Enginn nema óháður aðili sem kemur til greina í þetta verkefni
22.8.2018 | 08:50
Fjölmargar kvartanir hafa borist frá leigjendum Félagsbústaða sem hafa leitað eftir viðgerð vegna myglu og öðru viðhaldi. Þess vegna mun eftirfarandi tillaga verða lögð fyrir fund borgarráðs á morgun 23. ágúst.
Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að meta eignir Félagsbústaða þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti.
Greinargerð
Fjölmargar kvartanir hafa borist frá leigjendum Félagsbústaða sem hafa leitað eftir viðgerð vegna myglu og öðru viðhaldi. Leigjendur segjast ýmist ekki fá nein svör eða sein og þá ófullnægjandi viðbrögð. Beiðni um viðgerð er einfaldlega oft ekki sinnt og gildir þá oft einu hvort íbúar leggi fram læknisvottorð vegna heilsubrests, myndir af skemmdum vegna myglu og jafnvel vottorð frá öðrum sérfræðingum sem skoðað hafa húsnæðið.
Kvartað hefur verið undan myglu og rakaskemmdum í íbúðum og fullyrt að um sé að ræða heilsuspillandi húsnæði. Veikindi hafa verið tengd við myglu og raka í húsnæði sem Félagsbústaðir leigir út. Fjölskyldur hafa stundum þurft að flýja húsnæðið. Þetta fólk hefur sumt hvert ítrekað kvartað en ekki fengið lausn sinna mála hjá Félagsbústöðum sem hefur hunsað málið eða brugðist við seint og illa. Margir kvarta yfir að hafa verið sýnd vanvirðing og dónaskapur í samskiptum sínum við Félagsbústöðum. Oft er skeytum einfaldlega ekki svarað.
Þeir sem hafa kvartað yfir samskiptum sínum við Félagsbústaði segja að starfsfólk hafi sagt þeim bara að fara í mál. Hér um að ræða hóp fólks sem leigir í félagslegu húsnæðiskerfinu vegna þess að það er láglaunafólk, efnalítið og fátækt fólk. Þetta fólk hefur ekki ráð á að fara í mál við Félagsbústaði. Sumir hafa neyðst til þess og eru í kjölfarið skuldsettir umfram greiðslugetu. Það fólk sem stigið hefur fram með kvörtun af þessu tagi segir að Félagsbústaðir hafi ýmist neitað að þessi vandi sé til staðar eða hunsað hann. Í öðrum tilfellum hafa komið viðgerðarmenn og gert eitthvað smávegis en ekki ráðist að grunnvandanum. Mygla og annað sem fólk hefur verið að kvarta yfir hefur því haldið áfram að aukast og haft alvarleg áhrif á heilsu íbúa. Reynslusögur fólks sem leigt hafa hjá Félagsbústöðum eru orðnar margar. Í einni slíkri segir kona frá að í íbúð á vegum Félagsbústaða hafi verið mygla og hafði hún ítrekað kvartað. Múrari hafi komið frá Félagsbústöðum til að athuga með leka og hafi sagt sér að ekki mætti fara í miklar aðgerðir sem kosta mikið. Því var bara settur plástur á skemmdirnar sem dugði í ár. Það sem hefði þurft að gera var að rífa klæðningar inn að steypu og leyfa henni þorna. Þess í stað var farið í að múra upp í og loka. Hér má einnig lesa um sambærilega sögu mæðgna sem ítrekað þurftu að flýja heilsuspillandi húsnæði á vegum Félagsbústaða
http://www.visir.is/g/2018180529713
Haldnir hafa verið fjölmargir fundir vegna sambærilegra mála bæði við notendur/leigjendur og Félagsbústaði m.a. hjá Umboðsmanni borgarbúa. Svo virðist sem Félagsbústaðir séu ekki að greina nægjanleg vel hver viðhaldsþörfin er þegar kvörtun berst og þá til hvaða viðhaldsverka þarf að grípa til að leysa vanda með fullnægjandi hætti. Almennt viðhald virðist vera ábótavant á mörgum eignum Félagsbústaða. Þegar kvörtun berst vísar Félagsbústaðir til heilbrigðisyfirvalda. Heilbrigðisyfirvöld styðjast við sjónpróf og lyktarpróf sem dugar oft ekki til til að finna hver grunnvandinn er. Iðulega er sagt við notendur loftaðu bara betur út. Af þessu að dæma er líklegt að endurskoða þurfi aðferðir sem heilbrigðiseftirlitið notar í málum af þessu tagi.
Í mörgum tilvikum þarf ítarlegar greiningar til að komast að vandanum. Önnur fyrirtæki, einkafyrirtæki bjóða upp á nánari greiningu og kostnaðinn þurfa leigjendur iðulega sjálfir að bera en sem hafa eðli málsins samkvæmt enga fjárhagslega burði til. Í mörgum þessara tilvika er um lekavanda að ræða, vanda sem hefur e.t.v. verið mörg ár að þróast. Af frásögnum að dæma hjá mörgum virðist vera einhver mótþrói hjá Félagsbústöðum í að horfast í augu við að það þarf að setja fjármagn í fullnægjandi viðhald og bregðast við kvörtunum með fullnægjandi hætti. Ekki dugir að senda sífellt lögfræðinga á notendur Félagsbústaða. Nú er svo komið að taka þarf á þessu ástandi fyrir fullt og allt. Horfast þarf í augu við að Félagsbústaðir hafa víðtækum skyldum að gegna gagnvart öllum skjólstæðingum sínum. Hér er ekki um að ræða einkafyrirtæki eða banka. Félagsbústaðir getur ekki alltaf sett þessi mál bara í átakaferli. Hafa skal í huga að fólk er einnig misviðkvæmt gagnvart myglu. Mikilvægt er því að horfa á hvert tilvik fyrir sig í stað þessa að setja alla undir sama hatt. Endurskoða þyrfti alla verkferla Félagsbústaða af óháðum aðila og gera þá gagnsæja. Eftirlit með hvort Félagsbústaða séu að fylgja verkferlum virðist verulega ábótavant.
Upplýsingar í þessari greinargerð eru komnar frá leigjendum Félagsbústaða og fleirum sem komið hafa að málum í tengslum við Félagsbústaða með einum eða öðrum hætti.