Breiðhyltingar bregða á leik

Breiðholtshátíðin sem er menningar- og fjölskylduhátíð Breiðholts hefst í dag mánudaginn 15. september með metnaðarfullri dagskrá víðs vegar í Breiðholtinu. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands heiðrar Breiðhyltinga með nærveru sinni fyrsta dag hátíðarinnar.
Forsetinn setur hátíðina með formlegum hætti á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, Félagsmiðstöðinni Árskógum 4 kl. 14:00. Við setninguna verður opnuð málverkasýning heyrnarlausra myndlistarmanna. Sögurútan fer um hverfið kl. 17:00.

Hátíðin nær hápunkti sínum á hátíðarsamkomu sem haldin verður í Íþróttahúsinu Austurbergi á sjálfan Breiðholtsdaginn 20. september þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri mun ávarpa samkomuna og afhenda heiðursviðurkenningarskjöl.

Breiðholtið hefur á að skipa gríðarlega margbrotnu mannlífi. Margbreytileikinn sést m.a. á því hversu margar fjölskyldur af ólíkum uppruna búa í Breiðholti.  Kjarni hátíðarinnar er að íbúar hverfisins fái tækifæri til að kynnast nágrönnum sínum og að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í Breiðholti eigi þess kost að kynna íbúum starfssemi sína. Boðið verður upp á fjölbreytta viðburði fyrir öll aldurskeið. Lögð er áhersla á að sem flestir taki þátt og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Breiðhyltingar bjóða Alþjóðahús velkomið í hverfið sem opnar með viðhöfn þriðjudaginn 16. september kl. 17. Með tilkomu Alþjóðahúss í Breiðholtið skapast tækifæri til að auka enn frekar fjölmenningarleg samskipti í Breiðholti. Fyrr um daginn verður opnuð sýning á myndum ljósmyndasamkeppni sem haldin var í Breiðholti í sumar. Myndefnið var mannlíf og umhverfi í Breiðholti.

Leikskólabörn munu heimsækja Árbæjarsafn og eldri borgarar í Breiðholti fara í vinabæjarheimsókn til eldri borgara í Reykjanesbæ. Í göngugötunni í Mjódd verður haldin kynning á Námsflokkunum og einnig verður kökubasar og kynning á Kvenfélaginu Fjallkonunum í Hólagarði.

Í Breiðholti er fjölskyldan í fyrirrúmi. Málþing um málefni fjölskyldunnar verður haldið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi á fimmtudeginum eftir hádegi. Fulltrúar frá öllum helstu stofnunum sem koma að málefnum fjölskyldunnar munu halda fyrirlestra.

Eldri borgarar og grunnskólabörn eru með ýmis dans,- og söngatriði á takteinum að ónefndu pottakaffi í Breiðholtslaug alla morgna vikunnar. Foreldrar í Breiðholti munu treysta böndin á foreldramorgni í Breiðholtskirkju á föstudeginum og ekki má gleyma að minna á prjónakaffið með góðum gesti hjá Félagsstarfi Gerðubergs einnig á föstudeginum.   

Skipulagðar göngur eru fyrirhugaðar; Seljaganga með Guðrúnu Jónsdóttur, arkitekt og bókmenntaganga Borgarbókasafnsins. Kaffihúsið í Miðbergi býður göngugörpum í kaffi að lokinni göngu.

Kórar, söng,- og danshópar láta til sín taka í hátíðarvikunni. Vinabandið lætur sig ekki vanta og mun m.a. spila og syngja í Fríðuhúsi.

Á hátíðarsamkomunni munu unglingar úr Breiðholtsskóla sýna atriði úr Grease og ÍR danshópurinn taka sporið.Fjölmargar samveru,- og kyrrðarstundir sem og guðþjónustur og fyrirbænastundir verða haldnar í kirkjum Breiðholts þessa viku. Samkomuhald verður t.d. í Seljaskóla í umsjón barnastarfs Miðbergs. Messa verður í Maríukirkjunni við Raufarsel alla virka daga og ensk messa verður haldin í Maríukirkjunni á laugardeginum.

Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) mun ekki láta sitt eftir liggja. Á laugardeginum munu deildir ÍR kynna starfsemi sína. Hoppukastali verður á staðnum, boðið verður til grillveislu og unglingaráð knattspyrnudeildarinnar blæs til uppskerufagnaðar svo fátt eitt sé nefnt.

Hér er einungis birt brot af þeirri viðamiklu dagskrá sem sett hefur verið saman í tilefni Breiðholtsdaga 2008. Breiðhyltingar eru hvattir til að fjölmenna á sem flesta viðburði og samverustundir sem haldnar eru víðs vegar í Breiðholti þessa viku.  Samhugur og samvera íbúanna er merki um hversu stoltir Breiðhyltingar eru af hverfinu sínu og hversu umhugað þeim er að gæða í það enn fjölbreyttara lífi og hlúa að ímynd þess og íbúum.

Bregðum á leik í Breiðholti vikuna 15-20 september 2008.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott viðtalið og myndin af þér í gær Kolbrún mín.  Þetta er frábært hjá ykkur Breiðhyltingum.  Góða skemmtun. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.9.2008 kl. 11:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband