Tillaga um að byggja aðra sundlaug í Breiðholti felld

Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að byggð verði önnur sundlaug í Breiðholti sem staðsett yrði t.d. í Suður Mjódd hefur verið felld með þeim rökum „að nóg sé af góðum sundlaugum í borginni og að verið sé að byggja nýja sundlaug í Úlfarsárdal, Fossvogi og í Ártúnshöfða“.

Þetta eru engin rök að mati fulltrúa Flokks fólksins. Breiðholtið er stórt hverfi og í því er aðeins ein sundlaug. Í hverfinu öllu búa 22-24 þúsund manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að annast þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti næstu misserin sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að 2.000 íbúðir þegar allt er tiltekið þar af nýjar íbúðir í Mjódd sem gætu orðið ca. 600 og aukaíbúðir í sérbýli mögulega ca. 500-700. Nýtingartölur í Sundlaug Breiðholts hafa hækkað jafnt og þétt frá 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð við hlið laugarinnar 2017 og fjölgaði gestum laugarinnar þá umtalsvert. Árið 2009 var aðsókn 204.047 en árið 2019 432.219. Til samanburðar eru þrjár sundlaugar í Hafnarfirði en þar búa um 28 þúsund manns. Nú er staðan þannig að erfitt ef ekki ógerlegt er að fara í sund milli 8-16. Það er því brýnt að skoða að byggja aðra sundlaug í hverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur tillöguna fyrir sem nýja fjárfestingu í síðari umræðu um fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun.

 

Tillagan í heild sinni ásamt greinargerð

 

Fulltrúi flokks fólksins leggur til að byggð verði ný sundlaug í Breiðholti. Lagt er til að lauginni verði valinn staður í Seljahverfi eða við íþróttasvæði ÍR í Syðri Mjódd. Borgarstjóra er falið að hefja vinnu við staðarval vegna tillögunnar og leggja til viðeigandi skipulagsbreytingar vegna hennar. 

 

Greinargerð

Nýtt hverfisskipulag fyrir öll hverfi Breiðholts hefur verið til umræðu í vetur og kynnt fyrir íbúum hverfisins.

Ljóst er að gera þarf breytingar á gildandi deiliskipulagi svo koma megi umræddri sundlaug fyrir í Syðri Mjódd. Slík vinna þyrfti að hefjast sem fyrst og ekki síðar en í tengslum við hverfisskipulag strax á nýju ári.

Það er við hæfi í þessu sambandi að nefna að í arkitektasamkeppni um íþróttasvæði í Syðri Mjódd frá árinu 1982 var gert ráð fyrir vatnasvæðum úti. Vísað er til tillögu Guðna Pálssonar og Dagnýju Helgadóttur.

Í Syðri Mjódd er í gildi sérstakt deiliskipulag, sem ekki er hreyft við í hverfisskipulagi, Fyrst þarf því að finna umræddri sundlaug stað í hverfinu og gera síðan breytingar á gildandi deiliskipulagi í framhaldinu.

Í Breiðholtinu er nú ein sundlaug, Sundlaug Breiðholts. Í hverfinu öllu búa 22-24 þúsund manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að anna þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti, sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að tvö þúsund íbúðir þegar allt er tiltekið, þar af gætu nýjar íbúðir í Mjódd orðið um 600 talsins og aukaíbúðir í sérbýli á bilinu 500-700. 

Sjá má hvernig aðsókn að Sundlaug Breiðholts hefur hækkað jafnt og þétt frá árinu 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð við hlið laugarinnar árið 2017 og fjölgaði gestum hennar þá umtalsvert. Árið 2009 var aðsókn að lauginni 204.047 en hafði rúmlega tvöfaldast árið 2019 þegar aðsóknin nam 432.219 sundlaugargestum. Til samanburðar má geta þess að í Hafnarfirði eru þrjár sundlaugar en þar búa um 28 þúsund manns.

Í Breiðholtslaug koma ekki einungis Breiðhyltingar heldur einnig fólk úr öðrum hverfum, t.d. Norðlingaholti. Nú er staðan þannig í lauginni að erfitt er, ef ekki ógerlegt, að fara í hana milli kl. 8-16 á virkum dögum. Vissulega er skólasund í forgangi en það er ekki viðunandi að almenningur eigi þess varla kost að sækja sundlaugina nema á kvöldin. Breiðhyltingar eru jafnvel farnir að aka í önnur sveitarfélög til þess að komast í sund. 

Fulltrúi flokks fólksins vill að skoðað verði fyrir alvöru að bæta við annarri sundlaug í Breiðholti enda er sundiðkun holl og góð líkamsrækt. Ekki hafa allir efni á líkamsræktarkorti. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband