Gagnrýnendur hafa örlög listamanna í hendi sér

Grein myndlistarkonu í Mbl. í gær vakti athygli mína en í henni bregst hún við rýni gagnrýnanda um sýningu sína. Sú gagnrýni hafði áður birst í Mbl. Myndlistarkonan upplifir að gagnrýnandinn hafi ekki skoðað og túlkað verk hennar af innsæi heldur eins og hún sjálf segir valtað yfir sýninguna.

Nú er ég sjálf ekki listamaður af neinu tagi en ég hef oft leitt hugann að því hvernig það sé að hafa unnið að list sinni af natni og tilfinningu og eiga síðan velgengni sína undir skoðun og áliti einhvers gagnrýnanda. Neikvæð gagnrýni getur jafnvel leitt til þess að ferill listamannsins fari í slíkt uppnám að hann nái sér ekki á strik aftur svo ekki sé minnst á hvaða áhrif slík gagnrýni hefur á sjálfstraustið.

Ég hef tekið eftir því að margir treysta á gagnrýnendur. Sjái þeir að einhver sýning, hvort heldur listaverkasýning eða leikhús/kvikmyndasýning fær neikvæða gagnrýni þá fara þeir einfaldlega ekki á sýninguna. Ég sjálf hef orðið uppvís að því að velja og hafna allt eftir því hvernig dómur gagnrýnanda hljóðaði.  Ef gagnrýnendur eru samdóma í áliti sínu t.d. á kvíkmynd þá finnst mér í raun skiljanlegt að fólk taki mark á því. En þegar um er að ræða t.d. listaverkasýningu hljóta önnur lögmál að gilda. Stíll, gildismat og upplifanir fólks eru það ólíkar að það sem einum þykir e.t.v. ömurlegt gæti öðrum þótt áhugavert eða fallegt.

Þá spyr ég, hafa gagnrýnendur kannski of mikið vald í íslensku samfélagi? Ákveða þeir helst til of mikið hvað hinn almenni borgari kýs að velja og hafna?

Það hlýtur að skapa heilmikla togstreitu og jafnvel kvíða hjá listamönnum og finna að gagnrýnendur hafi örlög listamannaferils þeirra í hendi sér í svo miklum mæli sem raun ber vitni.

Grein listakonunnar ber því að fagna og myndi ég alveg vilja sjá fleiri svona skrif. Þá get ég sem hugsanlegur listunnandi einnig lagt mat á rýni gagnrýnendanna. Hvaða gagnrýnendur eru það sem mæta á sýningu með opinn huga og skoða og túlka af innsæi og hverjir eru það sem ja, dæma út frá útlitinu einu. Því oftar sem maður fær tækifæri til að meta vandvirkni og hæfileika gagnrýnenda að rýna í verk annarra því meiri líkur eru á að maður finni hvort hægt sé að treysta rýni hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað er listaverk og hver er listamaður? Og hver er þá gagnrýnandi? Ákveða ekki gagnrýnendur hvað sé listaverk og hverjir eru listamenn? Er ég ekki gagnrýnandi ef ég gagnrýni til dæmis eitthvað sem einhver heldur fram að það sem hann hefur búið til sé listaverk?

Og hvers vegna ætti ég að verða sár yfir því að aðrir, einhverjir eða allir, séu ekki hrifnir af því sem ég hef búið til og álít sjálfur vera listaverk? Er ekki listrænn smekkur fólks æði misjafn og hefur alla tíð verið það? Eru sumar skoðanir betri en aðrar í þeim efnum? Verkið er þá listaverk ef sá sem bjó verkið til heldur því fram að það sé listaverk. Viðkomandi hefur sem sagt gagnrýnt verkið sjálfur, enda þótt hann sé náttúrlega ekki hlutlaus.

Ef meirihluti gagnrýnenda, eða jafnvel bara einn gagnrýnandi, telur að viðkomandi verk sé ekki listaverk, er það þá ekki listaverk? En ef verkið telst vera listaverk, er það þá hafið yfir alla gagnrýni? Verkið getur talist vera fallegt eða ljótt listaverk, allt eftir smekk gagnrýnenda. En það getur verið áhugavert, enda þótt það sé ljótt, að dómi einhverra gagnrýnenda.

Gagnrýnandi er ekki löggilt starfsheiti. Allir eru gagnrýnendur en á ég að taka meira mark á gagnrýni ákveðinna gagnrýnenda en annarra og leggja dóm á verkið samkvæmt henni, án þess að hafa séð verkið? Gagnrýna sem sagt verkið án þess að hafa séð það? Og á ég þannig að horfa á öll verk með gleraugum annarra? "Sérfræðingurinn Jón Jónsson segir að ákveðið hús sé mikið listaverk. Þess vegna finnst mér það líka vera mikið listaverk." Eða: "Þetta hús hlýtur að vera mikið listaverk, fyrst Jón Jónsson sérfræðingur segir það."  

Steinfinnur stórráði (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 13:28

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Skemmtilegar vangaveltur

Gagnrýnendur enda þótt ekki löggilt starfsheiti hljóta að vera mishæfir til verksins. Þeim er alla vega ætlað að hafa vit á því sem þeir eru að gera.  Menntun, reynsla, persónulegir eiginleikar og eflaust ótal mörg önnur atriði hafa áhrif á hvernig mat þeirra á verki verður til. Þeir sem valdir eru af fjölmiðlum til að vera gagnrýnendur hafa verið valdir vegna einhvers.

Nú hefur forvitni mín verið vakin. Hvað gerir einn gagnrýnanda hæfari en annan ef hægt er að orða það svo og á hvaða forsendum eru þeir valdir?  

Kolbrún Baldursdóttir, 19.7.2007 kl. 13:48

3 Smámynd: mongoqueen

 

Klukk.....

Bloggaðu 8 staðreyndir um sjálfa þig og klukkaðu svo fleiri

mongoqueen, 19.7.2007 kl. 21:08

4 Smámynd: Tryggvi H.

Þótt ég hafi ekki séð sýninguna er vart hægt að hugsa sér klisjulegri efnistök listamanns. Þóra Þórisdóttir klórar sig skammarlaust í gegnum túlkun sína á verkum Guðrúnar Veru. (ásýnd græðginnar í ljósi tvíhyggju- það hellist yfir mig þreytutilfinning, máttleysi)

Um dóma Þóru almennt (og þeir sem lesa dóma hennar kunna vera mér ósammála),  þeir bera með sér hæfni til "tæknilegs orðflaums" og missa oft marks- Henni og mörgum listgagnrýnendum er jú full vorkunn- gæfi ég mikið fyrir að þurfa ekki tjá mig á vitrænan hátt um list - hvað þá á virkum dögum í morgunblaðinu- katjútz!

Tryggvi H., 19.7.2007 kl. 23:14

5 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Frábær pæling hjá þér, Kolbrún.

Gagnrýni á fullann rétt á sér og reyndar þykir mér vanta meira af slíku.

Skoðanir listfræðinga sérstaklega á listaverkum eru mikilvægar hvort sem okkur líkar skoðanirnar betur eða verr.

Listfræðingar eru fólk sem hefur kannski eytt áratugum í að rýna í verk og skrifa um þau. Þeir hafa því samhengi sem flestum okkar hinna er ofviða því við höfum ekki reynsluna.

Við megum líka muna að við lifum á tímum þar sem allt á að vera svo ofboðslega frábært og kosta 599kr. Það er ákveðin hætta í þjóðfélagslegu rænuleysi að vera ekki með góða rýni í gerð verk.

Það ber líka að fagna að listamenn svari fyir sig. Öll umræða er til hins góða og svargrein á fyrst og fremst að upplýsa lesanda um hvað verkin snúast. En ef svargreinin segir að gagnrýnandin sé fífl, þá er svarið auðvitað verra en upprunalega greinin.

xx

Ólafur Þórðarson, 20.7.2007 kl. 09:20

6 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Þekki hvorki þolanda né geranda í þessu máli.

En las skemmtilega bók sem heitir, The crowd is always right, (held hún heiti það). Þar er útskýrt á snilldarlegan hátt hvers vegna "kjósendur" eru oftar dómbærari en "gagnrýnendur".

Ef 1000 manna úrtak væri valið af handahófi og færi á umrædda myndistarsýningu væri augljóst að fæstir kæmust með tærnar þar sem gagnrýnendur hefðu hælanna.

En segjum sem svo að "sannleikan" um "gæði" sýningarinnar væri að finna í rauðu miðjunni í "skotskífunni", örfáir hittu nákvæmlega en feilskot hinna dreifðust hlutfalslega jafnt í kringum "sannleikann" eins og á IMDB kvikmyndavefnum þar sem almenningur gefur myndum einkunn. Góðar kvikmyndir sem margir gagnrýnendur Rotten Tomatos, (viðurkenndir gagnrýnendur) eru sammála um að sé góð mynd er líka góð á IMDB. (Ég er fyrir löngu hættur að reiða mig á einn gagnrýnanda þegar kvikmyndir eiga í hlut.)

Að vísu bregst "múgnum" bogalistinn í sumum tilfellum en hafa þó oftar "rétt" fyrir sér en gagnrýnendur að meðaltali, vegna þess að þar er bara eitt egg í körfunni og áhættan á mistökum því meiri. 

Gallinn við einn gagnrýnanda er að honum vantar aðhald. Ef margir gagnrýnendur (mörg egg) dæmdu sýninguna myndu þeir vanda sig betur. Það kæmist upp um þann sem t.d. hefði fordóma gangvart listamanni, væri illa upplagður þegar hann skoðaði sýninguna, í tímahraki eða annað sem truflar einbeitingu hans.

Í raun minnir einn gagnrýnandi á upplýstan einvald, þeir gengust oft upp í valdinu með hörmulegum árangri og við tók lýðræði sem gefst að jafnaði betur.

Benedikt Halldórsson, 20.7.2007 kl. 09:25

7 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Gleymdi einu sem var tilefni skrifanna.

Fræbær pistill hjá þér Kolbrún.

Benedikt Halldórsson, 20.7.2007 kl. 09:29

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Frábær pistill.

Marta B Helgadóttir, 23.7.2007 kl. 23:24

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband