Almenningssamgöngur í lamasessi í Reykjavík
7.4.2022 | 11:22
Stóð ekki til að efla almenningssamgöngur á kjörtímabilinu í Reykjavík? Strætó bs. er byggðasamlag nokkurra sveitarfélaga og á Reykjavík stærsta hluta þess. Reksturinn er óvenjulegur því fátítt er að bæði stjórn og skipulagning þjónustunnar ásamt akstri vagna sé á sömu opinberu hendinni. Þetta kemur m.a. fram í nýlegri skýrslu sem VSB verkfræðistofa vann fyrir Strætó. Strætó sinnir báðum þessum hlutverkum í dag án nokkurra skila á milli mismunandi þátta rekstrarins, en fyrirtækið útvistar þó um helmingi af öllum akstri sínum til annarra.
Nú er svo komið að Strætó bs. þarf að minnka þjónustutíma og þjónustustig Strætó vegna aðhaldsaðgerða í rekstri félagsins. Meðal annars þarf að draga úr tíðni dagferða á einhverjum leiðum og gera breytingar á kvöldferðum á fjölda leiða. Gert er ráð fyrir að með breytingunum sparist rúmlega 200 milljónir króna í rekstri en Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Í tilkynningu frá Strætó bs. segir að Covid-faraldurinn hafi leikið rekstur Strætó grátt og tekjur hafi minnkað um allt að 1,5 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Ekki er ein báran stök. Í miðju Covid eru teknar fjárfrekar ákvarðanir, fjárfest í nýju greiðslukerfi og fjölgað í flotanum með þeim afleiðingum að draga þarf úr þjónustunni.
Klappkerfið ekki ókeypis
Klappkerfið kostar sitt. Er ekki rétt að spyrja hvort Klappið hafi verið ótímabær fjárfesting miðað við aðstæður? Hvers vegna fjárfestir byggðasamlag með einn milljarð í halla í nýju greiðslukerfi og það á miðjum Covid-tímum og endar síðan með 1,5 milljarð í halla?
Margir eiga auk þess í vandræðum með að nota Klappið. Þeir sem hvorki skilja né tala íslensku eiga t.d. erfitt með að fóta sig í kerfinu. Hefði ekki þurft að sýna skynsemi og fresta nýju greiðslukerfi? Forgangsröðun hjá Strætó hefur leitt til hagræðingaraðgerðar sem kemur verulega illa niður á þjónustuþegum Strætó.
Hvernig á fólk að komast leiðar sinnar?
Á kjörtímabilinu hefur meirihlutinn í borgarstjórn lagt allt kapp á að hindra bílaumferð inn á viss svæði í borginni, aðallega miðbæinn og nágrenni. Gjaldskyldusvæði hafa verið stækkuð í allar áttir og bílastæðagjald hækkað svo að um munar. Leynt og ljóst eru skilaboðin þessi ekki koma á bílnum þínum í bæinn. Taktu strætó eða hjólaðu. Að hjóla er ferðamáti sem hentar alls ekki öllum. Ef hvetja á fólk til að nota almenningssamgöngur eins og Strætó þarf sú þjónusta að vera þannig uppbyggð og skipulögð að hún virki fyrir sem flesta. Tíðni strætóferða skiptir miklu máli og einnig að hægt sé að taka strætó fram eftir kvöldi um helgar til þess að fólk komist heim til sín. Þá er erfitt að ná í leigubíl auk þess sem allir hafa ekki ráð á að borga fyrir leigubíl. Nú eru færri leigubílstjórar en áður því í stéttinni ríkir mannekla. Reykjavíkurborg ber að hluta til ábyrgðina því að úthlutuðum rekstrarleyfum til leigubílaaksturs í höfuðborginni hefur fækkað frá árinu 2002.
Hvað varð um markmiðið að efla almenningssamgöngur?
Almenningssamgöngur eru í lamasessi, verið er að draga úr þjónustunni enn meira. Meirihlutinn leggur áherslu borgarlínu en í það framtíðarverkefni hefur Reykjavíkurborg sett nú þegar í 1.7 milljarð. Nánast allt er varðar borgarlínu er óljóst og þá ekki hvað síst hvort og þá hvernig borgarlínukerfi passar inn í reykvískan veruleika. Það verður að virðir valfrelsi og þarfir fólks varðandi samgöngumáta ekki á að neyða borgarlínu eða öðrum lausnum upp á fólk.
Til að ná markmiðum um að efla almenningssamgöngur þarf að bæta allt sem snýr að rekstri Strætó bs. og verða Reykjavík og önnur sveitarfélög byggðarsamlagsins að styðja við reksturinn. Þar er tregða enda eru þau ekki aflögufær. Fjármagnið hefur farið í annað.
En þá þýðir ekki á sama tíma að segja að efla skuli almenningssamgöngur þegar í raun er verið að veikja þær. Það stóð ekki í loforðapakka meirihlutans í borgarstjórn.
Höf.:
Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins
Birt í Morgunblaðinu 7. apríl 2022