Upplýsinga-kraðak um lausnir í efnahagsmálum

Fjölmargir pistlar og greinar hafa verið skrifaðar um efnahagsmálin: peningastefnuna og  framtíðarhorfur. Ekki er betur séð en að hagfræðingar og viðskiptafræðingar séu sammála um ákveðin grundvallaratriði svo sem að:

1. Bíða eigi með erlenda lántöku sem áætluð er til að styrkja gjaldeyrisforðann vegna þess hversu gríðarlegur vaxtakostnaðar yrði nú af slíku láni.

2. Óumflýjanlegt er að halda stýrivöxtum háum á meðan ekki hefur tekist að kýla verðbólguna nægjanlega niður.


Þeir sem tjá sig hvað mest um efnahagsmálin eru fyrst og fremst hagfræðingar og aðrir sérfræðingar í peningamálum en einnig stjórnmálamenn og aðrir lykilaðilar svo sem framkvæmdarstjórar og formenn hagsmunasamtaka.

Í síðarnefnda hópnum finnast þeir sem telja að horfa eigi sem fyrst til þess að lækka stýrivexti og jafnvel að það ferli hefði átt að vera hafið. Sannarlega er það afdrifaríkt að hafa svo háa vexti yfir langan tíma en ef ekki verður byrjað á réttum enda við að leysa þennan hnút verður það enn
afdrifaríkara og ekki bara fyrir suma heldur alla. 

Hagfræðingar virðast einhuga um það að verði stýrivextir lækkaðir í efnahagsumhverfinu sem nú er, muni það auka líkur á enn hærri verðbólgu. Rétti endinn til að byrja á sé að, draga saman seglin, draga úr eyðslu og þar með þenslu og það muni síðan hafa hjaðnandi áhrif á verðbólguna.
Þegar þær aðstæður skapast er fyrst hægt að fara að huga að lækkun vaxta.

Það hlýtur að vera þrautinni þyngri fyrir Jón og Gunnu sem langar til að setja sig inn í þessi mál að reyna að fóta sig i þessu kraðaki misvísandi upplýsinga.

Ég legg því til að leitast verði við að hlusta á þá sem hafa sérmenntað sig á þessu sviði og starfa við það að greina og leysa efnahagsvandann en tekið verði síður mark á öðrum.

Grundvallarskilaboðin eru þessi:
Það hafa ekki enn skapast þær aðstæður þar sem talið er óhætt að lækka vexti og það er ekki talið hagstætt að taka erlent lán akkúrat núna til að styðja við gjaldeyrisforðann.

Það eru hagsmunir sem best henta heildinni sem hljóta að verða að gilda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband