Eyðilegging til lífsstíðar

Skaðsemi langvinns eineltis getur varað alla ævi. Þessi umræða hefur sérstaklega verið í deiglunni nú í kjölfar þess að móðir ungs drengs sem nýlega tók líf sitt sagði frá því að sonur hannar hafi sætt gengdarlausu einelti í grunnskóla í þrjú ár. Góð vísa er aldrei of oft kveðin og þrátt fyrir að nú sé sumar og sól og skólastarf liggi niðri er málefnið engu að síður brýnt.

Sjálfsmat barns sem hefur orðið fyrir ítrekuðum árásum eða hunsun og fyrirlitningu annarra barna í langan tíma verður fljótt eins og rjúkandi rúst.  Þeir sem þetta hafa mátt þola án þess að tekist hafi að grípa inn í og stöðva, leggja iðulega af stað út í lífið með skaddaða sjálfsvirðingu. Tilfinningar eins og reiði, vanmáttur og höfnun fylgir þessum einstaklingum stundum ævilangt og kvíði og þunglyndi er ekki óalgengir kvillar sem þeir stríða við.

Þrátt fyrir að foreldrar og skólayfirvöld hafa tekið höndum saman og reynt ýmsar leiðir til að uppræta einelti skila aðgerðir ekki alltaf  tilætluðum árangri. Stundum breytist hið neikvæða atferli geranda/gerenda þannig að árásirnar fara að verða leyndari og minna sýnilegri þannig að erfiðara reynist að festa á þeim hönd og skilgreina.

Því fyrr sem skólayfirvöld og foreldrar byrja að ræða þessi mál við börn sín, helst strax við upphaf grunnskólagöngu og jafnvel fyrr,  má leiða að því líkum að tíðni eineltistilvika fækki eitthvað. Umræðan þarf fyrst og fremst að snúast um að börnin sýni hvert öðru gagnkvæma virðingu og að engan megi skilja út undan.  Einnig að börnin læri almennar samskiptareglur bæði á heimilinu og í skólanum og mikilvægi þess að þau láti viti ef þeim,  af einhverjum orsökum, líður illa.

Sumir skólar leggja mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir t.d. með því að tvinna saman umræðu um t.d. jákvæð samskipti og fræðslu um skaðsemi stríðni við hið daglega skólastarf. Börn fara mjög ung að skilja merkingu þessara hugtaka og með því að tala um þetta við þau eykst hæfni þeirra að setja sig í spor annarra og upplifa tilfinningu á borð við umburðarlyndi, tillitssemi og samkennd með þeim sem eiga um sárt að binda.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta blogg Kolbrún - nauðsynlegt framlag okkur hinum til verðugrar umhugsunar!!!

Ása (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 19:48

2 identicon

Fín færsla.Einelti hefur skelfilegar afleiðingar.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 18:46

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband