Að setja mörk og segja skilið við meðvirkni og þörfina að þóknast
1.5.2016 | 14:01
Það býr í flestu fólki þörf og löngun til að hjálpa og styðja sína nánustu og einnig aðra bæði þá sem við umgöngumst en líka ókunnugt fólk. Og þannig á það að vera. Okkur ber að huga að náunganum, rétta honum hjálparhönd og eftir atvikum stíga út fyrir þægindarammann til að aðstoða aðra. Góðmennska og hjálsemi er eitt aðallímið í samfélagi eins og okkar.
En hjálpsemi á sína öfgafullu og ýktu birtingamynd eins og allt annað. Það er t.d. þegar hjálpsemin er drifin áfram af tilfinngum meðvirkni og þörfinni fyrir að þóknast. Fólk sem er krefjandi og þurftarfrekt gengur iðulega á lagið gagnvart þeim sem eiga erfitt með að segja nei eða setja eðlileg mörk. Gagnvart krefjandi fólki upplifa hinir meðvirku sig oft í stöðu bjargvættar eða verndara. Í þessum tilfellum getur hjálp-, og greiðsemin farið að vinna gegn þeim sjálfum og er jafnframt ekkert endilega að gagnast þeim sem hana þiggur. Sá sem er læstur inn í boxi meðvirkni leyfir oft hinum krefjandi einstaklingi að ná stjórn á sér og stýra líðan sinni. Sé hann ósáttur og vansæll, er meðvirki hjálparaðilinn það líka.
Krefjandi einstaklingar
Þegar talað er um að einhver sé krefjandi er verið að vísa til fólks sem er ítrekað að biðja um eitthvað sem það þarfnast eða kvarta yfir að vanta og nota þá samskipti s.s. að heimta, nöldra eða kvabba. Stundum er það vegna þess að þeim finnst þeir eiga bágt og geti ekki aðra björg sér veitt. Þeir sem eru frekir á aðra, (stundum vísað til sem orkusugur) er oft fólk sem líður af einhverjum orsökum illa. Sumir hafa lágt sjálfsmat og eru óöryggir með sig og/eða eru í erfiðleikum með sjálfa sig. Vegna vanlíðunar geta þeir orðið ofuruppteknir af sjálfum sér, aðstæðum sínum og tilætlunarsamir og eiga þar að leiðandi erfiðara með að setja sig í spor annarra. Þetta er einnig stundum fólkið sem finnst það fá minna en aðrir; finnst það ekki fá næga athygli; finnst að ekki sé tekið eftir verðleikum þess eða finnst að það fái ekki það sem það verðskuldar. Því finnst það jafnvel vera óheppnara en aðrir eða vera beitt meira órétti/óréttlæti en almennt gengur og gerist. Til að fá sínu framgengt, eða til að fá vorkunn og samúð notar það oft ákveðin stýritæki í samskiptum s.s. svipbrigði, fýlu, hunsun, þögn/þagnir eða aðrar neikvæðar tilfinningar og sá þannig fræi vanlíðunar og óöryggis í hjarta þeirra sem þeir umgangast.
Sá sem á erfitt með að setja öðrum mörk og er meðvirkur er iðulega viðkvæmur gagnvart þeim sem krefst mikils, enda finnst honum, í sinni meðvirkni, hann beri á einhvern hátt ábyrgð á líðan hans. Honum finnst hann skyldugur til að reyna að bæta líðan þessa einstaklings og gera hann glaðari. Í viðleitni sinni til að hjálpa fer hann jafnvel að stjórna eða plotta bak við tjöldin til að greiða leið þess sem gerir kröfurnar.
Innst inni veit hinn meðvirki stundum ósköp vel að hamingja og velgengni er að stærstum hluta í höndum hvers og eins. Engu að síður þorir hann oft ekki að að segja "nei" við hinum ýmsu kröfum eða setja nauðsynleg mörk því hann óttast sterk viðbrögð og höfnun. Ákveði hann að setja mörk fær hann jafnvel samviskubit og finnst hann hafi brugðist.
Orsakir að baki meðvirkni og þess að geta ekki sett öðrum mörk
Oft má leita orsaka meðvirkni og þess að vilja þóknast í uppeldisaðstæðum. Hugmyndir og skilaboð sem komin eru úr því umhverfi sem einstaklingurinn ólst upp í hafa iðulega mikil og oft varanleg áhrif. Ekki er óalgengt að foreldrar hafi verið fyrirmyndir og tekur einstaklingurinn ýmsar venjur og siði upp eftir því hverju hann vandist á sínu bernskuheimili. Hafi viðkomandi horft upp á meðvirka hegðun foreldris t.a.m. á heimili þar sem annað foreldri var alkóhólisti eða haldið alvarlegum geðrænum erfiðleikum, er allt eins líklegt og hann tileinki sér samsvarandi hegðun og viðbrögð í samskiptum við aðra.
Segja stopp við meðvirkni og að vera sífellt að reyna að þóknast
Ef ekki eru sett mörk er víst að einhverjir gangi á lagið og geri ítrekaðar kröfur sem erfitt getur verið að mæta. Jafnvel þótt þeim hafi verið mætt, koma bara nýjar og fleiri. Sá sem ekki getur sett mörk og er meðvirkur á það á hættu að vera ofnotaður og jafnvel misnotaður. Af vorkunn og samviskubiti heldur hann oft engu að síður áfram að leita leiða til að uppfylla kröfur og telur sig með því vera að bæta líðan þess sem krefst eða biður.
Það hefur verið margsýnt fram á að þeir sem ekki setja mörk eru í hættu á að fara fram úr sjálfum sér, verða ofurþreyttir og fullir streitu og kvíða með tilheyrandi fylgifiskum. Stundum eru þeir fylgifiskar alls kyns andlegir og líkamlegir kvillar og eða ánetjun á áfengi, mat eða öðru sem þeim finnst geta sefað álagið.
Þegar svo er komið þarf að grisja bæði kröfur sem aðrir gera og einnig kröfur sem viðkomandi gerir til sjálfs sín. Fyrsta skrefið er að láta af allri stjórn, viðurkenna vanmátt sinn í málum sem viðkomandi hefur ekki eða á ekki að hafa með að gera. Láta verður af allri stjórnsemi, vélabrögðum og tilraunum til að stjórna umhverfinu hvort heldur leynt eða ljóst. Leggja verður áherslu á að vera heiðarlegur, opinn og einlægur gagnvart sjálfum sér og öðrum. Afneitun og bæling eða réttlæting af einhverri sort á ekki heima í þessari vegferð.
Skoða þarf hvað er mitt og hvað er annarra að gera, skipuleggja, annast um o.s.frv. Horfast þarf í augu við hvernig hræðsla við að vera ekki vinsæll, skemmtilegur eða duglegur hefur stjórnað og hvernig viðkomandi hefur e.t.v. um langt skeið verið að þóknast öðrum af ótta við að vera gagnrýndur, baktalaður eða jafnvel hataður. Feiri spurningar geta hjálpað til að kortleggja sjálfan sig í þessari vinnu:
Hvert er mitt hlutverk?
Hvar liggur mín ábyrgð?
Hef ég verið að fara duldar leiðir til að stjórna?
Er ég einhvers staðar að vinna bak við tjöldin til að hafa áhrif?
Þessi vinna reynist mörgum erfið því þeir óttast svo mjög höfnun, eða að "viðkomandi" verði sér reiðir, sárir eða fari í fýlu í versta falli hætti jafnvel að tala við þá. Þó er það vitað að þeir sem geta ekki sett öðrum mörk geta allt eins komist að því að þegar þeim vantar sjálfum hjálp eru þeir sem hann hefur verið að liðsinna svo mikið ekki endilega reiðubúnir að gjalda líku líkt. Þeir sem setja sjálfum sér og öðrum eðlileg mörk eru mikið líklegri til að öðlast bæði ríkari sjálfsvirðingu og virðingu annarra.
Þeir sem eiga erfitt með að segja nei hafa kannski lengi verið að ganga á eigin varaforða og eru farnir að finna fyrir togstreitu og pirringi sem oftar en ekki beinist síðan að einhverjum allt öðrum. Áður en svo langt er gengið er ekki úr vegi að fara yfir verkefnalistann og athuga hvort ekki megi grisja hann. Leiðin út úr ofurábyrgð og meðvirkni hefst í okkar eigin hugsanagangi. Spyrja þarf sjálfan sig:
- Hver er tilgangurinn og markmið með þessu verki ...?
- Vil ég gera þetta?
- Þarf ég að gera þetta?
- Hvers vænti ég ef ég geri þetta...?
- Fyrir hvern er ég að gera þetta..?
- Hver segir að ég eigi að gera þetta...?
- Hvaðan koma þessar væntingar/kröfur..?
- Hef ég verið beðin um þetta...?
- Á ég að segja nei við þessu..? þar sem þetta er á könnu annars?
Það er á hvers manns ábyrgð að setja mörkin fyrir sig og umfram allt, ekki láta stjórnast af ótta við höfnun eða ótta við að verða ekki elskaður og dáður, virtur eða vinsæll. Neikvæðar hugsanir um aðra manneskju er vandamál þess sem á þær hugsanir en ekki þess sem þær eru um.