Verða bara að hringja á leigubíl

Sú eina lausn sem stendur íbúum í Gufunesþorpi núna er í formi pöntunarþjónustu. Skal farþegi láta vita með minnst hálf tíma fyrirvara fyrir áætlaða brottför og stilla sér upp við merkta  biðstöð hjá Gufunesþorpi og bíða þar eftir leigubíl sem  kemur þeim á næstu skiptistöð Strætó.
Meirihlutinn samþykkti að hækka fjárheimildir til strætósamgangna um 14,6 milljónir króna  til að auka almenningssamgöngur í Gufunesi á fundi sínum þann 7. desember 2022 og er þetta útkoman. Flokki fólksins finnast það varla geta verið að þetta fyrirkomulag sé hugsað til  framtíðar. Hér kann að vera um millibilsástand að ræða sem er reyndar orðið alltof langt. Varla munu íbúar sætta sig við þetta mikið lengur. Lítið sem ekkert hefur verið gert í þessu máli þrátt fyrir að tæp tvö ár séu liðin frá því að borgin gaf vilyrði fyrir lóðum undir Gufuneshverfið.

 

Flokkur fólksins lagði til í síðustu viku að komið verði upp fleiri bílastæðum í Þorpinu í Gufunesi. Það stóð til að fólk gæti lifað bíllausum lífsstíl í Þorpinu en það er með öllu útilokað vegna fjarlægðar frá þjónustu og engar almenningssamgöngur eru á staðnum þrátt fyrir tillögur þar um.  Flestir hafa nú þegar neyðst til að kaupa sér bíl en í Þorpinu er skortur á bílastæðum og neyðast bíleigendur til að leggja bíl sínum á svæði sem ekki eru merkt sem bílastæði.

Íbúar keyptu sér eignir þarna í góðri trú um að almenningssamgöngur býðst þeim eins og flestum öðrum Reykvíkingum en svo er ekki. Nýlegar fréttir bárust af því að verið væri að sekta fólk fyrir ólöglega lagningu bíla í Þorpinu. Það er eðli málsins samkvæmt afar ósanngjarn þar sem mikill skortur er á bilastæðum og almenningssamgöngur engar. Byggingarframkvæmdir eru auk þess í gangi á staðnum. Finna þarf svæði í Þorpinu þar sem hægt er að koma fyrir nægum bílastæðum svo fólk þurfi ekki að leggja ólöglega. Ekki er hægt að búa í Þorpinu án þess að eiga bíl eins og sakir standa vegna skorts á almenningssamgöngum auk þess sem talsverð fjarlægð er í alla almenningsþjónustu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband