Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019

Upplýsingafulltrúi Strætó pólitískur ?

Ég er enn svo blaut bak við eyrun í pólitíkinni að ég hugsaði ekki mikið þegar upplýsingafulltrúi Strætó fór að höggva í bókun mína í borgarráði hvað varðar allar þessa ábendingar sem snúast að mestu um framkomu, aksturslag og tímasetningar. En ég fékk ábendingar frá öðrum mér reyndari sem bentu mér að að þetta væri vægast sagt óviðeigandi af starfsmanni opinbers fyrirtækis. Hvað yrði sagt ef upplýsingafulltrúi t.d. Vegagerðarinnar eða annars sambærilegs fyrirtækis færi að blanda sér í umræður alþingismanna um samgöngumál og leggja pólitískt mat á bókanir þeirra í samgöngunefnd þingsins?

 

Upplýsingafulltrúi Strætós er ekki að gagnrýna rangfærslur í bókun minni heldur mitt mat á upplýsingum. Enn og aftur spyr ég mig um þessi svokölluð byggðasamlög. Þau eru eins og ríki í ríkinu og borgin hefur ekkert um þau að segja þótt hún eigi stærsta hlutann í þeim. Þau virðast sem dæmi geta ráðið sér "pólitískan" upplýsingafulltrúa eða annan ef því er að skipta og það gleymist að þetta eru opinber fyrirtæki að mestu í eigu borgarinnar. Maður hélt að opinberir starfsmenn væru eða ættu að vera ópólitískir?

Upplýsingafulltrúinn heggur í mína túlkun á fjölda kvartana til Strætó sem ég segi enn og aftur eru óeðlilega margar hjá þjónustufyrirtæki eins og Strætó. Við erum að tala um að meðaltali 10 á dag jafnvel. Sýnist sitt hverjum með þetta. Ég óskaði eftir þessum upplýsingum og legg mat á þær m.a. í bókun í borgarráði.

Annað í ummælum upplýsingafulltrúans sem birt var á visi.is sem sló mig er þessi talnaleikurinn með „innstig“ . Hann leggur saman ferðafjölda Strætó og býr til nýja tölu farþega upp á tugi milljóna farþega með því að telja hvert innstig margra sömu einstaklinganna að sjálfsögðu.

Mig langar eiginlega að spyrja forstjórann hvor það  sé hluti af starfi upplýsingafulltrúa  að gagnrýna kjörna fulltrúa í eigendasveitarfélögum ef þeir leyfi sér að fjalla um fyrirtækið með gagnrýnum hætti.

 

En hér er bókun mín í heild sinni svona til að setja þetta í samhengi.

Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó bs. frá notendum þjónustunnar kemur fram að fjöldi ábendinga eru eftirfarandi: 2016 - 3654 ábendingar, 2017 - 2536 ábendingar 2018 - 2778 ábendingar. Flestar ábendingar sem berast Strætó snúa að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins sýnist á svari að gæðakerfið sé gott og gengið er strax í málin en fjöldi ábendinga er óheyrilegur. Borgarfulltrúi átti kannski von á 100 til 200 ábendingum en ekki á þriðja þúsund og yfir. Fjölgun er milli ára 2017 til 2018 og munar þar um ca. 200 ábendingum. Fækkun sem er frá 2016 til 2017 heldur ekki áfram árið 2018 heldur fjölgar þá aftur ábendingum. Þetta er afar sérstakt. Flokkur fólksins spyr hvort kafað hafi verið ofan í þessu mál og unnið að því að fækka ábendingum verulega. Áhugavert væri að fá nánari flokkun á þessu t.d. eru flestar kannski kvartanir vegna tímasetningar? Niðurstaðan í huga borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar hann hefur séð þetta svar er að það er eitthvað mikið að í þessu fyrirtæki þegar kemur að þjónustu við farþega. Slíkur fjöldi ábendinga er ekki eðlilegur.

 

Fréttin á visi.is í gær þar sem upplýsingafulltrúinn tjáir sig:

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, gagnrýnir bókun Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi fjölda ábendinga sem borist hafa Strætó síðastliðin þrjú ár. 

Vísir fjallaði um bókunina í gærkvöldi en Strætó bárust tæplega níu þúsund ábendingar á þremur árum, frá 2016 til 2018. 

Í bókun Flokks fólksins sagði að fjöldinn kæmi á óvart og að niðurstaðan í huga Kolbrúnar væri sú að það væri eitthvað mikið að hjá Strætó þegar kæmi að þjónustu við farþega. 

„Okkur fannst þetta svolítið skrýtin bókun. Hún segir að það sé eitthvað mikið að fyrirtækinu en það er ekki meira samhengi. Okkur langar að gefa aðeins meira samhengi því Strætó er með ótrúlega mikla þjónustu. Ef við setjum þetta í samhengi þá eru 8900 ábendingar síðustu þrjú ár en fjöldi innstiga í vagnanna á höfuðborgarsvæðinu síðustu þrjú ár hafa verið 34 milljónir þannig að það er tæknilega séð hægt að tala um 34 milljónir farþega,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi. 

Varðandi það sem einnig er fjallað um í bókuninni að fjöldi ábendinga hafi aukist milli ára segir Guðmundur ástæðuna fyrir því vera að Strætó leggi áherslu á að skrá allt.

„Sama hvort það er kvörtun, hrós, hugmynd eða tillaga,“ segir Guðmundur og bætir við að Strætó fagni öllu því sem komi inn og vilji gefa farþegum sterka rödd. 

„Svo okkur finnst þetta dálítið óábyrg bókun og að skella þessu svona en það er ekkert samhengi á bak við hana.“

 


Frítt í strætó fyrir grunnskólanema 200 m.kr. á ári

Ég lagði fram fyrirspurn í borgarráði um hvað það myndi kosta á ári ef grunnskólanemar fengju frítt í strætó. 

Hér er svarið frá Strætó bs:

Heildarfargjaldatekjur af afsláttarfargjöldum til barna og ungmenna á árinu 2018 er áætlaður um 360 m.kr. og áætla má að hlutur Reykjavíkur af þessum hópi sé amk. 57% (hlutfall íbúa Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu), eða amk. 200 m.kr.

Bókun Flokks fólksins:

 

Fram kemur í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað það muni kosta ef grunnskólanemar fái frítt í Strætó. Það eru um 200 milljónir og segir í svari að það gæti verið erfitt miðað við núverandi greiðslufyrirkomulag að gera greinarmun á því hvort barn/ungmenni ætti rétt á að ferðast frítt eða ekki. Borgarfulltrúa finnst sýnt að hægt væri að láta þá sem eiga rétt á að ferðast frítt fá kort sem þau sýna við komu í vagninn. Svo málið er nú ekki flóknara en það. Gera má því skóna að væri frítt í strætó fyrir grunnskólanema í Reykjavík myndi notkun aukast. Í það minnsta væri vel þess virði að prófa þetta í tilraunaskyni í hálft til eitt ár. Þetta mundi auk þess muna miklu fjárhagslega fyrir fjölskyldur t.d. þar sem fleiri en eitt barn er á grunnskólaaldri.


Vel á þriðja þúsund kvartanir vegna þjónustu Strætó árið 2018

Flokki fólksins fýsti að vita hvertu oft væri kvartað yfir þjónustu Strætó bs. Okkur hafði borist ábending um að þjónustuþegar væru ekki alltaf sáttir og að þeir sem kvörtuðu þyrftu að bíða mánuðum saman eftir viðbrögðum. 

Auðvitað má reikna með að einhverjar kvartanir berist í fyrirtæki eins og Strætó en Strætó bs er svokallað byggðasamlag sem Reykjavík á stærsta hlutann í.

Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó bs. frá notendum þjónustunnar kemur fram að fjöldi ábendinga eru eftirfarandi: 2016 - 3654 ábendingar, 2017 - 2536 ábendingar 2018 - 2778 ábendingar. Flestar ábendingar sem berast Strætó snúa að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins sýnist á svari að gæðakerfið sé gott og gengið er strax í málin en fjöldi ábendinga er óheyrilegur. Borgarfulltrúi átti kannski von á 100 til 200 ábendingum en ekki á þriðja þúsund og yfir. Fjölgun er milli ára 2017 til 2018 og munar þar um ca. 200 ábendingum. Fækkun sem er frá 2016 til 2017 heldur ekki áfram árið 2018 heldur fjölgar þá aftur ábendingum. Þetta er afar sérstakt. Flokkur fólksins spyr hvort kafað hafi verið ofan í þessu mál og unnið að því að fækka ábendingum verulega. Áhugavert væri að fá nánari flokkun á þessu t.d. eru flestar kannski kvartanir vegna tímasetningar? Niðurstaðan í huga borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar hann hefur séð þetta svar er að það er eitthvað mikið að í þessu fyrirtæki þegar kemur að þjónustu við farþega. Slíkur fjöldi ábendinga er ekki eðlilegur.


Brauð og bjór í Bónus?

Reglulega liggur fyrir Alþingi  áfengisfrumvarp í einni eða annarri mynd sem miðar að því að auka sölu áfengis. Einnig liggur fyrir borgarstjórn tillaga Sjálfstæðismanna að borgarstjórn samþykki að hvetja Alþingi til að auka frelsi á áfengismarkaði. Ýmsar spurningar vakna  þegar þessi umræða hefst eins og hvort einhverjum finnist í alvöru að drukkið sé of lítið áfengi á Íslandi eða hvort okkur finnist sala áfengis of lítil eða hvort fólki finnist áfengi ekki nógu aðgengilegt?  Spyrja má einnig hvort þetta sé mál málanna, jafnvel forgangsmál hjá einhverjum stjórnmálamönnum eða flokkum? 

Áfengislög eru í landinu og þetta mál er fyrst og fremst málefni þingsins en ekki borgarinnar. Það væri sérkennilegt ef borgaryfirvöld ættu frumkvæði að því að ýta við þinginu um að koma áfengi í hverfisverslanir eins og tillaga Sjálfstæðismanna í borginni gengur út á. Borgin sem ber ábyrgð á að annast og mennta börnin fer varla að hvetja til aukins aðgengis að áfengi?

Skilaboð frá stjórnmálamönnum skipta máli

Það er ekki ný saga að stjórnmálamenn stökkvi fram á sjónarsviðið með tillögur sem lúta að því að auka aðgengi að vímugjöfum t.d. áfengi og kannabis. Skemmst er að minnast frumvarps fyrrverandi þingmanns Viðreisnar og núverandi borgarfulltrúa sama flokks að lögleiða kannabis. Nú er það tillaga Sjálfstæðismanna í borginni að vilja „vín í borg“ eins og þau orða það sjálf, eða áfengi í hverfisverslanir.En einn stjórnmálamaðurinn að þessu sinni Pírati tjáði sig nýverið um vímuefnamál samfélagsins og sagði það vera einhvern grundvallarmisskilning yfirvalda að samfélagið vilji vera vímulaust. Þetta sagði hann í samhengi við umræðu um skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra þar sem rætt er um smygl glæpagengja á stórhættulegum efnum.  Auðvitað vill samfélagið vera laust við slíkan ófögnuð!

Við hvorki eigum né megum normalisera þessa hluti. Sem sálfræðingur með reynslu bæði að því að starfa í fangelsum landsins og á Stuðlum sem og áratuga reynslu af því að vinna með unglingum finnst mér tal um að vilja ekki vímulaust samfélag ábyrgðarlaust. Tillögur um að auka aðgengi að áfengi og kannabis eru að sama skapi ábyrgðalausar. Þetta eru ekki góð skilaboð til unglinga sem við viljum að fresti eins lengi og mögulegt er að byrja neyslu t.d. áfengis, ef þeir ætli sér þ.e.a.s.  að neyta þess á annað borð. Í svona tillögum eru aldrei reifuð mótrök. Ekki er minnst orði á hagsmuni og velferð barna þegar hvatt er til að auka aðgengi að áfengi.


Samfélagið verður aldrei vímulaust

Samfélagið verður aldrei vímulaust en við getum ákveðið hvaða fyrirkomulag við viljum hafa með sölu vímugjafa og aðgengi að þeim. Það fyrirkomulag sem er núna er kannski bara ágætt. Það er engin nauðsyn að geta bæði keypt brauð og bjór í Bónus. Það eru nógu margar áfengisverslanir í Reykjavík og aðgengi að þeim er ágætt. 

Það er kannski heldur engin knýjandi þörf á því að styrkja hverfisverslanir sérstaklega með því að leyfa þeim að selja áfengi. Kaupmenn í hverfisverslunum mundu varla taka að sér að upplýsa kaupendur um skaðsemi áfengis eða rannsaka skaðsemi þess. Ungmenni sem starfa á kössunum geta varla borið ábyrgð á að spyrja um skilríki.


Ekki rugga bátnum að óþörfu

Ég er hrædd við að færa verslun áfengis í almennar verslanir, sama hvaða verslanir það eru hvað þá að lögleiða kannabis Ég eins og margir aðrir sem hafa tjáð sig um þessi má tel að með þessari breytingu á fyrirkomulagi eða lögleiðingu á kannbis muni þeim góða ár­angri sem við höf­um náð í for­vörn­um; minnk­andi ung­linga­drykkja og öðrum góðum ár­angri, vera stefnt í voða. Aukið aðgengi gæti leitt til auk­inn­ar neyslu. Fyrir suma unglinga er áfengi fyrsta efni sem neytt er áður en farið er út í sterkara efni.  

Óhætt er að fullyrða að samfélagið vill vera laust við hættuleg efni sem m.a.  glæpahringir flytja inn í landið. Margir foreldrar eru uggandi um velferð barna sinna þegar kemur að áfengi og vímuefnum og neyslu þeirra. Okkur ber að gæta orða okkar. Við sem erum í stjórnmálum eigum að vera góðar fyrirmyndir og ávallt að hafa hagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Okkar verkefni er að sinna forvörnum af kappi og gera allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa þeim sem ánetjast áfengis- og vímuefnum.

Greinin er einnig birt á visi.is


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband