Er skráningarferli Lífsskrárinnar nógu einfalt?

Mér gengur hægt að fá undirskriftir á Lífsskránna en það er sú skrá sem Landlæknisembættið hefur tekið í notkun og er eyðublað sem fólk getur fyllt út hvenær sem er á lífsleiðinni. Lífsskráin hefur að geyma yfirlýsingu um hvað það vill eða vill ekki að gert sé við það að gefnum tilteknum kringumstæðum við lífslok.

Sjálf hef ég verið að væflast um með plaggið hálfútfyllt.  Landlæknir segir það einfalt að skrá sig og það er eflaust rétt að mörgu leyti.  Mér gengur það samt hægt að fá undirskriftir tveggja umboðsmanna en þeir hafa það hlutverk að taka þátt í umræðu um og upplýsa um óskir mínar hvað varðar meðferð við lífslok. Síðan þarf undirskriftir tveggja vitundarvotta. Einhvern veginn veigrar maður sér við að biðja hvern sem er um að skrá nafn sitt á eyðublaðið. Umboðsmennirnir og vottarnir þurfa, eðli málsins samkvæmt, að þekkja mann vel og einnig að líða vel með að setja nafnið sitt í plaggið.

Nú kemur fram hjá landkæni að aðeins fá hundruð hafa skráð sig þrátt fyrir hversu einfalt þetta er. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé nógu einfalt þegar öllu er á botninn hvolft og það sé einmitt ástæðan fyrir að ekki fleiri hafa skráð sig?

Eyðublöðin er að finna á vef landlæknisembættisins. Ég myndi halda að þau ættu að liggja mjög víða. Við megum ekki gleyma að stór hópur t.d. eldri borgara hefur ekki aðgang að tölvu. Enn eru einnig nokkrir sem einfaldlega vita ekki um þennan möguleika.

Það er mikilvægur réttur hvers og eins að taka ákvörðun um hvort hann eða hún vilji lifa eða deyja þegar meðferð lengir aðeins líf hins dauðvona án þess að fela í sér lækningu eða líkn.

Svo nú er bara að drífa eyðublaðið inn til landlæknisembættisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Ég var að líta á Lífsskrá landlæknisembættisins og leiðbeiningarnar sem fylgja með henni. Mér líst ekki á þetta í þessu formi og segi það hreint út.  Ég nefni bara þrennt almennt en hægt væri að fara í þetta plagg lið fyrir lið:

Hversu mörg tilfelli höfum við læknar ekki séð þar sem fólk hefur verið dauðvona að mati flestra en þvert gegn öllum mannanna væntingum risið upp upp úr alvarlegum slysum og veikindum.

Einnig þekkja allir læknar fólk sem er bara þannig gert að það vill ekkert láta hafa fyrir sér. Vegna lítillætis, aldurs, einmanaleika, þunglyndis, kvíða osfv. Þetta fólk er lang líklegast til að útbúa slíka lífs- og dauða ferilsskrá.

Þriðja sem mætti nefna er að plaggið er náskilt hættulegri euthanasiu hugmyndafræði sem mjög auðveldlega getur "víkkað út" og gert okkur sljó fyrir því að lífið beri að vernda undir öllum kringumstæðum.

Guðmundur Pálsson, 14.6.2008 kl. 21:21

2 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Ég held þessi ákvörðun geti ekki orðið einöld. Til þess að geta tekið svona ákvörðun, þarf maður að hafa ákveðna lífsreynslu eða þroska. Ég man bara þegar ég var 13 ára, þá gat ég ekki hugsað mér að lífið gæti verið þess virði að lifa því þegar ég væri orðin 30 ára kerling. Nú er ég að verða 50 ára og lífið hefur alldrei verið betra. Það sama á við um fólk sem hefur alldrei kynnst sjúkdómum og erfiðleikum, heldur oft að bara að sitja í hjólastól geri lífið ekki þess virði að lifa því. Þegar kemur að þvi að það fer að sjá fyrir endan á lífinu, held ég að sé mikilvægt að það séu í gangi góð tjáskipti við heilbrigðisstarfsfólk.

Faðir minn lést í janúar. Ég vissi hans ósk um stutta banalegu, en bað lækni að ræða þetta mál við hann áður en hann varð mjög veikur, bara til að þurfa ekki að tala hans máli sjálf ef hinir ættingjarnir væru á öndverðum eiði. Það kom svo að því að taka ákvörðun um líknandi meðferð. Ég hefði viljað taka þessa ákvörðun fyrr, þar sem ég vissi hug pabba, en læknarnir vildu bíða eftir að hinir ættingjarnir væru samstíga. Það tók einn sólarhring og er ég nú í dag, mjög þakklát fyrir að læknirinn hafði viðið fyrir mér og pabba, því það varð til þess að þegar pabbi dó, voru allir ættingjarnir sáttir við hans ákvörðun.Auðvitað er söknuðurinn mikill, en við áttum yndislegan tíma á sjúkrahúsinu, öll systkinin með pabba og allir sáttir. Ég er hrædd um að þessi tími hefði ekki verið eins yndislegur ef bara hefði legið fyrir plagg sem pabbi hefði skrifað þegar hann var frískur. Ég hef grun um að einhver ættingjanna hefði hugsa sem svo að hann gæti hafa skipt um skoðun.

Ásta Kristín Norrman, 14.6.2008 kl. 22:45

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband