Blind trú á þéttingu byggðar í Reykjavík

Húsnæðismál í Reykjavík eru í brennidepli vegna þess hve hinn alvarlegi skortur á íbúðarhúsnæði kemur sífellt betur í ljós. Flokkur fólksins styður þéttingarstefnu byggðar upp að skynsamlegu marki en ekki þegar hún fer að taka á sig mynd trúarlegrar sannfæringar eins og hjá núverandi borgarstjórnar-meirihluta. Einhliða framkvæmd þéttingarstefnu í Reykjavík, án ódýrari valkosta fjær miðborginni, hefur leitt til spennu á fasteignamarkaði. Ekki hefur verið léð máls á að gera annað en að þétta. Ört hækkandi húsnæðisverð speglar ónógt framboð.

Nú eru 1900 íbúðir í byggingu í borginni eða 30% færri en fyrir tveimur árum skv. SI. Raunveruleikinn er skýr, það er slegist um hverja eign. Litlar íbúðir á þéttingasvæðum eru svo dýrar að þær eru ofviða námsfólki, fyrstu kaupendum og efnalitlu fólki.

Reynt að kenna öðrum um vandann

Borgarstjóri ofl. hafa reynt að kenna bönkunum um ástandið en þeir sverja af sér að vilja ekki lána. Þá hefur verið reynt að kenna verktökum um, en heyrst hefur að margir verktakar hafi einfaldlega gefist upp á að eiga viðskipti við Reykjavíkurborg og farið annað. Flækjustig byggingaferlis og kvaðir eru sagðar allt of miklar og íþyngjandi hjá borginni. Hins vegar vantar þá kvöð sem telja mætti langmikilvægasta. Hún er sú að þeim sem fær lóð beri að byggja á henni innan tilskilins tíma. Í Úlfarsárdal eru t.d. lóðir sem á er byggingarúrgangur en engin bygging hefur risið árum saman. Eftir hverju er lóðareigandinn að bíða eða eru verktakar enn að glíma við borgarkerfið?

Gleymd kosningaloforð

Nú eru hverfi að verða ansi einsleit, blokkir á blokkir ofan, litlir og stórir kassar þétt hver ofan í öðrum. Hvað varð um hugmyndina að blandaðri byggð, sjálfbærum hverfum með atvinnutækifærum innan hverfis? Var þetta ekki kosningaloforð núverandi meirihluta? Og hvað varð um þau umhverfis-sjónarmið að taka skuli tillit til birtuskilyrða og hávaða sem skiptir miklu fyrir svefn og líðan í búa? Sá var tíminn að einstaklingar gátu fengið lóðir og byggt sjálfir og samhliða því byggt upp félagslega samstöðu og myndað hverfismenningu. Þessi hugsun virðist með öllu fjarri nú.

Vandinn er sá að það er takmarkað framboð af lóðum fyrir allar gerðir fasteigna. Núna hefði t.d. verið unnt að skipuleggja svæði utan við borgina, og utan þéttingarsvæða, þar sem þeir sem það vilja hefðu getað byggt í stað þess að kaupa hús í Þorlákshöfn eða Hveragerði. Með því að víkka hverfin út og þá innviði sem fyrir eru skapast fleiri íbúðarmöguleikar. Skoða mætti t.d. suðurhlíðar Úlfarsfells og svæði austur af núverandi Úlfarsárdals sem tengjast því hverfi. Hér þarf öfgalausa víðsýni í stað blindrar trúar.

Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Birt í Fréttablaðinu 9. 11. 2021.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband