Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Í KALLFÆRI á ÍNN. Þátturinn endursýndur um helgina 7. og 8. mars

litil_moa_image001_806500.jpg

Jón Kristinn Snæhólm bauð mér að setjast hinum megin við borðið á ÍNN og vera viðmælandi sinn. Það var sérkennileg tilfinning enda á þeirri góðu sjónvarpsstöð þekki ég einungis hitt hlutverkið þ.e. að vera í hlutverki spyrils.

Við förum í gegnum helstu þjóðmálin í kvöld, hann spyr og ég svara:

Skuldir heimilanna, atvinnuleysið, peningastefnan, krónan og hvað mér finnst um aðild að ESB. Einnig hvaða málaflokkur ég vil helst tengja mig við starfaði ég á Alþingi, vinnubrögð og fleira.

Allar skoðanir og hugsanir upp á borð. Það er krafa kjósenda að vita hvar frambjóðendur standa og hvernig þeir hyggjast vinna. Ég er hins vegar andvíg ofurloforðum en get lofað einu og það er að vinna vel og samviskusamlega, vakin og sofin yfir velferð samlanda minna.

Minni jafnframt á vefinn profkjor.is en þar er að finna ýmsar upplýsingar er tengjast persónunni Kolbrúnu, viðhorfum, skoðunum og framtíðarsýn á sviði stjórnmála.

Þátturinn er endursýndur um helgina. 


Ekki hægt að hækka skatta við þessar aðstæður

Ég var spurð að því í gær á fundi hvort mér fyndist að ríkið ætti að skapa störf nú og þá hvernig?

Sannarlega er það forgangsverkefni að leita leiða til að blása lífi í atvinnulífið. Manneskja sem er atvinnulaus og sér ekki í hendi sér að hann/hún fái vinnu innan tíðar býr ekki einungis við fjárhagslegt óöryggi heldur finnst einnig sjálfstraustið hafa beðið hnekki. Fátt er meira niðurdrepandi en að hafa ekki verkefni til að takast á við daglega. Rútína af einhverju tagi er flestum mikilvæg ef ekki nauðsynleg. 

Til að leiðir hverjar svo sem þær eru leiði til viðunandi lausna hvað þetta varðar þarf að ná verðbólgunni niður og lækka vexti til þess að fyrirtæki hafi aðgang að lánsfjármagni og geti fjármagnað rekstur.  Hversu mikil og á hvaða sviði afskipti ríkisins eiga að vera tengist þessari umræðu. Á ríkið að gangast í það að skapa störf eða ætti sem fyrst að losa það við fyrirtæki eins og t.d. bankana?  

Ef ríkið á að skapa störf nú í einhverjum mæli, hvar á að taka til þess fjármagn?  Ríkið hefur stuðlað að aukningu starfa  t.d. þegar farið er í stóriðjuframkvæmdir. Stóriðjuframkvæmdir geta varla verið ofarlega á forgangslistanum nú enda þótt störfin væru vissulega vel þegin. Eigi ríkið að fara í stórframkvæmdir mitt í björgunaraðgerðum og endurreisn er víst að hækka þurfi skatta. Að auka skattabyrði á fólkið nú er aðgerð sem fylla mun mælinn. Almenningur ræður ekki við hærri álögur.

Störf geta hins vegar orðið til með ýmsum hætti. Sem dæmi má nýta mannauðinn, hugvitið til nýsköpunar og styðja við lífvænleg vel rekin sprotafyrirtæki. Einnig má skapa störf eða hindra að störfum fækki með hagræðingu og skipulagningu innan fyrirtækja.  Eins og nú árar gæti verið nauðsynlegt alla vega tímabundið að skipta störfum upp og deila þeim milli manna. Lítil vinna er betri en engin vinna. Æskilegt væri að um þetta næðist sátt. Sátt um aðgerðir sem þessar eykur samkennd meðal manna og löngun til að róa þennan lífróður saman.


Afsökunarbeiðnir

Það er gott að geta beðist afsökunar, það geta alls ekki allir. Stundum er engin krafa um afsökunarbeiðni en einstaklingur getur fundið það í hjarta sínu að hann eigi að gera það, finnist honum hann hafa gert mistök, gert eitthvað á hlut annars.

Nú eru afsökunarbeiðnir, frá ráðamönnum sem finnst þeir eiga sinn þátt í andvaraleysi sem þingmenn þjóðarinnar, farnar að birtast.

Stundum eru mál þannig að afsökunarbeiðni er krafist og viðkomandi einstaklingur eða hópur ákveður að biðjast afsökunar jafnvel þótt hann finni það ekki endilega í hjarta sínu að honum beri að gera það en vill samt sem áður gera það til að svara kalli þeirra sem finnst á sér brotið.

Það að fullorðið fólk geti beðið afsökunar, hvort heldur þjóðina, vini, maka eða börn sín allt eftir eðli málsins, er góður kostur. Foreldrar eiga að geta beðið börn sín afsökunar hafi þau með einhverjum hætti sýnt þeim neikvæða hegðun t.d. skeytt á þeim skapi sínu eða gert eitthvað á hlut barnsins sem því líður illa yfir. Foreldri sem sýnir barni sínu að það er ekki hafið yfir að geta beðið afsökunar er góð fyrirmynd.


Ragnhildur Helgadóttir, fyrrv. alþingismaður og ráðherra fjallar um viðmót þingmanna og starfshætti á Alþingi

rhkbkroppnaerverusalar_02mar09.jpgÍ nærveru sálar í kvöld kl. 9.30 ræðir Ragnhildur Helgadóttir, fyrrv. alþingismaður og ráðherra við Kolbrúnu Baldursdóttur, sálfræðing um viðmót og framkomu þingmanna fyrr og nú. Einnig um starfshætti á þingi, breytingar á starfsreglum eins og styttingu ræðutíma við aðra umræðu og af hverju þingmannamál eiga það til að daga uppi í nefndum.

Tillaga Framsóknar um niðurfellingu hluta skulda ekki nógu vel ígrunduð

Tillaga Framsóknar um að fella niður tuttugu prósent af skuldum landsmanna er samkvæmt Þórólfi Matthíassyni hagfræðingi ekki nógu vel ígrunduð. Eins og hann orðar það þá er með þessu verið að færa fé frá þeim tekjulægri yfir til þeirra tekjuhærri. Fyrir hrunið voru það þeir tekjuhæstu/tekjuhærri sem skulduðu meira en þeir sem voru með lægri tekjur. 

Dæmi, ef þessi tillaga næði fram að ganga þá myndi sá sem skuldar 500 milljónir fá 100 milljónir niðurfelldar á meðan sá sem skuldaði 5 milljónir fengi eina milljón niðurfellda. Sá sem skuldar ekki neitt greiðir skatta til Ríkisins sem tekur á sig að greiða þetta.  Ef eitthvað á að fella niður kemur það í hlut einhvers annars að greiða það. 

Hrói Höttur með öfugum formerkjum sagði sérfræðingurinn um þessa aðgerð yrði hún að veruleika.

Eitthvað þarf greinilega að skoða þetta betur og vonandi kemur hugmynd að lausn sem er sanngjörn og framkvæmanleg. En hvort sú lausn felur í sér niðurfellingu eða að létta með einhverjum hætt enn frekar  á greiðslubyrðinni á eftir að koma í ljós.


Sjálfstæðisflokkurinn og velferðarmálin, þátturinn endursýndur í kvöld.

stefaniaminnimbl0058801.jpgViðtal við Stefaníu Óskarsdóttur er endursýnt á ÍNN í kvöld kl. 11.30 í þættinum
Í nærveru sálar.

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929. Hugmyndafræði sem hann lagði strax fram og kölluð hefur verið sjálfstæðisstefnan felur í sér:
1.  Áherslu á einstaklingsframtak og viðskiptafrelsi
2.  Uppbyggingu velferðakerfis til að tryggja samstöðu í þjóðfélaginu
Það er þetta síðarnefnda sem við Stefanía ræðum sérstaklega um.

Hver er ímynd Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að velferðarmálum?

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband