Vin dagsetur, áframhaldandi óvissa
13.1.2023 | 10:54
Eins og þekkt er var ein af breytingartillögum meirihlutans í borgarstjórn sem lögð var fram 6. desember sl. að leggja niður starfsemi dagsetursins Vinjar. Flokkur fólksins mótmælti þessu strax harðlega og lagði fram tillögu um að meirihlutinn myndi endurskoða þessa ákvörðun. Hvatt var til að starfseminni yrði að mestu haldið óbreyttri. Þessi sparnaðartillaga meirihlutans ásamt nokkrum öðrum sambærilegum, m.a. þeirri að leggja niður unglingasmiðjurnar Tröð og Stíg, voru kaldar jólakveðjur frá meirihlutanum til fólks í viðkvæmri stöðu. Flokkur fólksins hefur einnig mótmælt harðlega að leggja eigi niður starfsemi unglingasmiðjanna og lagt til að sú tillaga meirihlutans verði endurskoðuð. Það hlýtur að vera hægt að spara á öðrum sviðum en að taka frá fólki með geðraskanir mikilvægan vettvang þar sem þeir njóta félagsskapar eða frá unglingum sem finna öryggi og félagsskap í unglingasmiðjum.
Vin er dagssetur fyrir fólk með geðraskanir sem hefur verið rekið í um þrjátíu ár og hvílir starfsemin á sterkum grunni. Þar er ákveðinn kjarnahópur gesta sem hefur ekki getað nýtt sér önnur úrræði og er þessi þjónusta þeim afar mikilvæg. Margir sem sækja Vin líta á staðinn sem sitt annað heimili. Flokki fólksins finnst ekki ganga að niðurskurðarhnífurinn gangi svo nærri þjónustu sem þessari.
Dropinn holar steinninn
Flokkur fólksins er í minnihluta í borgarstjórn og er þar með valdalaus. Nánast öllum tillögum flokksins sem lagðar hafa verið fram síðastliðinn fjögur og hálft ár og sem telja mörg hundruð hefur verið hafnað, þær felldar eða vísað frá.
Flokkur fólksins lætur ekki deigan síga og trúir því staðfastlega að dropinn holi steininn. Það má sannast reyna því á fundi velferðarráðs 11. janúar sl. viðurkenndi meirihlutinn að hafa hlaupið á sig. Þetta má sjá í bókun þeirra þar sem segir Fulltrúar meirihlutans í velferðarráði telja nauðsynlegt að úrræðið Vin verði rekið í óbreyttri mynd út þetta ár og eins á meðan ekki hefur fundist ásættanleg lausn sem notendur þjónustunnar, hagsmunaaðilar og fagfólk móta í sameiningu. Umræddir fulltrúar bera fullt traust til þess starfshóps sem skipaður hefur verið til þess að yfirfara fyrirkomulag úrræðisins til framtíðar litið. Nauðsynlegt er að engar breytingar verði gerðar á starfsemi Vinjar nema með fullri aðkomu notenda, hagsmunaaðila og fagfólks.
Óhætt er að segja að þessi umsnúningur er vandræðalegur en batnandi fólki er best að lifa. Því miður er það aðeins tryggt að Vin verði rekið í óbreyttri mynd til áramóta.
Flokkur fólksins fagnar því að meirihlutinn hafi séð að sér en þykir á sama tíma leiðinlegt hvað málið hefur valdið gestum Vinjar miklum kvíða og að ekki hafi tekist að eyða allri óvissu um framhaldið.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Hægt er að sjá greinina alla á www.kolbrunbaldurs.is
Helga Þórðardóttir, varaborgarfulltrúi
Birt í Fréttablaðinu 13.1 2023