Áföll og jákvæðni

Jákvæðni, jákvæðistal og almenn bjartsýni er sannarlega gulls ígildi þessa dagana og okkur öllum sterkt haldreipi.

Það eru þó til þær aðstæður þar sem jákvæðistal virkar ekki sem skyldi. Sem dæmi nær slíkt tal frekar skammt ef því er skellt fram strax við áfall eða fyrstu stundirnar eftir að fólk verður fyrir áfalli.  Á slíkum stundum, meðan fólk er að gera sér grein fyrir þeim atburði/aðstæðum sem veldur áfallinu gildir fátt annað en nærvera, umhyggja, hlustun og þolinmæði.

Tal um styrkleika og jákvæðni á viðkvæmasta tímapunktinum getur virkað þannig að þeim sem hefur orðið fyrir áfallinu finnst að verið sé að gera lítið úr líðan sinni. Tími jákvæðistalsins kemur aðeins seinna þegar sálin hefur fengið að melta það sem gerst hefur og þá atburði/aðstæður sem kallaði á áfallsástandið.

Aðstæður í þjóðfélaginu núna, sérstaklega efnahagsaðstæður, valda mörgum kvíða og ótta. Þeir eru eflaust ófáir sem eru uggandi um hag sinn.  Ástæðurnar geta verið af ýmsum sökum. Sumir hafa tapað fé, e.t.v. megnið af sparnaði sínum eða hafa á einhvern hátt tengst fyrirtækjum sem nú hafa orðið eða eru á leið í gjaldþrot. Þetta er ekkert endilega fólkið sem hægt er að segja við,  þér var nær eða þú hefði geta sagt þér þetta sjálfur osfrv. 

Sumir eru sannarlega fórnarlömb þessara erfiðu aðstæðna og hefðu fátt getað gert til að sporna við þeirri þróun sem orðið hefur í málum þeirra. Þessir einstaklingar eru kannski núna í miklu áfalli í bókstaflegri merkingu þess orðs. Einkennin geta verið allt frá skjálfta, svitakófi, maga- og höfuðverk, svefnörðugleikum og þunglyndi. Fólk er dofið og finnst það ekki getað hugsað heila hugsun. Margir eru jafnvel óvinnufærir eða ófærir um að taka helstu ákvarðanir í lífi sínu. Þessi einkenni mildast hægt og rólega og má ætla að sérhver dagur gefi ögn skárri líðan. 

Það er á þessum tímapunkti sem illa kann að passa að fara að koma með mikið jákvæðistal eins og t.d. þetta er nú ekki svo slæmt, líttu nú á allt það góða, enginn hefur dáið osfrv.

Slíkt tal er kærkomið síðar,  jafnvel eftir fáeinar klukkustundir eða daga allt eftir því hversu alvarlegt áfallið var manneskjunni. En fyrst þarf að hlúa að viðkomandi og gefa einstaklingnum tíma til að skynja og skilja hvað hefur gerst, hver áhrifin eru og hverjar eru afleiðingarnar.

Sem sagt, jákvæðni eins mikilvæg og góð eins og hún er, þá skilar hún sér ekki alltaf.
Þeir sem vilja hjálpa með því að benda þeim sem eiga erfitt á allt það jákvæða, þurfa svolítið að þreifa fyrir sér hvernig móttökuskilyrðin eru þá og þá stundina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir frábæran pistil.

Marta B Helgadóttir, 3.10.2008 kl. 13:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband