Björgum lífum, hækkum ökuleyfisaldurinn
18.6.2007 | 20:30
Undanfarin ár hafa ökumenn á aldrinum 17 til 18 ára átt hlut að mörgum umferðarslysum vegna glæfralegs akturslags. Í kjölfar hrinu alvarlegra umferðarslysa, jafnvel banaslysa, hefjast gjarnan miklar umræður í samfélaginu um með hvaða hætti hægt sé að sporna við hraða- og ofsaakstri ungra ökumanna.Í nóvember s.l. mælti ég fyrir frumvarpi til laga um hækkun ökuleyfisaldurs úr 17 ára í 18 ára. Meginrökin fyrir frumvarpinu og sem reifuð voru í meðfylgjandi greinagerð voru þau að lungað af 17 ára unglingum hefur ekki öðlast tilskilinn þroska til að stjórna ökutæki með þeirri ábyrgð sem því fylgir í umferðinni.
Vitað er að einstaklingar taka út stóran hluta líkamlegs og andlegs þroska fyrstu 20 ár ævi sinnar. Hversu hratt viðkomandi fer í gegnum þroskaferilinn er bæði einstaklings- og kynjabundi , sem og aðstæðubundið. Enda þótt líkamlegur þroski ungmenna sé hvað sýnilegastur á þessum árum, tekur vitsmuna- og félagsþroski unglingsins stöðugum breytingum og munar mikið um hvert ár því nær sem dregur fullorðinsárunum. Ef litið er nánar á þennan aldur er það almenn vitneskja að meðal einkenna unglingsáranna sé ákveðin tilhneiging til áhættuhegðunar, áhrifagirni og hvatvísi.
Sökum ungs aldurs hafa unglingar ekki öðlast nema takmarkaða almenna lífsreynslu né hafa þeir þann vitsmuna- og félagsþroska til að geta lagt raunhæft mat á flókin ytri áreiti og aðstæður. Upplifun þeirra og skynjun á hættum í umhverfi sínu er oftast nær frábrugðin skynjun og upplifun fullþroska einstaklings. Önnur algeng einkenni þessa aldurskeiðs er óttaleysi, unglingar skynja oft ekki mikilvægi þess að vera varkárir né mikilvægi þess að hugsa gaumgæfilega áður en framkvæmt er. Sökum þroska- og reynsluleysis sjá margir á þessu aldurskeiði ekki tengsl orsakar og afleiðingar nógu skýrt.
Út frá sjónarmiðum þroskasálfræðinnar er því auðvelt að leiða líkum að því að 18 ára unglingar séu mun hæfari til að taka ábyrgð á sér og sínu lífi en þegar þeir voru 17 ára. Hvert ár á þessu tímaskeiði getur þannig skipt sköpum hvað varðar nauðsynlegan þroska til að geta tekið þá lágmarksábyrgð sem stjórnun ökutækis í umferðinni krefst. Þetta hafa margir ökukennarar staðfest.
Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að aldursmörkin yrðu hækkuð í þrepum, um einn mánuð á tveggja mánaða fresti. Ekki er talið eðlilegt að unglingur sem verður 17 ára daginn eftir gildistöku laganna þyrfti að bíða í heilt ár eftir að fá ökuskírteini. Að sama skapi yrði líka slæmt ef ökukennsla og sú sérþekking sem henni fylgir félli niður í nærri heilt ár. Markmið laganna, næðu þau fram að ganga, myndi með þessu nást á tæpum tveimur árum.
Skemmst er frá því að segja að samþykkt var að vísa frumvarpinu til nefndar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.6.2007 kl. 15:39 | Facebook
Athugasemdir
Það væri ráð að lækka hann í hinn endann líka. Ég yrði ekki hissa ef samantekt á orsakavöldum/hlutdeild í slysum/tjónum séu þeir sem eru ornir +70.
Bara sem af er þessum mánuði hef ég heyrt margar frásagnir um nærri því slys/tjón vegna aksturs ca.+70
Gessi Hall (IP-tala skráð) 18.6.2007 kl. 21:12
Eg sem helt að sjalfstæðsimenn væru á móti boðum og bönnum/Þetta á bara að fara i Skólana lærdómuri með þetta i efri bekkjum/Þetta með gamlingjanna er ekki rett,þeir eru flestir fullfærir til 80 ára og meira,auðvitað er þetta misjafnt og sumir geta aldrei lært að keyra og eiga þá ekki að gera það/Eg hefi keyrt slysalaut i 55 ar og geri ennþá 73 ára með stæl og var strax 17 ára auðvitað með biladellu mjög góður bilstjori!!!Kveðja Halli Gamli
Haraldur Haraldsson, 18.6.2007 kl. 23:47
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki væri nær að tala um fyrsta árs ökumenn, frekar en 17 ára. Ég held að það að þessir ökumenn eru nýir í umferðinni vegi þyngra en aldurinn og því spurning hvort það sé ekki fræðslunni sem er ábótavant.
Róbert Tómasson, 19.6.2007 kl. 08:04
Fyrir nokkrum árum voru aldurstakmörkin lækkuð með ströngum skilyrðum, það kallast æfingaakstur. Það er af þeim sem til þekkja talið mikið gæfuspor. Það þarf að hefja þetta nám enn fyrr og taka íslenska sundkennslu sem fyrirmynd. Það væri meira vit í að halda áfram að lækka aldursmörkin með ákveðnum skilyrðum. Það virðist oft vera að fólk skoði málið ekki niður í kjölinn þegar þetta mál ber á góma.
Birgir Þór Bragason, 19.6.2007 kl. 10:41
Ég er svo hjartanlega sammála þér, Kolbrún. Sjálf hef ég mikla reynslu af því að umgangast ungmenni á aldrinum 16-20 ára í framhaldsskólum landsins og hef orðið vör við að mikill þroskamunur er á 17 og 18 ára ungmenni. Þá finnst mér rétt að ökuleyfisaldurinn fylgi sjálfræðisaldrinum auk þess sem 17 ára ökumaður getur ekki eignast bílinn sem hann ekur fyrr en hann er 18 ára nema með undantekningum. Eftir því sem ég kemst næst má fólk ekki ganga í hjónaband nema það sér fullra 18 ára og alls ekki kaupa áfengi fyrr en það er 20 ára. Það er ekkert samræmi í þessu. Mér finnst tillögur þínar afar áhugaverðar og raunhæfar; þ.e. hækkun ökuleyfisaldurs kemur í áföngum og á ekki að koma sér illa fyrir neinn.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 19.6.2007 kl. 10:42
Eftir að hafa séð til krakka frá þriggja ára aldri aka véknúnum ökutækjum þá hef ég greinilega allt aðra sýn á málið. Þriggja ára á rafknúnum bíl sem hæfir aldri og aðstæðum er bara hið besta mál. Það sama á við um sjö ára, tíu ára og svo framvegis. Það sem er helst að núna er að nýliðar fá leyfi til að aka tækjum sem hæfa hvorki getu né þroska. Því má breyta með litlum tilkostnaði og það má og ætti að gera strax.
Birgir Þór Bragason, 19.6.2007 kl. 10:58
Ég tel nú þessa umræðu oft einblína um of á unga ökumenn. Það þurfa allir að taka til hjá sér, því oft er maður að lenda í því að eldri ökumenn eru ekkert skárri en þeri sem yngri eru. Eðlilegra væri að gera ökuprófin og ökunámið meira krefjandi og erfiðara því að, tja satt best að segja er þetta frekar létt.
Hafsteinn Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 11:54
Ég er ekki sammála ég er sjálfur 16 ára með æfingarleyfi og fæ bílpróf í feb 2008 þetta þýðir það að ég er nýlega buin að fara í ökuskólan og þar kom kennarinn aðeins inná þetta mál fyrir nokkrum árum man ekki alveg hvenar börðumst við fyrir því að fá það 17 ára, svo verður líka að lýta á þetta frá þeirri ástæðu um allt frelsið sem opnast þegar þessum áfanga er náð ég hef það á tilfinguni að margi myndu detta úr skóla / vinnu ef þeir þyrftu t.d. að taka strætó í 2 ár? í skólan leggja af stað fyrir klukkan 7 á morgnana í sumum tilfellum, Svo fenguð þið flest prófið 17 ára og það lýtur út fyrir að þið séuð í fínum málum nú til dags, þetta eru einungis fáir sauðir sem eru að stunda þennan hraðaakstur og þannig, ég vill halda 17 ára aldrinum.
En þið komuð eitthvað sá ég í einhverjum commentum réttindin sem maður fær 18 ára, má gifta sig kaupa sígarettur vera inná börum landsins en maður má ekki kaupa áfengi fyrr en maður er 20 ára mér finnst þess vegna að áfengis aldurinn ætti að vera 14 ára því krakkarnir sem ætla og vilja drekka þau gera það bara og redda sér, kaupa kanski landa sem er baneitraður í stðainn fyrir bara venjulegan bjór eða þannig.
uhh jæja ég kveð í bili
Jón Orri Jónsson (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 11:56
Ég vil taka undir það sem Sveinn Elías segir. Ég sjálf mundi leggja til að í eitt ár yrðu þeir sem tekið hafa bílpróf, að keyra á bílnum sem eru rækilega merktir t.d. eins og REYNSLUAKSTUR,eða eitthvað í þá áttina,og ekki bara með smá merki heldur vel merktur,ég hef séð þetta erlendis og ætti að vera í lagi hér á landi.
María Anna P Kristjánsdóttir, 19.6.2007 kl. 23:41
Við megum ekki gleyma mikilvægum rökum í þessari umræðu og þau eru einfaldlega að heill árgangur sleppur við að slasa sjálfa sig eða aðra undir stýri sem ökumann. Þar sem alvarleg slys eru hlutfallslega flest hjá ungu fólki þá mundr um minna!
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 20.6.2007 kl. 09:51