Er uppbygging ökunáms ófullnægjandi?

Hvort röng uppbygging ökunáms sé orsök glannaaksturs unglinga er umfjöllun í grein sem birtist um helgina. Sú hugsun er jafnframt sett fram að kostur fylgir að lækka ökuleyfisaldurinn því þá séu börnin ekki eins mótuð og taki því betur leiðbeiningum. 

Það kann að vera að margt megi betur fara í uppbyggingu og skipulagi ökunáms hér á Íslandi sem ég tel þó að hafi tekið stórlegum framförum undanfarin ár. Uppbygging ökunáms er mismunandi eftir löndum og tekur greinahöfundur dæmi um hvernig þessu er háttað í einum af fylkjum Bandaríkjanna. Þar fá ungmenni ökuprófið fyrr en þurfa að uppfylla nokkur grundvallarskilyrði áður en þau fá full réttindi.

Er umferðaröryggi á Íslandi líkt því sem það gerist best annars staðar?
Þessari spurningu treysti ég mér ekki til að svara. Það þurfa þeir að gera sem gert hafa samanburðarrannsóknir á þessu sviði. 
Mín tilfinning er þó sú að við eigum langt í land með að vera samkeppnishæf hvað þessu viðkemur.  Að sjálfsögðu má finna þjóðir og svæði þar sem umferðarmenning er vafasöm.  Einhverjir myndu kvarta yfir frekjugangi ökumanna í New York eða áhættuakstri sumra í París osfrv. Sjálf hef ég reynslu af því að aka í vestur Evrópu og á þeim tíma sem ég bjó á austurströnd Bandaríkjanna minnist ég þess ekki að hafa upplifað ókurteisi og tillitsleysi í umferðinni eða að ég hafi nokkurn tímann verið í stórkostlegri hættu. Slíka reynslu hef ég hins vegar margsinnis upplifað hér á landi.

Ég er því þeirra skoðunar að ofsaakstur sé ekki ökunáminu um að kenna eða uppbyggingu þess. Vissulega er mikilvægt að leita stöðugt leiða til að bæta ökunámið eins og allt annað sem skiptir máli.  Vandinn hér felst í umferðarmenningunni og viðhorfi ökumanna til annarra vegfarenda.  Einhvers staðar á leiðinni höfum við misst tökin á umferðaruppeldinu. Afleiðingin er agaleysi.

Þess vegna tel ég það hæpið að leggja það til að við tökum upp í heild sinni sambærilegt kerfi og gengur vel annars staðar í heiminum. Slíkt kerfi þarf ekki endilega að verða árangursríkt hér. Suma þætti mætti skoða með það fyrir augum að taka upp í einhverri mynd. Dæmi um einn slíkan þátt er að ungum ökumönnum leyfist ekki að hafa jafnaldra sína í bílnum aðra en fjölskyldumeðlimi fyrr en þeir hafa náð 21 árs aldri.
Vandinn við þetta er sá að það gæti reynst erfitt að framfylgja þessari reglu. 

Með það í huga að umferðarmenningin hér á landi er allt að því ruddaleg í samanburði við víða annars staðar og að 17 ára ungmenni eiga talsvert í land með að ná fullum vitsmuna- og félagsþroska stend ég fastar en ella á þeirri skoðun að færa lágmarksaldurinn upp í 18 ár.
Það munar um hvert ár. Með þeirri aðgerð mun lífum verða bjargað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

getur verið að það sé ekki svo gott mál að hvaða fullorðinn einstaklingur með bílpróf sem erm geti tekið krakka í æfingaakstur? Að það sé betra að öll ökukennsla sé í höndum ökukennara?

Guðrún Helgadóttir, 13.7.2007 kl. 13:33

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband