Forðast að eiga viðskipti við fasteignasala sem ekki munu starfa samkvæmt siðareglum. Samtengja má löggildingu og siðareglur

Viðskiptaráðherra mælir fyrir frumvarpi sem felur í sér afnám skylduaðildar að Félagi fasteignasala. Fasteignasalar sem gerast ekki aðilar að Félaginu þurfa þar með ekki að fylgja siðareglum.

Ef litið er til annarra stétta og er þá nærtækast fyrir mig að tala um stétt löggildra sálfræðinga þá felur löggilding Landlæknisembættisins í sér þá kröfu að viðkomandi sálfræðingur skuli fylgja þar til gerðum siðareglum. Þetta er án tillits til hvort viðkomandi sálfræðingur hyggst gerast aðili að Sálfræðingafélagi Íslands.

Með sama hætti mætti tengja siðareglurnar við löggildinguna hjá sýslumanni í tilviki fasteignasala. Svo er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann gangi til liðs við Félag fasteignasala.

Allir þeir sem fara með viðskipti fyrir almenning ættu skilyrðislaust að fara eftir siðareglum.  Allt of oft hafa menn brennt sig á því að skapast hafa aðstæður í viðskiptageiranum þar sem skortir eftirlit, leiðbeiningu og aðhald.

Verði þetta frumvarp að lögum með þessum agnúa hvet ég alla þá sem ætla að eiga fasteignaviðskipti að sniðgagna þá fasteignasala sem ekki eru skuldbundnir til að starfa samkvæmt ákveðnum siðareglum fasteignasala.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband