Mann langar mest til að gráta

Tilhugsunin um hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni og komandi kynslóð kallar fram tilfinningu sorgar og trega.

Mest af öllu langar manni að setjast niður og hágráta og þá ekki hvað síst vegna þessara IceSave reikninga.

Er það sem sagt málið að vegna ákvarðanna einhverra fárra einstaklinga, svokallaðra útrásarmanna í bankamálum, sé nú íslenska þjóðin að skrapa botninn á sviði fjármála og sjálfstæðis?

Að sjálfsögðu var það ekki ætlun þessa hóps að rústa þjóð sinni.

Enginn hefur það að ásetningi að ganga frá þjóð sinni dauðri.

En þetta er sá raunveruleiki sem blasir við okkur nú og nota bene við (íslenska lýðveldið), Alþingi, kjörnir fulltrúar, kjósendur, einfaldlega stjórnskipulagið og peningamálastefnan veittum það svigrúm sem ól af sér það umhverfi sem vitleysisgangur sem þessi gat vaxið og dafnað í.  Bankakerfi sem er margfalt stærra en sjálft hagkerfi landsins.

Það virkar asnalegt að segja þetta, alla vega fyrir þá sem hvergi komu nærri neinu af þessu en útá-við erum við öll sem eitt. Það hafa Íslendingar á erlendri grund fengið að finna á eigin skinni síðustu daga.

Til að skýra þetta nánar munu barnabörn mín segja þegar þau komin á fullorðinsárin eitthvað á þá leið að,
..það var í  tíð ömmu sem þetta gerðist...

Framundan er að borga, borga og borga.

Jafnvel þótt gert verði eitthvert samkomulag sem lágmarkar fjárhagsþyngslin næstu árin og gera greiðslubyrðarnar viðráðanlegar eins og nú er verið að reyna að semja um, þá er stærðargráða þessar upphæða IceSave reikninganna slíkar að ómögulegt er að gera sér grein fyrir hvað þær merkja í tíma og rúmi.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það mun enginn borga neitt af því sem hann á ekki. Íslendingar munu bara flytja burt og koma svo síðar eins og gyðingar til að krefjast fyrirheitnalandsins. Það mun þýða að aðrir taki hér yfir.

Kannski er það lausn nú að gera eins og hlutafélagi í þessari stöðu er kleyft að gera, því ísland er jú bara hlutafélag, þar sem allir eiga jafnan hlut. Það er að leysa upp reksturinn og selja eignir ríkisins á krónu til valinkunnra einstaklinga í alþýðustétt á eina krónu. Svo geta útlendingar athugað hvað þeir geta hirt. Ekkert. ég kaupi gullfoss á krónu og þú landsvirkjun á krónu os.fr. Voluntary Liquidation. Svo þegar allt er um garð gengið getum við sest saman og myndað sameign að nýju og sett á stofn nýtt ísland.

Við borgum ekki handrukkurum imperialista. Við höfum beðið um að fá þann sjálfsagða rétt að skjóta málinu til alþjóðadómstóla en okkur er neitað um aðgang að því réttarkerfi. Þá er fátt um annað að ræða en að leysa landið upp í hendur hluthafa þess og byrja svo á nýrri kennitölu er það ekki?

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2008 kl. 03:23

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er enn ljós í Stjórnarráðinu. Það boðar sjaldnast gott, en vonandi gerir það það samt. Nú er vonin ein eftir hvort sem er. Á morgun koma vafalaust stórar fréttir ef að líkum lætur.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2008 kl. 03:27

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Við verðum fljót að ná okkur, bara örfá ár. Það var ekkert glópalán (bankalán) að við urðum ein ríkasta þjóð heims. Nei, ríkidæmi okkar er til komið vegna aðlögunarhæfni, hjálpsemi, vinnusemi og góðvildar.

Fólk (í þessu landi) er almennt gott og vel meinandi, líka fólkið sem vann í bönkunum,  það er ekki spillt eða undirförult eins og haldið hefur verið fram.  Það er reyndar sáralítil spilling á Íslandi.

Fólk gerir mistök, seðlabanki getur gert mistök, ríkisstjórnin getur gert mistök og mistök hafa stundum vondar afleiðingar sem bitna á þjóðinni. Hins vegar finna fyrirtæki á markaði fyrir eigin mistökum í allskonar formi, stundum gjaldþrotum.

Mistök er ekki spilling. Fólk lærir af mistökunum eins og sjómenn, útgerðarmenn og bændur - en stjórnmálamenn og embættismenn kenna öðrum um.

Áfram Ísland!

Benedikt Halldórsson, 14.11.2008 kl. 06:00

4 Smámynd: H G

"mann langar að gráta" skrifarðu, ef vilt vola á annað borð.  Þetta er ekki nándar nærri svona svart. Fáðu e-n sem kann að reikna til að deila í þetta damatíska voða-dæmi með þér - og koma því niður á jörðina.  Kær kveðja.

H G, 14.11.2008 kl. 06:53

5 identicon

Ég segi það sama elsku Kolbrún - maður er mjög sorgmæddur - að fólk geti misst sig svo í vellystingarnar að það láti ekkert stöðva sig!!!

Mig langar svo að fara að sjá hugsjónafólk í forsvari - fólk sem ber almenning fyrir brjósti - líka þá sem eru þeim algjörlega óviðkomandi - ekki bara einhverja vini og ættingja. Fólk sem setur heiðarleika og trygglyndi í heiðurssæti í lífi sínu.

Ása (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 07:39

6 identicon

Reiði mín beinist ekki eingöngu að útrásravíkingunum, heldur meira að þeim sem gerðu þeim þetta kleyft og mærðu þá á tillidögum. Og þjóðin þarf að borga skaðann. Núna þessa stundina eru sjálfstæðismenn hver af öðrum að koma út úr skúmaskotum sínum og segja að nú sé tími til komin að rjúfa þögnina. Og ég spyr ,,hvaða þögn eru þeir að tala um?" Jú þögnina sem hefur ríkt í þjóðfélaginu vegna hræðslu við foringjann Davíð Oddsson. Þessi hræðsla hefur gert það að verkum að maðurinn er búinn að vera nánast einráður í hart nær tvo áratugi. Það er ekki fyrr en núna sem menn segja sínar skoðanir án þess að óttast að missa annað hvort vinnuna eða að pólitískur frami færi í ruslið. Út af hverju segir fólk ekki bara stöðuna eins og hún er. Það væri alla vega gaman að spyrja þá sem segja að nú sé tími til komin að rjúfa þögnina hvers vegna þeir hafa ekki talað fyrr en nú? Að hugsa sér að einn maður hafi haft svo mikil völd að 40% þjóðarinnar hafi verið algjörlega heft í því að segja sínar eigin skoðanir af ótta við að þær stangist á við skoðanir foringjans. Svona sé ég þetta alla vega, og það er sorglegt að maðurinn skuli hafa haft slíkt náðarvald að hálf þjóðinn hélt sér í þögn og elti allar skoðanir þessa manns jafnvel þó þeir væru ekki sammala í hjarta sínu. Hversu oft komu ekki menn í fjölmiðla og vörðu óheiðarlegar mannaráðningar vitandi betur. Eins og það hafi ekki allir vitað að hæstaréttardómararnir sem hafa verið ráðnir innmúraðir úr flokknum hafi verið vegna klíku? Eins og allir hafi ekki vitað að sonur Davíðs fékk vinnuna vegna þess hver hann var en ekki vegna hæfni? En samt komu menn og vörðu óheiðarleikann, hvers vegna gerir fólk svoleiðis? Jú vegna þess að menn voru hræddir við afleiðingar þess að gera það ekki og einnig vegna þess að menn voru að vonast eftir bitlingum frá foringjanum. Og núna er þjóðin komin á hausinn vegna þessara manna. Ég segi ,,Takk Sjálfstæðisflokkur."

Valsól (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 09:32

7 Smámynd: H G

Sammála síðasta ræðumanni!!

H G, 14.11.2008 kl. 09:59

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sko..ég get nú alveg þolað margt og tekið á mig byrðar..en mikið djö...vil ég ekki sjá að þessir flottu krakkar mínir og fallegu barnabörnin mín þurfi að bera þessar byrðar á sínu baki í fjöldamörg ár eða áratugi. ÞAÐ KEMUR BARA EKKI TIL GREINA!! Og það er þyngra en tárum taki að séu enn foreldrar sem sitji heima og láta ekki sjá sig á "Hallærislegum mótmælum". Við verðum hvert og eitt okkar að styrkja samtakamáttinn og sýna samstöðu geng svona ömurlegheitum eins og okkur hafa verið sýnd. MAÐUR GETUR ÞÓ ALLAVEGA HORFT FRAMAN Í BÖRNIN SÍN OG SAGT..ÉG REYNDI!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 14.11.2008 kl. 10:23

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála Valsól hér að ofan.  En ég vil segja mikið fannst mér yndæll þátturinn þinn og viðtalið við Karl Tómasson frá Mosfellsbæ.  Takk fyrir hlýlegan manneskjulegan þátt Kolbrún mín.  Mikið tókstu þig vel út líka.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2008 kl. 11:32

10 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég er svo sammála þér. Þetta er þyngra en tárum taki. Maður er eitthvað svo vanmáttugur og það er erfiðast.

Steingerður Steinarsdóttir, 14.11.2008 kl. 11:34

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband