Gæfusmiðurinn

Það er óhemju mikið lagt á börn sem alast upp við ótryggar fjölskylduaðstæður eins og drykkju foreldra,  andleg veikindi þeirra eða heimilisofbeldi.

Þetta eru börnin sem aldrei geta vitað fyrirfram hvernig ástandið er heima þegar þau koma úr skólanum. Þrátt fyrir óvissu og óöryggi læra mörg að gæta leyndarmálsins. Mörg forðast að koma heim með vini sína og sum reyna að halda sig sem mest hjá vinum eða ættingjum eins og ömmu og afa ef þau eiga þess kost. Börn sem eiga yngri systkin finnst mörgum þau verða að vera til staðar á heimilinu til að geta verndað yngri systkini eða staðið vörð um foreldri ef þau óttast að ástandið verði slæmt á heimilinu. 

Barn sem elst upp við erfiðar heimilisaðstæður sem þessar fer oftar en ekki á mis við hvatningu, fræðslu og viðhlítandi umönnun. Sum eru hreinlega vanrækt. Glími þetta sama barn einnig sjálft við einhverja röskun t.a.m. ADHD eða aðra röskun getur staða þess verið sérlega bágborin. Sama má segja um börnin sem eru að takast á við einhver afbrigði námserfiðleika, félagsleg vandamál eða annan vitsmunaþroskavanda.

 „Sjúkt“og skaðlegt samskiptakerfi s.s. öskur, hótanir, viðvarandi rifrildi eða langvarandi þagnir og samskiptaleysi eru algengar á heimilum þar sem foreldrar glíma við geðræn veikindi, fíkni- eða reiðstjórnunarvanda. Sum börn tileinka sér neikvæðan talsmáta sem þau heyra á heimilinu þar sem þau þekkja e.t.v. ekkert annað og telja samskipti sem þessi einfaldlega eðlileg. Mörg börn sem alast upp við erfiðar aðstæður eins og þessar koma út í lífið með brotna sjálfsmynd, vanmáttarkennd og óöryggi í félagslegum aðstæðum.

Þeir sem hafa verið aldir upp á heimilum þar sem „sjúkt samskiptakerfi“ var við lýði, eiga oft sem fullorðið fólk erfitt með að lesa í aðstæður. Þeim hættir einnig til að oftúlka eða jafnvel misskilja orð og atferli. Einstaklingur með brotna sjálfsmynd á það einnig til að gera óraunhæfar kröfur til sjálfs síns og stundum einnig til annarra. Brotinni sjálfsmynd fylgir iðulega sjálfsgagnrýni og sjálfsniðurrif. Séu gerð mistök á einstaklingur með neikvæða sjálfsmynd afar erfitt með að fyrirgefa sér. Hugsanir á borð við„ég er ómögulegur“, „ég er alltaf að gera mig að fífli“, „ég klúðra alltaf öllu“ eða „það gengur aldrei neitt upp hjá mér“ vilja sækja á.

Óttinn við höfnun og neikvætt almenningsálit er daglegur ferðafélagi einstaklings sem hefur ekki mikla trú á sjálfum sér og líður illa í eigin skinni. Sé honum hrósað, þá líður honum jafnvel bara enn verr því honum finnst hann ekki eiga hrósið skilið. Hann einfaldlega trúir ekki að hann geti hafa gert eitthvað gott.  Í samskiptum við aðra eru varnir einstaklings sem líður illa með sjálfan sig oft miklar. Sumir eiga í erfiðleikum með hreinskilni og finnst erfitt að tjá skoðanir sínar og tilfinningar. Að sama skapi getur hann átt erfitt með að setja ekki bara sjálfum sér mörk heldur einnig öðrum. Einstaklingur sem er með mikla minnimáttarkennd á iðulega erfitt með að taka gagnrýni.  Hin minnsta athugasemd getur í verstu tilfellum framkallað sterk varnarviðbrögð sem leiðir af sér tilfinningu vonleysis og vangetu.

Þeim sem líður með þessum hætti hefur stundum skerta sjálfsvirðingu og tilfinning um verðleika getur verið dauf.  Stundum nær minnimáttarkennd, pirringur og jafnvel öfund stjórninni, ekki bara á hugsun heldur einnig á atferli. Þá er stundum eins og sefjun finnst í því að skapa óreiðu. Tilgangurinn, meðvitaður eða ómeðvitaður, er e.t.v.  á þessari stundu ekki alltaf ljós manneskjunni og leiði fylgir oft í kjölfarið.

Einstaklingi  sem óttast að öðrum finnist hann lítils virði finnst sem hann geti ekki átt mikla hamingju skilið. Gangi honum vel og allt virðist ganga honum í haginn fyllist hann jafnvel óöryggi og kvíða. Hann er þess jafnvel fullviss að velgengni geti ekki varað lengi.

Þeim einstaklingi sem hér hefur verið líst finnur sig stundum í nánu sambandi við annan aðila sem glímir við sambærilegan vanda, stundum fíknivanda með tilheyrandi fylgifiskum.

Börn frá heimilum þar foreldri glímir við alvarleg andleg veikindi,  þekkja e.t.v. fátt annað en skipulagsleysi, óvæntar uppákomur og óreiðu í uppvexti sínum. Þegar komið er á fullorðinsárin er þess vegna stundum ofuráhersla lögð á reglu og skipulag.

Birtingarmyndirnar eru margar s.s. ofur- hreinsi- og tiltektarþörf. Einnig rík þörf á að stjórna öðrum og hafa fulla stjórn á umhverfinu. Fyrirhyggjan, eins nauðsynleg og hún er, getur auðveldlega gengið út í öfgar. “Allt þarf helst að vera „fullkomið“, en samt er aldrei neitt nógu gott. “Hálfa glasið er áfram séð sem hálftómt en aldrei hálffullt.” Stundum eru öfgarnar alveg í hina áttina þegar óreiða og skipulagsleysi nær yfirtökum í lífi einstaklingsins.

Það er vissulega mjög sammannlegt að efast stundum um sjálfan sig og finnast maður ekki vera að standa sig. Sjálfsöryggi sérhvers einstaklings tekur mið af mörgu, s.s félagslegum aðstæðum hverju sinni og  hvort viðkomandi telji sig standast eigin væntingar og annarra. En fyrir þann sem er alinn upp í umhverfi þar sem reglur og norm voru hunsuð og almennum umönnunarþáttum jafnvel ekki sinnt, er baráttan við vanmáttartilfinninguna og óttinn við höfnun stundum daglegt brauð. 

Þrátt fyrir erfiða bernsku virðast samt margir koma með eindæmum sterkir út í lífið. Þeim tekst, stundum með góðra manna hjálp að að átta sig á samhengi hlutanna, vinna með sjálfið og taka ákvarðanir sem koma þeim til góða til skemmri eða lengri tíma.

Ástæðan er sú að það eru ótal aðrar breytur, innri sem ytri sem hafa áhrif á heildarútkomuna. Sum börn eru svo lánsöm að hafa kynnst í uppvexti sínum, fólki sem tók þau að sér. Ömmur og afar geta verið sannir bjargvættir svo fremi sem þau eru ekki meðvirk með hinu sjúka foreldri. Sumir eru svo lánsamir að hafa persónuleikaeinkenni, s.s. gott mótlætaþol, þrjósku í jákvæðri merkingu, stolt og þrautseigju. Þættir sem þessir hjálpa þeim að berjast við fortíðardrauga og forðar þeim frá að festast í hlutverki fórnarlambsins.

En það kostar að jafnaði mikla og stöðuga vinnu að slíta af sér íþyngjandi fortíðarhlekki. Það kostar vinnu sem aðeins manneskjan sjálf getur unnið. Aðstoð fagfólks og ýmis handhæg meðferðarverkfæri eru oft nauðsynleg í þessari vinnu og stundum hjálpar lyfjameðferð til að slíta vítahring neikvæðra hugsana. Hafi einstaklingurinn yfir höfuð löngun til að ná tökum á tilverunni og verða skipstjóri á eigin fleyi þá er það góð byrjun.

Þegar unnið er með sjálfsmyndina eru bakslög óhjákvæmileg. Sjálfvirkar neikvæðar hugsanir vilja oft halda áfram að skjóta upp kollinum og framkalla hina gamalkunnu vonda líðan. Tilfinningin um hvað maður á „bágt“ vill loða við og hvað aðrir voru „vondir“, ómögulegir og hvernig þeir brugðust. Tilfinningar sem búið hafa innra með manneskjunni frá barnsaldri hverfa ekki svo glatt. Þær komu til vegna ákveðinna aðstæðna. Stundum þarf einfaldlega að sætta sig við að þær verða verða þarna eitthvað áfram. Þær fá þá sína sérstöku skúffu en umfram allt má ekki leyfa þeim að stjórna daglegum athöfnum og ákvörðunum. skipstjóri

Sá dagur getur markað nýtt upphaf þegar manneskjan segir við sjálfan sig  „Ég er minnar gæfu smiður“. Þar með ákveður viðkomandi að hefja hreinsun í hausnum á sér og taka til í sínu lífi. Hálfnað er verk þá hafið er segir máltækið. Vinnan felst m.a. í að forgangsraða, henda út úreltum hugsunum sem bara láta manni líða illa. Hlúa þess í stað að styrkleikunum og beina sjónum að því góða sem er innra og allt um kring. Sem fullorðinn er það aldrei of seint að byrja að taka stjórn á því sem maður getur í raun og sann stjórnað, sjálfum sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband