Markmiðið að sem flestir ungar komist á legg

Flokkur fólksins hefur átt áheyrnarfulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði í 6 ár og hefur þar látið til sín taka eins og í öðrum ráðum sem Flokkurinn á sæti í. Á nýafstöðnum borgarstjórnarfundi óskaði borgarfulltrúi Flokks fólksins eftir umræðu um tjarnir í borgarlandinu og umhirðu þeirra.
Meðal þess sem Flokkur fólksins lagði áherslu á var að meirihlutinn myndi marka stefnu um framtíð tjarna í Reykjavík. Engin slík er til. Í því felst m.a. að skilgreina ferli sem lýsir áætlun um hvernig breytingum frá núverandi ástandi skuli náð og hver sé æskileg eða viðunandi staða eftir tilsettan tíma.

Í Reykjavík eru margar tjarnir, flestar manngerðar. Stærsta tjörnin er Reykjavíkurtjörn. Sumar tjarnir eru til að jafna streymi leysingavatns og hindra að leysingavatn af götum fari beint t.d. út í Elliðaár, (settjarnir) en aðrar til að fegra umhverfið. Það var aðallega tvennt sem borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði áherslu á í umræðu sinni um tjarnir í borgarlandi. Í fyrsta lagi umhirða og þrif í kringum tjarnir og í öðru lagi hólma í tjarnir til að mynda friðland fyrir fugla.

Þrif og umhirða

Í tjörnum í borgarlandinu er að finna talsvert rusl og þar er plast mest áberandi. Ef horft er til Reykjavíkurtjarnar er áberandi oft á tíðum hvað hreinsun er ábótavant. Þetta atriði er eitt af því sem þyrfti að vera skýrt kveðið á um í stefnu borgarinnar um tjarnir. Ef hreinsa á tjörn almennilega þarf að fara út í þær með háfa og veiða ruslið. Netháfar eru einfalt verkfæri og tíðkast notkun þeirra víða. Einhver þarf að vakta þessa hluti með reglulegum og kerfisbundnum hætti.

Hólmar

Í Reykjavík ganga kettir lausir.  Hólmar eru griðastaður fugla. Þar eru þeir t.d. varðir fyrir köttum. Það ætti að vera kappsmál allra og stuðla að því að flestir ungar komist á legg. Fæstar manngerðar tjarnir eru með hólma. Til dæmis eru tiltölulega nýgerðar fjórar settjarnir með fram Elliðaám en engin með hólma. í Úlfarsárdal eru manngerðar tjarnir og fleiri í bígerð, aðeins ein með hólma. í Fossvogsdal er einn hólmi. Tjörnin í miðbæ Reykjavíkur bæri marga hólma til viðbótar þeim tveimur sem eru manngerðir.

Hólmar þurfa ekki allir að vera eins,. þ. e. lágir og grösugir. Ásamt slíkum gætu sumir verið með stórt tré, sem hentar spörfuglum eða einhverjum mannvirkjum sem hentuðu sem hreiðurstæði. Mismunandi hólmar í sömu tjörn gætu laðað að sér mismunandi fuglategundir. Með mörgum ólíkum hólmum gætu fjöldi fugla fengið frið til að koma upp ungum. Flokkur fólksins hefur áður bent á að hólmar ættu að vera í eins mörgum tjörnum og unnt er. Undirtektir meirihlutans við þessum ábendingum hafa ekki verið miklar, raunar engar.

Stefnumörkun um tjarnir í borgarlandinu

Stefna er gjarnan mótuð um ýmis mál í Reykjavík, stór sem smá, og ættu tjarnir í borgarlandinu ekki að vera undanskildar. Oft hefur meirihlutinn beitt þeim rökum að hin og þessi framkvæmd, svo sem að gera eitt og eitt blómabeð, eða setja blómapott á bílastæði, eða að beita einhverjum ofanvatnsleiðum sé til að auka „líffræðilega fjölbreytileika“.  Telja má víst að með fjölgun hólma í tjörnum til að skapa friðland fyrir fugla mun líffræðilegur fjölbreytileiki í borgarlandinu án efa aukast.

Flokkur fólksins vill sjá borgarstjórn sýna meiri metnað þegar kemur að Reykjavíkurtjörn og öðrum helstu tjörnum í borgarlandinu. Við sem störfum við Tjörnina sjáum vel ástand hennar, sem er vissulega mismunandi en því miður oft frekar bagalegt. Almennt mætti huga betur að því að gera aðstæður við tjarnir í borgarlandinu betri, að þær biðu upp á áningu svo hægt sé að njóta þeirra. Til dæmis að setja fleiri bekki og jafnvel borð í kring sem gefur fólki kost á að staldra við þær, tylla sér á bekk og jafnvel borða nesti á meðan það nýtur umhverfisins.

Greinin er birt í Morgunblaðinu 30. apríl 2024


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband