Skyggnst inn í heim lesblindra

eva2picture1_jpg.png

Aldrei er nógsamlega talað um málefni lesblindra. Það vita kannski ekki allir að það eru til fjölmörg afbrigði af lesblindu. Um er að ræða röskun sem hefur misalvarleg áhrif og afleiðingar á þá sem við hana glíma.

 Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en í mínu starfi sem sálfræðingur, þar á meðal í skóla, hef ég kynnst mörgum börnum sem stríða við lesblindu. Þegar grunur leikur á um að barn sé lesblint er þeim m.a. vísað til skólasálfræðings til greiningar. Sérkennarar og sálfræðingur sameinast um að skilgreina vandann svo hægt sé að aðlaga námsefnið að þörfum barnsins með tilliti til styrkleika þess og veikleika.

Þátturinn Í nærveru sálar á ÍNN, mánudagskvöldið 21. September fjallar um málefni lesblindra. Eva Lind Lýðsdóttir er 23 ára en hún hefur glímt við erfiða tegund lesblindu. Eva er ein af þremur systkinum og öll eru þau lesblind. Eva var greind með lesblinduröskun þegar hún var 10 ára.

Eva ætlar í máli og myndum að gefa áhorfendum Í nærveru sálar tækifæri til að skyggnast inn í brot af hennar heimi sem lesblindum einstaklingi svo við hin getum reynt að skilja hvernig veruleikinn lítur út frá hennar bæjardyrum séð.

 

evapicture1_jpg.png


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarft málefni til að ræða um. Ég hef kynnst þessu af eigin raun, þar sem dóttir mín er með fremur væga lesblindu, en þó þannig að það hefur áhrif. Ég fór með hana sjálf í tvær greiningar og borgaði sjálf vikunámskeið í s.k. Davis meðferð sem hafði alveg gríðarleg áhrif á hana, bæði á getuna, viðhorfin og sjálfsmatið. Svona námskeið eru dýr. Hún var um 9 ára þegar að við áttuðum okkur, því hún var snemmlæs og það var ekki fyrr en hraðinn kom í kringum hana að við sáum að ekki var allt eins og búist var við. Hún var 10 ára þegar hún fór á námskeiðið. Hún er með mjög myndræna hugsun og nýtur sín í listgreinum og íþróttum. Engu að síður hefur hún mikinn áhuga á náminu og hefur staðið sig mjög vel, en þarf að hafa svolitíð fyrir því og því meira sem lestrarfög bætast við og byggja meira á lestri. Ég satt best að segja er mjög hissa á að skólakerfið og kennsluaðferðir skulu enn byggjast að svo miklu leyti á lestri sem raun ber vitni (ekki skal ég samt gera lítið úr gildi góðrar lestrarkunnáttu) og hví ekki sé kennsluaðferðir notaðar í meiri mæli sem hentar lesblindum, því að þær aðferðir henta hinum líka og mér segir svo hugur að langflestum börnum þyki það skemmtilegri aðferðir. Skólakerfið er að mörgu leyti alls ekki að standa sig gangvart þessum börnum, þó að ég vilji nú meina að kennarar séu allir að vilja gerðir. Hafa ber í huga að börn með svona námsörðugleika eru líklegri til að detta úr námi, þrátt fyrir oft á tíðum miklar gáfur og hæfileika sem kastað er á glæ. Ætti að vera óþarfi í dag, þegar að öll þekkingin er fyrir hendi á málefninu. Að mínu mati er þannig búið að þessum krökkum í dag, að þau njóta ekki þeirrar menntunar sem þau eiga að fá skv. lögum. Það sem skiptir máli er að þau eiga að fá ákveðna menntun og skólinn eða menntakerfið þarf að útvega verkfærin sem þau þurfa til að "innbyrða" þessa menntun.

Ásdís Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 09:52

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Takk fyrir að deila þessu með okkar Ásdís.

Kolbrún Baldursdóttir, 21.9.2009 kl. 17:59

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband