Það fóru ekki allir á fyllerí

Það er ekki rétt þegar sagt er að öll þjóðin hafi farið á neyslufyllerí og þá er átt við að hafa eytt um efni fram, tekið mörg og stór lán og fengið yfirdrætti eða með öðrum hætti hagað sér með óábyrgum hætti í fjármálum.

Þetta gerðu margir en ekki allir. Hópur Íslendinga tók að engu leyti þátt í þessu heldur lifði lifi sínu af hógværð og skynsemi. Sem dæmi má nefna marga sem komnir eru á miðjan aldur og þar yfir sem lærði í sínum uppvexti að fara vel með peninga.

Þetta fólk hefur í engu breytt sínum lífsstíl undanfarin ár. Það hélt áfram að vinna sína vinnu, borga sína reikninga, veita sér hluti og munað eftir því sem fjárráð leyfðu hverju sinni.
Þetta er fólkið sem vildi eiga fyrir því sem það keypti.

Margir af þessum einstaklingum settu það í forgang að leggja fé til hliðar til efri áranna. Það er einmitt þetta sparifé sem nú er tapað en eins og kunnugt er voru margir hvattir til að geyma fé sitt í peningamarkaðssjóðum gömlu bankanna og þeim talin trú um að áhættan væri engin. Nú er allt að þriðjungur sparifjárins fólkinu líklegast með öllu tapaður.

Í þessum hópi fólks sem ekki voru þátttakendur í ruglinu er einnig ungt fólk sem ætlaði ekki að drekkja sér strax í skuldaklafa og hagaði lífi sínu samkvæmt því.

Þess vegna er það hvorki rétt né sanngjarnt að segja að ÞJÓÐIN, allir sem einn, hafi misst sig í neyslugleðinni þegar verið er að tala um það fólk sem skuldsetti sig langt umfram greiðslugetu eða þá sem tóku stórar áhættur á hlutabréfamarkaði í því skyni að ætla að græða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er allt saman satt og rétt Kolbrún mín.  En sagði ekki Ingibjörg Sólrún að við værum ekki þjóðin?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.1.2009 kl. 10:44

2 identicon

Gallin við al-orðin eru þau að þau verða einskonar yfirbreiðsla og hulinshjálmur sem fela fleira en fela á. Dæmi:

Þú tekur ALdrei til eftir þig. Þú ert ALtaf með ALlt á hornum þér. Þetta er ALgerlega út í hött hjá þér.

Þegar stjórnmálamenn segja að ALþjóð hafi verið á neyslufyllerí og að ALþjóðleg bankakreppa hafi skollið á sem ekki hafi verið hægt að verjast, af því að hún var ALgerlega ekki fyrirsjáanleg, þá er einmitt maðkur í mysunni. "Ekki benda' á mig ..." söng Bubbi og nú með kór ríkisstjórnar sem bakraddir.

Eins og hjá hjónum sem nota al-orðin til að koma sök af sér og á makann. Hvað köllum við svona í sálfræðinni og sálgæslunni?

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 22:35

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það er tilhneiging hjá okkur flestum að alhæfa í því skyni oftast nær til að leggja áherslu á orð okkar. Þetta höfum við allflest okkar einhvern tímann gert á ævinni og þykir í sjálfu sér svona almennt séð saklaust en fer auðvitað eftir því hvert málefnið er.

Í stað þess að segja margir, sumir eða nokkrir finnst okkur mörgum (best að alhæfa nú ekki) auðveldara að segja allir.

Til dæmis held ég að óhætt sé að segja að þjóðin öll fari ekki varhluta af þrengingum nú sem er afleiðing krísunnar eða kreppunnar sem við köllum. 

En að allir skyldu eiga þátt í að svona er komið er einfaldlega ekki rétt og í raun enginn vandi að sýna fram á það. En þolendur erum við öll með beinum eða óbeinum hætti og klárlega að mestu með beinum hætti sbr. lán hafa hækkað og matur svo ekki sé minnst á að margir hafa misst og er um það bil að missa vinnuna.

Varðandi hin opinberu mótmæli þá finnst mér að þeir sem taka til máls séu fyrst og fremst að tala fyrir sína hönd nema þeir hafi umboð til annars. Ef boðað er til mótmælafundar úti eða inni til að mótmæla einhverju sérstöku málefni eða manneskju þá finnst mér að þeir sem mæta þangað séu í raun að taka þátt í efni mótmælanna.  Taki einhver til máls getur hann eiginlega alveg sagst vera að tala fyrir hönd hópsins sem þarna stendur. En það nær varla mikið lengra en það nema hann hafi sérstakt umboð frá þeim sem ekki eru þarna staddir.
Þetta er svona eins og ég sé það. 

Fyrst þú spyrð um sálfræðina Carlos dettur mér í hug þessi þekktu skólabókardæmi sem tekin eru t.d. þegar þú lest um alhæfingar í sambandi við fordóma.

Ítalir eru svo blóðheitir, Norðmenn svo aðhaldssamir og Skotar svo drykkfelldir. Þetta eru svona þekkt dæmi sem myndast hafa um alhæfingar frá fáum, þess vegna mörgum yfir á heila þjóð.

Já og eitt frægt dæmi er að  Ameríkanar séu með stóran rass

Kolbrún Baldursdóttir, 10.1.2009 kl. 10:06

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband