Fyrirspurn til Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins

 Mér þætti afar áhugavert að heyra hver persónuleg afstaða Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins sé til þess að Tryggingarstofnun taki þátt í kostnaði sálfræðiviðtala hjá sálfræðingum sem reka eigin stofur á sama hátt og gert er nú um sambærilega þjónustu geðlækna.
Ég er ekki að falast eftir að heyra hver stefna Framsóknarflokksins er í þessu máli enda er hún mér vel kunn heldur hvert sé persónulegt álit formannsins.

Mér finnst það skipta öllu máli fyrir þá stétt sem ég tilheyri að heyra hvað Jóni finnst um þetta mál sem væntanlega heldur áfram að vera í umræðunni þar til viðunandi lausn fæst. Málið er nú fyrir dómstólum og er dóms að vænta 9. maí næstkomandi. Hvernig svo sem hann mun hljóða mun Framsóknarflokkurinn, verði hann aftur í ríkisstjórn, þurfa að horfast í augu við og takast á við að hvorki Sálfræðingafélagið né þeir skjólstæðingar sem hafa hug á að leita sér sálfræðiþjónustu hjá sjálfsstætt starfandi sálfræðingum munu  líða þann órétt og mismunun sem tíðkast hefur fram til þessa hvað þetta mál varðar.  Hvað varðar frekari upplýsingar um málið má sjá í bloggfærslu minni hér fyrir nokkrum dögum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Mig langar svo að fylgjast með svarinu með þér

Inga Lára Helgadóttir, 23.4.2007 kl. 12:18

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ekkert mál ef það þá kemur.

Kolbrún Baldursdóttir, 23.4.2007 kl. 15:44

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Sæl Kolbrún, það verður fróðlegt að sjá hvort Jón les bloggið þitt, og ég er viss um að þetta væri þörf viðbót við okkar heilbrigðiskerfi, en segðu mér, hvað segir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins um þetta mál? Ég fann ekkert um þetta eða sálfræðinga yfirleitt í ályktunum Sjálfstæðisflokksins. Nú held ég að þið Geir hljótið að hittast reglulega á fundum frambjóðenda, hefurðu spurt hann út í þetta mál?

Pétur Gunnarsson, 23.4.2007 kl. 23:51

4 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Jú Pétur, það er um þetta í ályktun Sjálfsstæðisflokksins og hafði ég sérstaklega samband við formann heilbrigðisnefndar vegna þessa. Sálfræðingar eru reyndar ekki nefndir sérstaklega en eins og þetta er orðað þá skilst það vel. Kíktu inn á vef XD og skoðaðu þessa ályktun. Þetta er margrætt og um málið var amk þverpólitísk samstaða þar til Framsókns ákvað að með því að setja sálfræðing á heilsugæslustöðvar væri málið leyst. Jón Kristjánsson sagði fyrir síðustu kosningar að brýnt væri orðið að semja við sálfræðinga. Eftir kosningarnar kvað við annan tón hjá honum og Siv fylgdi honum að sjálfsögðu og var ósveigjanlegri en Jón ef eitthvað var.

Kolbrún Baldursdóttir, 24.4.2007 kl. 07:47

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Mig langar til að spyrja þig hvort þú persónulega teljir fyrirstöðuna vera frekar í heilbrigðisráðuneyti eða fjármálaráðuneyti?

Hallur Magnússon, 24.4.2007 kl. 09:29

6 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Já, Kolbrún, ég las einmitt ályktunina og mér finnst það nú býsna bratt hjá þér að telja að í henni felist stuðningur við opinbera niðurgreiðslu á þjónustu sálfræðinga, það þarf mikla lestrarkunnáttu til að leggja hana út á þann veg. En eins og þú nefnir hafa Jón Kristjánsosn og Siv verið áhugasöm um þetta og Hallur bendir á að fjármálaráðuneytið sem hefur á endanum mikið um þetta að segja. Minni til dæmis á að fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 gerðu Jón Kristjánsson og Ingibjörg Sólrún samkomulag um uppbyggingu hjúkrunarheimila í borginni en Geir Haarde, þá fjármálaráðherra, sagði þann samning marklaust plagg sem hefði ekkert gildi.

Pétur Gunnarsson, 24.4.2007 kl. 11:11

7 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ályktunin er býsna skýr eins og sjá má hér að neðan. Alla vega er ég nægjanlega vel læs til að skilja hana. Eftir að hafa gengið milli þingflokka, þingmanna og ráðherra þá er svarið já, fyrirstaðan er klárlega hjá Framsóknarflokknum.

Brot úr ályktun Velferðarnefndar frá Landsfuni:
„Lagt er til að sjálfstæðum aðilum verði í auknum mæli gefið færi á að taka að sér verkefni á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu og að kostir einstaklingsframtaks verði nýttir á þessu sviði. Má þar t.d. nefna góða reynslu af samningum um einkarekna heilsugæslu. Áhersla er lögð á fjölbreytt framboð þjónustu, gott aðgengi að upplýsingum um hana og að fagstéttum verði ekki mismunað hvað varðar þjónustusamninga við Tryggingastofnun ríkisins. “

Kolbrún Baldursdóttir, 24.4.2007 kl. 17:03

8 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Bloggsíður hafa nú hvað mest að gera með persónulegar skoðanir. Á þeim tjá sig bæði ráðherra og þingmenn sem og aðrir. Ég held að Jón Sig. sé ekkert yfir það hafinn að „blogga“ en svo er honum auðvitað velkomið að hringja í mig. Afstaða hans þarf að vera opinber eftir áralangt strögl í þessu máli. Það gæti jú skeð að Framsókn verði aftur hluti af ríkisstjórnarsamstarfi.
 Svo held ég líka að Jón þurfi ekkert á neinum að halda á þessum bloggsíðum til að stand vörð um sig.

Kolbrún Baldursdóttir, 24.4.2007 kl. 17:10

9 Smámynd: Hallur Magnússon

Mér þykir þá hafa orðið athyglisverð breyting hjá vinum mínum í fjármálaráðuneytinu ef þetta er satt hjá þér Kolbrún! Verð að spurja minn mann á bremsunni í fjármálaráðuneytinu í næsta hádegisverðarfundi Hornafjarðarklíkunnar!

Hallur Magnússon, 25.4.2007 kl. 08:43

10 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Þetta er allt spurning um forgangsröðun Hallur minn og hagræðingu að sjálfsögðu. Ekki hefur skort fé til að setja í eitt og annað sem skilað hefur misgóðum eða engum árangri. Skemmst er að minnast alls þess fjármagns sem fór í Byrgið. Heilbrigðisráðuneytið hefur úr ákveðnu fjármagni að spila hverju sinni, spurning er bara hvernig ráðherran vill verja því. Ef þú hittir Jón Sigurðsson, endilega bentu honum á þessa umræðu okkar. Kannski vill hann leggja orð í belg.

Kolbrún Baldursdóttir, 25.4.2007 kl. 10:13

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband