Upplýsingafulltrúi Strætó pólitískur ?

Ég er enn svo blaut bak við eyrun í pólitíkinni að ég hugsaði ekki mikið þegar upplýsingafulltrúi Strætó fór að höggva í bókun mína í borgarráði hvað varðar allar þessa ábendingar sem snúast að mestu um framkomu, aksturslag og tímasetningar. En ég fékk ábendingar frá öðrum mér reyndari sem bentu mér að að þetta væri vægast sagt óviðeigandi af starfsmanni opinbers fyrirtækis. Hvað yrði sagt ef upplýsingafulltrúi t.d. Vegagerðarinnar eða annars sambærilegs fyrirtækis færi að blanda sér í umræður alþingismanna um samgöngumál og leggja pólitískt mat á bókanir þeirra í samgöngunefnd þingsins?

 

Upplýsingafulltrúi Strætós er ekki að gagnrýna rangfærslur í bókun minni heldur mitt mat á upplýsingum. Enn og aftur spyr ég mig um þessi svokölluð byggðasamlög. Þau eru eins og ríki í ríkinu og borgin hefur ekkert um þau að segja þótt hún eigi stærsta hlutann í þeim. Þau virðast sem dæmi geta ráðið sér "pólitískan" upplýsingafulltrúa eða annan ef því er að skipta og það gleymist að þetta eru opinber fyrirtæki að mestu í eigu borgarinnar. Maður hélt að opinberir starfsmenn væru eða ættu að vera ópólitískir?

Upplýsingafulltrúinn heggur í mína túlkun á fjölda kvartana til Strætó sem ég segi enn og aftur eru óeðlilega margar hjá þjónustufyrirtæki eins og Strætó. Við erum að tala um að meðaltali 10 á dag jafnvel. Sýnist sitt hverjum með þetta. Ég óskaði eftir þessum upplýsingum og legg mat á þær m.a. í bókun í borgarráði.

Annað í ummælum upplýsingafulltrúans sem birt var á visi.is sem sló mig er þessi talnaleikurinn með „innstig“ . Hann leggur saman ferðafjölda Strætó og býr til nýja tölu farþega upp á tugi milljóna farþega með því að telja hvert innstig margra sömu einstaklinganna að sjálfsögðu.

Mig langar eiginlega að spyrja forstjórann hvor það  sé hluti af starfi upplýsingafulltrúa  að gagnrýna kjörna fulltrúa í eigendasveitarfélögum ef þeir leyfi sér að fjalla um fyrirtækið með gagnrýnum hætti.

 

En hér er bókun mín í heild sinni svona til að setja þetta í samhengi.

Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó bs. frá notendum þjónustunnar kemur fram að fjöldi ábendinga eru eftirfarandi: 2016 - 3654 ábendingar, 2017 - 2536 ábendingar 2018 - 2778 ábendingar. Flestar ábendingar sem berast Strætó snúa að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins sýnist á svari að gæðakerfið sé gott og gengið er strax í málin en fjöldi ábendinga er óheyrilegur. Borgarfulltrúi átti kannski von á 100 til 200 ábendingum en ekki á þriðja þúsund og yfir. Fjölgun er milli ára 2017 til 2018 og munar þar um ca. 200 ábendingum. Fækkun sem er frá 2016 til 2017 heldur ekki áfram árið 2018 heldur fjölgar þá aftur ábendingum. Þetta er afar sérstakt. Flokkur fólksins spyr hvort kafað hafi verið ofan í þessu mál og unnið að því að fækka ábendingum verulega. Áhugavert væri að fá nánari flokkun á þessu t.d. eru flestar kannski kvartanir vegna tímasetningar? Niðurstaðan í huga borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar hann hefur séð þetta svar er að það er eitthvað mikið að í þessu fyrirtæki þegar kemur að þjónustu við farþega. Slíkur fjöldi ábendinga er ekki eðlilegur.

 

Fréttin á visi.is í gær þar sem upplýsingafulltrúinn tjáir sig:

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, gagnrýnir bókun Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi fjölda ábendinga sem borist hafa Strætó síðastliðin þrjú ár. 

Vísir fjallaði um bókunina í gærkvöldi en Strætó bárust tæplega níu þúsund ábendingar á þremur árum, frá 2016 til 2018. 

Í bókun Flokks fólksins sagði að fjöldinn kæmi á óvart og að niðurstaðan í huga Kolbrúnar væri sú að það væri eitthvað mikið að hjá Strætó þegar kæmi að þjónustu við farþega. 

„Okkur fannst þetta svolítið skrýtin bókun. Hún segir að það sé eitthvað mikið að fyrirtækinu en það er ekki meira samhengi. Okkur langar að gefa aðeins meira samhengi því Strætó er með ótrúlega mikla þjónustu. Ef við setjum þetta í samhengi þá eru 8900 ábendingar síðustu þrjú ár en fjöldi innstiga í vagnanna á höfuðborgarsvæðinu síðustu þrjú ár hafa verið 34 milljónir þannig að það er tæknilega séð hægt að tala um 34 milljónir farþega,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi. 

Varðandi það sem einnig er fjallað um í bókuninni að fjöldi ábendinga hafi aukist milli ára segir Guðmundur ástæðuna fyrir því vera að Strætó leggi áherslu á að skrá allt.

„Sama hvort það er kvörtun, hrós, hugmynd eða tillaga,“ segir Guðmundur og bætir við að Strætó fagni öllu því sem komi inn og vilji gefa farþegum sterka rödd. 

„Svo okkur finnst þetta dálítið óábyrg bókun og að skella þessu svona en það er ekkert samhengi á bak við hana.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband