Er múgsefjun í íslenskum stjórnmálum?

Orðið múgsefjun  hefur skotið upp kollinum endrum og sinnum í stjórnmálaumræðu nú í aðdraganda kosninga. Nú síðast heyrði ég það nefnt í tengslum við stefnu Frjálslyndaflokksins í innflytjendamálum. Skoðum aðeins hvað þetta hugtak merkir?

Múgsefjun og múgæsing er stundum notað jöfnum höndum enda þótt hugtökin –sefjun og -æsing merki ekki beint það saman. Sefjun þýðir slökun en æsing þýðir eins og orðið bendir til æsingur eða uppnám. Þegar talað er um múgsefjun/múgæsing er að öllu jöfnu verið að vísa í ástand sem einkennir múg þ.e. hóp við ákveðnar aðstæður. Oft er talað um múgæsing þegar stórir hópar koma saman og einstaklingarnir í hópnum æsa hvern annan upp til að framkvæma ákveðið atferli sem sérhver einstaklingur í hópnum myndi annars ekki viðhafa væri hann ekki hluti af þessum tiltekna hópi. Hér kemur skýringin á af hverju „sefjun“ er einnig notað um þetta fyrirbæri en það er vegna þess að þegar einstaklingurinn lætur hrífast af tilfinningarhita hinna í hópnum slævist hugur hans og hann hegðar sér jafnvel þvert gegn eigin dómgreind og skynsemi.

Múgæsing getur verið gríðarlega sterkt fyrirbæri.   Dæmigerðar aðstæður fyrir múgæsingu eru óeirðir, trúarsamkomur og íþróttakeppnir s.s. fótbolti. Múgæsing þarf ekki alltaf að vera í neikvæðum skilningi þó svo að almenningur tengi það gjarnan við neikvæða atburði. Þeir sem eru hluti af múgæsingi skynja það ekki endilega sem neikvætt t.a.m. þegar verið er að fagna, hvetja eða tilbiðja. Ef hins vegar skynsemi og dómgreind heils hóps víkur fyrir múgsefjun sem einkennist af reiði, hatri og illsku í garð náungans þá hefur múgsefjunin breyst í hættulegt vopn.

Dæmi um múgæsing sem finna má í skólabókum er sagan af hópi fólks sem mændi upp á þak á háu húsi en þar stóð maður sem var að mana sig upp í að stökkva af húsþakinu þ.e. svipta sig lífi. Þegar þeir fyrstu komu að og urðu mannsins varir fylltust þeir eðlilega skelfingu og vonuðust til að maðurinn myndi sjá sig um hönd eða að honum yrði talið hughvarf frá fyrirætlan sinni. Skyndilega hóf einn í hópnum að kalla “stökktu, stökktu„ og áður en langt um leið hrópuðu margir aðrir í hópnum „stökktu, stökktu“

Í þessu tilviki er talað um fjöldamúgæsing eða mass hysteria. Enda þótt gera má ráð fyrir að allir þessir aðilar væru skynsamt fólk þá viðhöfðu þeir afar neikvætt atferli á þessari stundu, atferli sem það, eftir á að hyggja, myndu jafnvel skammast sín mikið fyrir. Hefðu þeir verið einir á staðnum má leiða sterkum líkum að því að hegðun þeirra hefði ekki falið í sér hvatningu til mannsins á þakinu að stökkva.

Það skal viðurkennt að hér er fjallað um fremur ýkt dæmi af múgæsingi.
Samt sem áður með lýsingu á hugtakinu í huga getum við  e.t.v. betur áttað okkur á hvort einhver óráðsæsing hafi gripið íslenskan múg í tengslum við strauma og stefnur stjórnmálaflokkanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held það hljóti að vera ákveðin múgsefjun í gangi í íslenskum stjórnmálum. Sjáðu bara hversu margir eru búnir að blogga um "Vel heppnaðan landsfund". Þetta fólk er augljóslega ekki með sjálfu sér.

Egill Harðar (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 12:33

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

En hver hefur þá ýtt undir þessa múgsefjun/múgsæingu? Frjálslyndi flokkurinn? Hvers vegna skilar það sér þá ekki í meira fylgi við hann? Þess utan hafa skoðanakannanir sýnt meirihluta stuðning við strangari innflytjendalög áður en frjálslyndir tóku upp núverandi stefnu sína í innflytjendamálum þannig að hvernig sem á málið er litið gengur ekki upp að þeir hafi ýtt undir slíkt sé það til staðar.

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.4.2007 kl. 15:37

3 identicon

Frjálslyndi flokkurinn? Ýta þeir undir nokkuð annað en fordóma?

Egill Harðar (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 22:55

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skelfilegt fyrirbrigði, múgæsing. Takk fyrir pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.4.2007 kl. 17:23

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband