Sorpa með allt niður um sig
24.2.2020 | 17:53
Í morgun var fundur um málefni Sorpu sem okkur borgar- og bæjarfulltrúum var boðið á en eins og menn vita þá hefur minnihluti sveitastjórnar enga aðkomu að málefni byggðasamlaga eins og Sorpu og Strætó bs.
Ég hef lagt það til munnlega og skriflega í bókunum að stjórn víki og skipta þarf líka um endurskoðendur sem og alla sem áttu að hafa eftirlit. Í skýrslu innri endurskoðunar fær stjórn áfellisdóm fyrir andvaraleysi. Það er eins og stjórnin hafi bara beðið eftir að fá gögn á silfurfati í stað þess að eiga frumkvæði af því að nálgast þau. Sorpa er einfaldlega með allt niður um sig og það var ljóst í fyrra þegar milljarða bakreikningur kom vegna byggingu nýrrar jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi.
Þetta fyrirtæki er með ólíkindum. Eins og vitað er framleiðist mikið af metani í Álfsnesi og í stað þess að koma því á bíla er það brennt á báli en það verður að gera ef metan er ekki nýtt til að það fari ekki út í andrúmslofti. Það er þetta með hægri og vinstri höndina í borgarstjórnarmeirihlutanum, Sorpa brennir metani og Strætó notar jarðeldsneyti á vagnanna utan örfárra. Þessi tvö fyrirtæki eru bæði í eigu borgarinnar að stórum hluta en þau geta ekki talað saman til að annað get nýtt það sem hitt framleiðir.
Til að bíta höfuðið af skömminni hefur skipulags- og samgönguráð samþykkt að taka metanbíla af lista vistvænna bíla að því, eins og sagt er í nýjum reglum, að það er ekki hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum.
Á þriðjudaginn í næstu viku er fundur borgarstjórnar. Þá verður Flokkur fólksins með tillögu er varðar notkun metans í stað þess að brenna það á báli. Það er ekki fyrsta tillaga Flokks fólksins um notkun metans.
Tillagan hljóðar svona:
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela fulltrúa sínum í stjórn Sorpu að leggja fram tillögu um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað.
Metanbílar hafa verið teknir af lista vistvænna bíla af því, eins og sagt er í reglum, ekki er hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur, en samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um bíla mega þeir sem teljast vistvænir leggja gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þetta eru reglur sem eru ekki til þess gerðar að hvetja fólk í orkuskiptin. Á sama tíma er Sorpa, sem er byggðasamlag, að brenna metani á báli í stórum stíl. Metanið er því verðlaust á söfnunarstað. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu enn og aftur leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í fulla virkni. SORPA veit augljóslega um flesta notkunarmöguleika en metan selst ekki að sjálfu sér. Metan þarf að selja á hinn almenna bílaflota í Reykjavík. Verð á metani þarf þess vegna að vera samkeppnishæft til samaburðar við aðra orkugjafa svo bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani.