Engin bílastæði við Dalslaug

Flokki fólksins hefur borist ábending frá fólki um sára vöntun bílastæða við Dalslaug. Aðkomugestir í sundlaugina þarf að ganga dágóðan spotta, hafandi neyðst til að leggja bíl sínum einhvers staðar inn í hverfi eða upp á kant því engin bílastæði eru við laugina. Sumir eru með stóran barnahóp auk sundfarangurs eins og gengur. Hér hafa orðið stór mistök í skipulagi sem finna þarf lausn á.

Flokkur fólksins lagði inn þessa tillögu í morgun á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að bílastæðum verði fjölgað við Dalslaug í Úlfarsárdal:

Flokkur fólksins leggur til að bílastæðum verði fjölgað við Dalslaug í Úlfarsárdal og íþróttasvæðið þar í kring. Við laugina eru allt of fá stæði sem skapar öngþveiti.

Greinargerð

Örfá bílastæði eru við Dalslaug og  kvarta íbúar mikið yfir því. Sundlaugaverðir segjast fá kvartanir á hverjum degi vegna þessa bílastæðaskorts. Nokkur fjöldi  bílastæða er við íþróttamiðstöð Fram í Úlfarsárdal. Þau eru hins vegar mjög oft þéttsetin bæði af sundlaugargestum og íþróttaiðkendum.  Þegar haldin eru  fótboltamót eða einstaka fótboltaleikir spilaðir verður algjört öngþveiti á svæðinu. Bílum er lagt upp á umferðareyjar á grasbala og inn í næstu íbúðargötur. Þessi staða veldur íbúum miklu ónæði. Það er greinilega ekki gert ráð fyrir að íbúar úr öðrum hverfum borgarinnar sæki sér þjónustu við íþróttamiðstöðina eða njóti sundlaugarinnar í Úlfarsárdal. Úr þessu þarf að bæta hið snarasta. Foreldrar sem koma með börn sín, stundum mörg og tilheyrandi sundfarangur í laugina þurfa iðulega að ganga langa vegalengd frá bíl að laug vegna þess að þau fáu stæði sem eru i boði eru fullsetin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband