Engin gögn falin ofan í skúffu
4.5.2019 | 14:52
Á fundi borgarráðs þann 19. júlí 2018 var samþykkt að skipa þverpólitískan stýrihóp í þeim tilgangi að endurskoða stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins sem jafnframt er sálfræðingur og sérfræðingur í eineltismálum var formaður hópsins. Vinna stýrihópsins hófst formlega í október og lauk í febrúar 2019. Afrakstur stýrihópsins var lagður fyrir borgarráð til samþykktar 7. mars og borgarstjórn 19. mars. Í stýrihópnum voru nokkrar breytingar gerðar á stefnunni og öllu fleiri á verklaginu. Sérstaklega má fagna auknu gegnsæi og tímamörkum sem nú hefur verið sett á vinnslu eineltismála hjá Reykjavíkurborg.
Helstu efnislegar breytingar í stefnunni
Í stefnunni sjálfri var ákveðið að hafa forvarnarkaflann ítarlegri en í fyrri stefnu. Einnig var tekin ákvörðun um að breyta skilgreiningu eineltis lítillega. Stýrihópurinn var sammála um að nota ekki hugtakið síendurtekin eins og er í reglugerð ráðuneytisins nr. 1009/2005 en þar er skilgreining eineltis þannig að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði að hegðunin sé SÍ-endurtekin. Þessu hefur fylgt nokkur vandi. Einstaka rannsakendur hafa nefnilega gengið svo langt að fullyrða að síendurtekin hegðun merki að háttsemin þurfi að vera viðhöfð vikulega yfir það tímabil sem kvörtunin nær til ef hún eigi að flokkast undir skilgreiningu um einelti. Þrenging skilgreiningarinnar með þessum hætti árið 2015 hefur haft fælingarmátt. Sumir þolendur segja að ekki þýði að leggja inn kvörtun þar sem skilgreiningin er allt of þröng. Skilgreiningin í hinni endurskoðuðu stefnu Reykjavíkurborgar er því eftirfarandi:
Einelti er endurtekin ótilhlýðileg háttsemi sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Helstu breytingar á verklagi
Í hinni endurskoðuðu stefnu og breyttu verklagi er gerð skýrari grein fyrir hvað felst í frumkvæðisathugun atvinnurekanda og í hvaða tilvikum ber að gera hana. Skv. 7. gr. reglugerðar 1009/2015 ber atvinnurekanda að bregðast við berist honum ábending. Frumkvæðisrannsókn er þó ekki rannsókn á málum tiltekins starfsmanns líkt og þegar tilkynning berst frá þolanda heldur er þá framkvæmd almenn könnun á tilteknum atriðum á starfsstöð (vinnustaðamenningu, stjórnunarháttum).
Í hinu endurskoðaða verklagi er lögð áhersla á aukið gegnsæi í verkferlum samkvæmt upplýsingalögum og nýjum persónuverndarlögum. Aðeins er hægt að taka við tilkynningu undir nafni. Ef tilkynning er ekki undir nafni fer rannsókn ekki af stað en atvinnurekandi getur hafið frumkvæðisrannsókn samkvæmt ofangreindu. Tilkynnandi getur dregið tilkynningu sína til baka hvenær sem er og mikilvægt er að það sé þá gert með skriflegum hætti.
Málsaðilar, þolandi og meintur gerandi hafa aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem tengjast málinu að teknu tilliti til laga um persónuvernd og vinnslu persónu- og upplýsingalaga nr. 140/2012. Þeir sem rætt er við (vitni) fá að vita það fyrir fram að ferlið er opið og gegnsætt gagnvart aðilum máls sem munu sjá skráningar allra viðtala. Aðilar sem rætt er við fá tækifæri til að lesa yfir það sem hafa á eftir þeim í álitsgerð um málið og þeim gefin kostur á að lagfæra framburð sinn óski þeir þess. Á fundum í tengslum við málið er rituð fundargerð sem farið er yfir í lok fundar. Fundargerðir skulu vera á stöðluðu formi. Ef aðilar óska eftir afriti af fundargerð er hún afhent.
Óhæði rannsakenda
Sá sem tilkynnir mál er eigandi málsins ef þannig má að orði komast. Teymi hefur leiðbeinandi hlutverk og leiðbeinir viðkomandi við að kæra til lögreglu ef mál eru þess eðlis. Ef fagaðili utan eineltisteyma borgarinnar er falið að rannsaka málið t.d. vegna vanhæfis eða tengsla rannsakenda borgarinnar við aðila málsins skal leita samþykkis þess sem tilkynnti málið (þolanda). Til að niðurstaða könnunar verði trúverðug skal tryggja óhæði rannsakenda ekki ósvipað þegar dómstóll kallar til dómkvaddan matsmann. Tilkynnandi verður að fá tækifæri til að hafa hönd í bagga með hverjir rannsaka mál hans. Hann þarf að geta treyst því að sá sem fenginn er til að rannsaka málið sé sannarlega óháður.
Aðrar nýjungar eru þær að sett hafa verið inn tímamörk rannsóknar og verði tafir skal upplýsa aðila máls. Einnig er opnað fyrir þann möguleika að ef ekki næst einróma niðurstaða fulltrúa teymis við rannsókn gefst færi á að skila séráliti sem tilgreinir afstöðu.
Við endurskoðun stefnunnar og verklags var tekið tillit til ábendinga sem borist hafa frá starfsfólki sem hafa verið aðilar máls. Umsagnir voru fengnar frá starfsfólki með reynslu af vinnslu mála af þessu tagi og hafðar voru til hliðsjónar ábendingar frá starfsfólki mannauðsþjónustu og fagsviða borgarinnar. Haldinn var upplýsingafundur með Persónuvernd. Sú gullna regla sem stýrihópurinn fylgdi við endurskoðun stefnunnar og verklags var sanngirni, meðalhóf og gegnsæi.
Grein þessi er birt í Morgunblaðinu 2. maí