Gróðurhús meirihlutans

Á fjárhagsáætlun 2021 til 2025 ákvað meirihlutinn í borginni að eyða 10 milljörðum á næstu þremur árum í stafræna þróun á Þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar (ÞON). Hvorki er skilgreint að heitið geti, hvað skal vinna, hverjar verða afurðirnar né hvernig þær muni nýtast borgarbúum. Fjáraustur til ÞON er mikill. Þjónustu hefur verið útvistað til einkafyrirtækja og innlend og erlend ráðgjafarfyrirtæki hafa mikil áhrif á rekstur sviðsins. Á sama tíma hefur fastráðnum kerfis- og tölvunarfræðingum verið sagt upp.

Vissulega er nauðsynlegt að ráðast í stafræna þróun á þjónustu borgarinnar til að hún verði aðgengileg og umhverfisvæn.   

Dæmi um stafrænt verkefni þar sem rennt er blint í sjóinn með hvort þjónusta batni eða auki hagræðingu er hið svo kallaða „Gróðurhús“. Utan um „Gróðurhúsið“ hefur verið rekin sérstök skrifstofa á þriðja ár.  
„Gróðurhúsinu“ hefur verið lýst með eftirfarandi hætti:

Þegar þú mætir í Gróðurhúsið ertu í raun að samþykkja að henda þér út í einhvern prósess, eitthvað ferli. Það mun svo leiða þig eitthvert. Það mætti segja að Gróðurhúsið einblíni 90% á ferlið, og svona 10% á útkomuna. Eitt stærsta verkefnið er að samstilla teymið, hjálpa fólki að vinna saman og taka ákvarðanir. Útkoman sjálf skiptir þannig séð ekki höfuðmáli.“

Segja má að „Gróðurhúsið“ sé samnefnari yfir kostnaðarsöm stafræn tilraunaverkefni sem ekkert áþreifanlegt hefur komið út úr.

Á meðan veittir eru milljarðar króna í stafræn tilraunaverkefni bíða 957 skólabörn eftir fagþjónustu m.a. sálfræðinga og talmeinafræðinga. Hluti þessa fjármagns kæmi sér vel til að bæta þjónustu við börn, eldri borgara og öryrkja.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt fjáraustur sem fer umfram það sem teljast má nauðsynlegt og eðlilegt til stafrænnar umbreytinga. Reykjavíkurborg er ekki einkafyrirtæki á alþjóðamarkaði, heldur samfélag sem þarf að reka skynsamlega. Gagnrýn hugsun og heilbrigð skynsemi þarf að vera til staðar hjá þeim sem eiga að axla ábyrgð. Rauð ljós eru fyrir löngu farin að blikka.

 Birt í Fréttablaðinu 7.4. 2021
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband