Má ég vera með?

Sem borgarfulltrúi hefði ég haldið að núna sætum við saman meiri- og minnihlutinn í borgarstjórn og ynnum að aðgerðarplani og mótvægisaðgerðum vegna Covid-19. En því er ekki að skipta.
Ég veit svo sem ekki hvað meirihlutinn er að gera en ekki hefur verið óskað eftir aðkomu minnihlutans að þeirri vinnu eftir því sem ég best veit.

Í svona ástandi er það mín sannfæring að við séum sterkari saman en sundruð. Við getum verið sundruð en ekki á hættutímum. Ég, sem kjörinn fulltrúi ber ábyrgð og hef skyldur gagnvart borgarbúum og mitt hlutverk, á þessum fordæmalausa tíma, er að koma að hugmyndavinnu og útfærslu um hvernig huga megi að fólkinu í borginni á meðan varist er og barist gegn Covid-19. Í borgarráði, þann 19. mars lagði ég fram tvær tillögur sem beinast annars vegar að upplýsingagjöf til fólks sem er einangrað og í neyð og hins vegar að hvernig við hlúum að börnum sem eru sérlega viðkvæm vegna t.d. kvíða. Báðum þessum tillögu var hins vegar frestað og komast þar að leiðandi ekki inn í velferðarráð þar sem hægt hefði verið að ræða þær frekar. Stefnt er að fundi í velferðarráði í næstu viku. Mér finnst það blasa við að aðgerðir sem eru mótaðar í breiðri sátt og með aðkomu sem flestra er auðveldara að styðja við og fylgja eftir. Einu tillögur minnihlutans sem fengu framgang á fundinum voru tillögur Sjálfstæðismanna.

Við erum sterkari saman en sundruð og á svona tímum eigum við að vinna saman

 

  1. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg.
    Borið hefur á því að fólk nái ekki sambandi við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Á þessum óvissutímum er fólk með alls kyns spurningar meðal annars um þjónustu á vegum borgarinnar. Fréttir hafa auk þess borist af fólki í neyð, fólki sem treystir sér ekki út og á ekki mat. Ákveðinn hópur fólks er ekki með tölvur og/eða internet og því þarf að tryggja að þessi hópur geti kallað eftir hjálp án vandræða og fengið nauðsynlegar upplýsingar um þjónustuna sem það þiggur eða annað sem tengist borginni án þess að ýmist þurfa á bíða á línunni eða ná ekki í gegn. Álagið er án efa mikið á þjónustumiðstöðvunum og hafa því ekki allir sem telja sig þurfa náð sambandi við félagsráðgjafa. Einnig getur fólk þurft á annars konar aðstoð að halda og vantar upplýsingar um hvert það geti leitað. Í rauninni er ómögulegt að vita allt um það sem mögulega gæti bjátað að hjá fólki á þessum tímapunkti. Því er lagt til að gripið verði til frekari ráðstafana til að mynda örugga samskiptaleið og það er m.a. gert með því að koma á laggirnar tryggri og öruggri símsvörun.

  2. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna COVID-19.
    Mestar áhyggjur þarf að hafa af þeim börnum sem eru „lokuð”, og eiga erfitt með að tjá hugsanir og líðan. Þau kunna að hafa dregið rangar og skaðlegar ályktanir af umræðu um veiruna sem brýnt er að leiðrétta hið fyrsta til að þau geti fundið til öryggis og vissu um að ekkert slæmt muni koma fyrir þau eða þeirra nánustu. Auk aldurs og þroska hafa fjölmargar aðrar breytur, ytri sem innri breytur, áhrif á hvernig börn vinna úr upplýsingum. Orðræðan um faraldinn er í fjölmörgum birtingarmyndum og eðli málsins samkvæmt oft afar tilfinningaþrungin. Útilokað er að halda börnum frá umræðunni enda snýst samfélagið allt í kringum þennan vágest. Börn eru misviðkvæm að eðlisfari. Sum hugsa meira um hættur, sjúkdóma og slys á meðan önnur eru upptekin við annað. Börn með kvíðaröskun eru, í aðstæðum sem þessum, útsettari fyrir öðrum vandamálum t.d. ofsakvíða. Þessum börnum þarf því að veita sérstaka athygli. Börn sem eru lokuð, fámál um líðan sína og hugsanir geta auðveldlega falið vandamál sín það vel að fullorðnir verði þeirra ekki auðveldlega varir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband