Greinilega eldfimt og ofurviðkvæmt
27.8.2020 | 18:52
Af óskiljanlegum ástæðum var tillögu Flokks fólksins um að borgin kynnti sér starfshætti t.d. Þjóðverja í aðgerðum er varða rakaskemmdir vísað frá á fundi borgarráðs í morgun.
Málið var greinilega eitthvað eldfimt því ekki fengust neinar skýringar á frávísuninni.
Tillagan var einföld og mild í sjálfu sér og sneri að því að hvetja umhverfisráð/svið að kynna sér starfshætti frá fleiri þjóðum svo sem Þjóðverjum eða Dönum en þessar þjóðir hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða myglu- og rakaskemmdir í opinberum byggingum.
Ég reiddist því ég hafði lagt vinnu í þessa tillögu og rætt við marga. Staðgengill formanns borgarráðs sem stýrði fundi fleygði þessari tillögu út eins og óhreinni tusku án skýringa nema bara af því að hún hafði valdið. Hvað á maður að halda þegar svona brútal vinnubrögð eru viðhöfð? Af hverju mátti þessi tillaga ekki fara í skoðun?
Hér er bókun við frávísuninni:
Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum og Dönum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir hefur verið vísað frá á fundi borgarráðs án nokkurra raka. Staðgengill formanns borgarráðs segir við frávísun tillögunnar að henni beri ekki skylda til að rökstyðja eitt eða neitt. Af einhverjum ástæðum virðist málið ofurviðkvæmt og eldfimt, svo eldfimt að ekki er einu sinni hægt að senda tillöguna til frekari skoðunar eða umsagnar hjá umhverfissviði?
Fulltrúi Flokks fólksins á því ekki annarra kosta völ en að leggja tillöguna fyrir borgarstjórn. Tillagan var um að bæta loftgæðamál vegna rakaskemmda og annarra ástæðna í skólum en það er stórt vandamál víða. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð. Þessi tækni hefur ekki verið mikið notuð hér nema í kannski einum skóla og gafst það vel. Flokkur fólksins lagði til að umhverfisyfirvöld kynntu sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum í stað þess að trúa í blindni á aðferðir einstakra verkfræðistofa hér á landi.
Tillagan í heild
Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum í aðgerðum sem varða myglu- og rakaskemmdir.
Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagsráð/svið Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum og Dönum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði. Loftgæðamál vegna rakaskemmda og annarra ástæðna er stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar og fer stækkandi. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð og þegar verið er að vinna í menguðum rýmum við hlið rýma sem eru í notkun, til þess að bæta líðan nemenda og starfsfólks og gefa sérfræðingum meira svigrúm til að meta skemmdir og grípa til aðgerða. Þá eru menguðu rýmin innsigluð og aðskilin frá öðrum rýmum og loftefnahreinsitækin notuð til aðstoðar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg skoði þessar aðferðir með opnum hug. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnt sér þá var þessi leið farin í einum af skólum borgarinnar og tókst vel til. Loftefnahreinsitækin virkuðu og ættu því að virka samhliða viðgerðum í öðrum skólum Reykjavíkurborgar til að bæta líðan og minnka kostnað.
Greinargerð
Loftgæðavandinn í skólum og öðrum byggingum í eigu borgarinnar er ekki nýr. Vandinn er mikið tilkominn vegna áralangs vanrækslu borgaryfirvalda að viðhalda húsakosti skóla og fleiri bygginga borgarinnar. Afleiðingar hafa verið slæmar fyrir fjölda nemenda og starfsfólks. Nemendur hafa mátt dúsa of margir í litlum loftgæðum og jafnvel þótt skólastjórnendur hafi ítrekað kvartað hefur verið brugðist seint og illa við í mörgum tilfellum. Nemendur og starfsfólk hafa kvartað yfir slappleika, höfuðverk, auknu mígreni og annarri vanlíðan vegna ástandsins í sumum skólum. Spurning er hvort bestu aðferðum hefur verið beitt í glímunni við raka og myglu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til hér að fulltrúar Fasteignasvið Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði.
Hér er um að ræða aðferðir sem skilað hafa góðum árangri í öðrum löndum eins og Danmörku og Þýskalandi. Einnig hafa þessar aðferðir verið notaðar hér á landi í öðrum sveitarfélögum og á vegum Ríkiseigna eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Ekki þarf að rýma heilu byggingarnar, heldur er hægt að einangra ákveðin skemmd svæði og halda starfsemi áfram með sem minnstu raski. Þessar aðferðir bæta líðan nemenda og starfsfólks fyrir og á framkvæmdatíma og getur minnkað kostnað.
Auðvitað koma loftefnahreinsitæki aldrei í staðinn fyrir viðgerðir, en virka vel sem aðstoð á framkvæmdatíma og einnig fyrir mjög næma einstaklinga þó loftgæði teljist almennt í lagi. Sérfræðingar Fasteignasviðs Reykjavíkurborgar verða að kynna sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum og ekki trúa í blindni á aðferðir einstakra verkfræðistofa hér á landi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að borgaryfirvöld skoði þetta með opnum hug. Hér eru á ferðinni aðferðir sem skila árangri og kosta minna.