sjúkdóma séu að pæla í því að margir lesi bloggið en ég  veit dæmi um að það hjálpi viðkomandi mikið að fá uppörvandi athugasemdir og finna hlýhug frá ættingjum og vinum þegar þeir eru jafnvel staddir erlendis í meðferð.

það líka hjálpar að finna aðra í sömu aðstæðum. Ég hef fylgst með því að foreldrar barna sem eru með sjaldgæfar fatlanir og sjúkdóma hafa myndað samfélög á Netinu og skipst á upplýsingum og leyft öðrum - fyrst og fremst foreldrum barna sem eru nýlega greind með sama sjúkdóm - að lesa og fylgjast með. Það tala allir sem ég þekki sem t.d. hafa greinst með krabbamein um hve mikil stoð er að tala við aðra sem hafa gengið í gegnum það sama.

 Ég held að það að fá ruddaleg viðbrögð sé eitthvað sem þú getur alltaf átt von á svo framarlega sem einhverjir snertifletir eru milli þín og umhverfisins. Ég man ennþá eftir seinustu ferðinni sem ég fór með móður mína niður í bæ áður en hún dó. Við vorum að fara í gleraugnaverslun, hún þurfti að máta gleraugun og hún gat lítið gengið og alls ekki frá bílastæði svo ég stöðvaði bílinn við verslunina og við hjálpuðum henni út en vegna veikinda hennar þá hreyfði hún sig mjög hægt og hún gekk við stað. Það skipti þá engum togum að bílstjóri sem hafði ætlað að beygja einnmitt þar sem við stoppuðum veittist að okkur með óbótaskömmum, lá á flautunni og hrópaði ókvæðisorð út um bílgluggann.  Enn þann dag í dag líður mér illa þegar ég kem á þennan stað á Laugaveginum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.3.2007 kl. 15:49

4 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Sammál þér Kolbrún, þetta er hinsvegar atriði eða mál sem fólki finnst svo sjálfsagt að tala um, það er að segja fólki sem á langveik börn, sérstaklega ef bornin eru orðin 5 eða 10 ára.

Ástæðan er bara einfaldlega sú að þetta fólk það oft á tíðum þekkir einga nema aðra sem eru í sömu stöðu og er þetta því svo eðlilegt að ræða þessi mál, síðan eru foreldrar sífellt hjá bláókunnugum aðilum með börn sín í baráttunni við td. sjúkdóminn og jafnvel kerfið, réttindamál ofl.

Sem sagt fólk áttar sig sennilega ekki á þessu því þetta er því svo eðlilegt.

Kv. SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 5.3.2007 kl. 17:15

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég kvitta heilshugar undir þetta. Það getur boðið upp á ansi vafasöm ráð frá fólki, sem ef til vill meinar vel og alið á sorginni og biturðinni, með að velta sér upp úr tregafullu þáttum reynslunnar.  Svo eru líka fullt af sjálfskipuðum ráðgjöfum til, sem hafa ekkert til brunns að bera annað en að upphefja eigin sjálfsmynd á eigin forsendum.  Þá á ég helst við þá sem kalla sig spíritista eða tala á þeirra nótum. Sært fólk er opið og varnarlaust og tilbúið til að taka hvern vonarneista sem býðst. Þetta bíður upp á misbeitingu og misnotkun.

Ég hef sjálfur skrifað á hálvegis terapískum nótum á mínu bloggi en geri það svona frekar prósakennt þannig að aðrir hafa grienilega skemmtun af. Þetta hefur hjálpað mér ómælt en ég hef aldrei lagt líf mitt undir ráð og umsýslan bloggfélaga. Slíkt má koma í veg fyrir með framsetnigarmátanum.

Hlýhugur og uppörvandi athugasemdir eru öllum góð og holl, sem eiga í basli með sjálfsmynd sína og ég held að í flestum tilfellum, sé blogg í þessa veru jákvæð fyrir alla hlutaðeigandi. En...aðgát skal höfð í nærveru sálar, eins og segir í kvæðinu. Þar segir einnig: Oft leyndist strengur í brjósti sem brast, við biturt andsvar gefið án saka. Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei er tekið til baka. 

Jón Steinar Ragnarsson, 5.3.2007 kl. 17:20

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það eru alltaf tvær hliðar á málunum.  Auðvitað er svona opinberun vandmeðfarin. Þó held ég að jákvæðu hliðarnar á þessu tjáningarformi séu fleiri en þær neikvæðu. Við getum alltaf átt von á vondum viðbrögðum og tam væri gott að búa sig undir það.  Mér finnst það jákvætt að fólk er að slíta af sér leyndarmálafjötrana þar sem félagsleg einangrun  er eitt af afleiðingum þeirra.

 Takk fyrir góða pistla Kolbrún

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.3.2007 kl. 19:32

7 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Hverjir hér í Athugasemdum eiga börn sem eru "fötluð"? Ég bara spyr. Ég svara fyrir mig að það á ég og hef því lifað bæði án þess að eiga fatlað barn og eins því lifi að eiga og lifa með yndislegu barni sem á við fötlun að stríða. Ég tek heilshugar undir það að það eru ávallt tvær hliðar á öllum málum

Kv. SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 6.3.2007 kl. 22:11

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband