Stytting vinnuvikunnar má ekkert kosta
17.1.2021 | 12:59
Það er sérkennilegt að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem að með styttingunni eykst álag á starfsfólk vegna undirmönnunar sem stytting vinnuviku leiðir til. Þetta er í andstöðu við boðun meirihlutans sem er að halda vel utan um starfsfólk.
Þar sem engin viðbót verður á starfsfólki og starfsemin ekki styrkt með aukamönnum þarf hver og einn að hlaupa hraðar til að fá að fara einu sinni í viku fyrr heim. Góð þjónusta við börn byggir m.a. á að fjöldi stöðugilda sé í samræmi við fjölda barna og kröfur sem starfsemin gerir til starfsfólksins. Álag á starfsfólk kemur niður á því sjálfu, börnunum og utanumhaldi starfseminnar. Stytting vinnuvikunnar er frábær kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð og að fólk finni sig undir allt of miklu álagi þá tíma sem það er í vinnunni.
Þess vegna lagði Flokkur fólksins það til í borgarráði í vikunni að gerð verði könnun á hvort og þá hvaða áhrif stytting vinnuvikunnar hefur á börnin, starfsmenn og starfið í leikskólum:
Þetta er lagt til í ljósi þess að forsenda Reykjavíkurborgar á styttingu vinnuviku hjá dagvinnufólki er að breyting á skipulagi vinnutíma megi ekki leiða til breytinga á launum starfsfólks eða launakostnaði starfsstaða þrátt fyrir að opnunartími verður óbreyttur.
Í greinargerð segir að til að tryggja trúverðugleika er mikilvægt að könnun sem þessi verði gerð af óháðum aðilum. Meta þarf áhrif styttingar vinnuvikunnar (bæði kosti og galla) á börnin, starfsmenn og starfið á hlutlausan og faglegan hátt.
Þeir sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafa lýst ánægju sinni með verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði þessu verkefni og batt ávallt vonir við að það myndi verða til framtíðar. Engar upplýsingar hafa þó borist um að styttingin hafi haft einhver áhrif á faglegt starf, öryggi og gæði og því ber að fagna. Eðli málsins samkvæmt leiðir stytting vinnuviku til þess að fleiri börn eru á starfsmann sem þýðir minni tími er til að sinna hverju barni fyrir sig og þá sérstaklega þeim börnum sem höllum fæti standa. Vel kann að vera að þetta jafnist út, að einhverjir foreldrar sæki einfaldlega börnin sín fyrr t.d. þeir sem vinna sjálfir styttri vinnuviku. En það eru margir foreldrar sem eru ekki með styttingu vinnuvikunnar og ef svo er þá er útfærslan oft ólík milli stétta. Því er ekki hægt að stóla á að slík aðlögun/jöfnun verði.
Í ljósi alls ofangreinds leggur fulltrúi Flokks fólksins til að skoðað verði með markvissum hætti hvaða áhrif þessi breyting hefur á starfsfólk, starfið og börnin.