Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020

Landfyllingarárátta skipulagsyfirvalda í Reykjavík. Fjörum fórnað

Hvað er með þessa landfyllingaráráttu skipulagsyfirvalda í borginni? Fjörur fá ekki að vera í friði því svo mikið þarf að þétta byggð. Gengið er á náttúrulegar fjörur. Til dæmi kemur landfylling í tengslum við uppbyggingu íbúðahverfis í Skerjafirði til með að skerða náttúrulegar fjörur þar.

Ýmsir hafa mótmælt. 
Náttúrufræðistofnun og fleiri hafa mælst til að fjörulífi verði ekki raskað. Sífellt hefur verið að gengið á fjörur á höfuðborgarsvæðinu. Forsendur fyrir þéttingu byggðar og hagkvæmni sem því getur fylgt á ekki að byggjast á því að raska lífríkustu svæðum Reykjavíkur. Af hverju má ekki skoðar aðrar leiðir t.d. gamla og góða aðferð sem er að gera trébryggju. Fyrstu bryggjurnar í Skerjafirði voru trébryggjur- bryggjur þar sem staurar voru reknir niður í undirlagið og trédekk sett á þá. Það er framkvæmd sem hefur lítil sem engin áhrif á lífríkið. Landfyllingar eru sums staðar hrein skemmdarverk.

landf. 1

 


Ég spurði um böðun

Óundirbúnum fyrirspurnum Flokks fólksins á fundi borgarstjórnar var beint til borgarstjóra sem framkvæmdarstjóra borgarinnar og varðar þjónustu við eldri borgara sem búa heima.

Spurt er um þjónustuþáttinn "aðstoð við böðun".
Stundum lenda baðdagar á rauðum dögum og fær fólk þá ekki aðstoðina á þeim dögum. Og nú líður að jólum og er hópur eldri borgara farinn að hafa áhyggjur af því að fá ekki aðstoð við böðun fyrir jól.

Hér kemur fyrirspurnin í heild sinni:
Sveitarfélög reka hjúkrunarheimilin. Í umræðunni nú er rætt um þörf fyrir mismunandi útfærslu á "hjúkrunar" –umönnunaraðstæðum Staðfest er að fjöldi hjúkrunarheimila eru í húsnæði sem ekki standast nútímakröfur Eftir plássi er samt löng bið. Þeir eru ófáir sem kvíða að fara á hjúkrunarheimili og fara ekki nema tilneyddir. Það er draumur lang flestra að þurfa ekki að eyða ævikvöldinu á stofnun heldur geta verið heima hjá sér. Til að fólk geti verið heima sem lengst þarf að bæta þjónustuna til muna og bæta við nýjum þjónustuþáttum. Þjónustuþörf er mismunandi eins og gengur en stundum vantar ekki mikið upp á til að viðkomandi geti búið lengur og lengi á heimili sínu.
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 19. ágúst 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum tillögunum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs og væru því ekki á ábyrgð velferðarráðs.
Ein af tillögunum var að gera breytingar á verkferlum sem lúta að aðstoð við böðun fólks sem þurfa þá aðstoð. Ýmislegt er ábótavant t.d. að að þeir sem njóta aðstoðar við böðun fái aðstoðina þrátt fyrir að áætlaður baðdagur þeirra lendi á rauðum degi.
 
Nú líður að jólum. Ákveðinn hópur eldri borgara sem búa heima eru orðnir áhyggjufullir þar sem baðdagur þeirra lendir á rauðum degi og óttast þeir að fara inn í jólin án baðs. Á þessu þarf að finna lausn, það eru jú mannréttindi að komast í bað.
Hyggst borgarstjóra beita sér fyrir að finna lausn á þessu ákveðna máli?

Í beinu framhaldi vill ég einnig spyrja borgarstjóra hvort hann muni beita sér fyrir því að bæta þjónustu við eldri borgara sem búa heima og fjölga þjónustuþáttum til að gera þeim mögulegt að búa heima hjá sér sem allra lengst?
Sjá má svör borgarstjóra í borgarstjornibeinni
borg 17.11 2

Tölvunarfræðingar látnir taka poka sinn

Mér heyrðist borgarmeirihlutinn segja að standa ætti vörð um störf á tímum COVID?
En nú hafa fjórum tölvunarfræðingum/kerfisfræðingum verið sagt upp hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar. Sumir starfsmannanna hafa um 20 ára starfsreynslu. Á sama tíma er greining Capacent um tölvumál borgarinnar merkt sem trúnaðargagn sem gerir fátt annað en vekja upp tortryggni ekki síst þegar fólki er sagt upp störfum. Útvista á verkefnum sem er bæði dýrara og verra þar sem þekking og reynsla tapast úr borgarkerfinu


Leynd á neyðartímum

Á neyðartímum eins og nú ríkir er fátt verra en leynd og að halda upplýsingum frá þeim sem kosnir eru til ábyrgðar. Núverandi Neyðarstjórn hefur haldið yfir 60 fundi án þess að fundargerðir hafi borist minnihlutanum. Tímabært er að endurskoða þessa skipan og skoða trygga aðkomu kjörinna fulltrúa að Neyðarstjórninni. Í þeim tilgangi mun fulltrúi Flokks fólksins leggja fram á næsta fundi borgarstjórnar 17. nóvember tillögu um að fyrirkomulag Neyðarstjórnar verði endurskoðað þannig að kjörnir fulltrúar fái að sitja fundi Neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum Neyðarstjórnar.

Við vissar aðstæður er kostur að mynda Neyðarstjórn sem hefur þá heimildir til að taka ákvörðun með hraði. Slíkt fyrirkomulag er þekkt einkum þegar vá er fyrir höndum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að við slíkar aðstæður þurfi þó að tryggja lýðræðislega kjörnum fulltrúum yfirsýn yfir störf  Neyðarstjórnar svo að þeir geti sinnt eftirlitsskyldum sínum. Ef borgarfulltrúar fá að sitja fundi Neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fá jafnframt aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem Neyðarstjórn byggir ákvarðanatöku sína á þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort Neyðarstjórn starfi eftir lögum og reglum.

Núverandi fyrirkomulag hefur annmarka. Neyðarstjórn var sett á laggirnar með samþykkt borgarráðs 16. ágúst 2018 á grundvelli erindisbréfs þar sem hlutverk hennar var skilgreint. Í skilgreiningu segir m.a.: „Neyðarstjórn hefur heimild til að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun í neyðartilfellum enda sé um slík tilfelli að ræða að afgreiðsla þeirra þoli enga bið. Borgarráð veitir aðrar nauðsynlegar heimildir vegna sérstakra fjárútláta og er á neyðarstigi í viðbragðsstöðu þar sem nauðsynlegt getur verið að kalla til aukafundar. Starfsmaður hópsins ber ábyrgð á fundarboðun, undirbúningi funda, fundarritun og úrvinnslu í samráði við borgarstjóra.“

Eins og staðan er núna er upplýsingaflæði frá Neyðarstjórn svo lítið að erfitt er fyrir minnihlutafulltrúa að meta aðgerðir Neyðarstjórnarinnar og hvort nauðsynlegt sé að taka ákvarðanir án þess að leggja þær í lýðræðislegan farveg. Ef kjörnir fulltrúar fá aðgang að fundum og gögnum Neyðarstjórnar þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort aðgerðir og ákvarðanir Neyðarstjórnar séu nauðsynlegar eða hvort þær gangi of langt.

Slíkt fyrirkomulag myndi ekki draga úr skilvirkni Neyðarstjórnar, enda myndi áheyrn ekki trufla fundi. Þá þarf ekki að óttast það að trúnaðargögn fari í dreifingu, enda hafa kjörnir fulltrúar þegar aðgang að ýmsum trúnaðargögnum og bera sömu ábyrgð og aðrir við meðferð á trúnaðargögnum.

 


VISSA Í ÓVISSU

Hver átti von á að upplifa þær aðstæður sem nú ríkja, aðstæður þar sem skæð veira skekur heiminn allan? Slíkar aðstæður kalla á æðruleysi og samstöðu. Í æðruleysi felst m.a. að sætta sig við það sem ekki fæst breytt.  Enginn er beinlínis sökudólgur og enginn er óhultur. Veiran er sameiginlegur óvinur og allir, án tillits til samskipta eða sambanda, vináttu eða ágreinings þurfa að berjast gegn vánni. 

 

Þetta tekur vissulega á, annað væri líka sérkennilegt, en við höfum einfaldlega ekkert val. Það er ekki í boði að gefast upp og leyfa þessum skæða sjúkdómi að höggva óteljandi skörð í samfélagið okkar með tilheyrandi sársauka og hörmungum. Vert er að minna á að það er vissa í óvissunni. Vissan er sú að ef við fylgjum leiðbeiningum sérfræðinga okkar munum við ná yfirhöndinni. Einnig er vissa um að það komi bóluefni. En þar til þurfum við að aðlagast breyttum venjum, tímabundið.  

 

Á meðal okkar eru hópar sem halda þarf vel utan um. Þeir sem eru veikir, andlega og/eða líkamlega. Annar hópur sem fer stækkandi eru þeir sem hafa misst lífsviðurværi sitt. Hvað tekur meira á andlegu hliðina en að missa vinnuna, mánaðarlegar tekjur og vera skyndilega komin á atvinnuleysisbætur? Sum börn eru auk þess kvíðin og fylgjast grannt með hvernig foreldrar þeirra eru að bregðast við stöðunni frá degi til dags. Um þessa hópa þarf að halda sérstaklega utan um í gegnum þennan erfiða tíma. 

 

Það er ekki allt alslæmt. Rafrænar lausnir og samskipti á netinu hafa sannarlega bjargað miklu en slíkt kemur  auðvitað aldrei í staðinn fyrir nærveru og snertingu. Tækifæri til hreyfingar hefur takmarkast en ekki að fullu. Alltaf er hægt að fara í göngu-, hjóla- og hlaupaferðir sem bjargar geðheilsu margra, ekki síst þeirra sem stunda líkamsrækt reglulega. Bjartsýni og ekki síst uppbyggjandi tal hjálpar bæði sjálfum manni og þeim sem standa nærri.


Hér er, eins og við ýmsar aðrar aðstæður, hægt að horfa á glasið sem hálf fullt í staðinn fyrir hálf tómt. Spyrja sig, hvað er það sem ég hef sem er öruggt og gott? Horfa á það sem er TIL frekar en að einblína á það sem VANTAR. Spyrja sig, hvað get ég gert meira í þessum aðstæðum, sem ég má gera samkvæmt sóttvarnarreglum en sem ég hef ekki verið að gera? Kemur mögulega eitthvað gott út úr þessu öllu?

Fyrir langflesta skiptir máli að halda einhverri rútínu þótt innandyra sé, finna leiðir til að skapa og búa eitthvað til. Sumum finnst hjálp í því að skrifa, t.d. skrifa dagbók eða taka til hjá sér, flokka og raða, prjóna, teikna, lita eða hugleiða og slaka á. Fyrir þá sem voru orðnir fullir af streitu og þreytu þegar kófið skall á, er nú lag að nota tímann og hvíla sig, ná þreki að nýju. Ef kólguský halda áfram að hrannast upp þrátt fyrir allt, þá umfram allt að leita aðstoðar.  Að biðja um hjálp er ekki feimnismál og allir geta á einhverjum tímapunkti verið í þeim sporum. Hjálp er fyrir hendi. Það birtir upp um síðir því ekkert ástand varir að eilífu.

 Birt í Fréttablaðinu 10.11. 2020

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.


Hvernig líður börnum að vera með grímu í skólanum?

Nú þegar komin er grímuskylda fyrir ákveðinn aldurshóp barna í grunnskólum lagði ég fram eftirfarandi tillögu í borgarráði í morgun:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að gerð verði könnun meðal barna á upplifun þeirra á grímunotkun í skólanum:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundasvið standi fyrir könnun á hvernig börn sem nú eru skyldug til að nota grímur í skólanum upplifi það og hver áhrif grímunotkunar er á líðan þeirra og félagsleg samskipti.

Börn fædd 2011 og fyrr þurfa að bera grímu, samkvæmt breytingu á reglugerð um takmörkun á samkomum sem heilbrigðisráðherra hefur staðfest. Þetta eru gríðarmikil viðbrigði fyrir börn og algjör óvissa ríkir um hversu lengi börnin þurfa að nota grímur, hvort það eru dagar eða vikur, jafnvel mánuðir.
Það er mikilvægt að skóla- og frístundasvið fylgist með áhrifum sem þetta hefur á börnin dagsdaglega, til skemmri og til lengri tíma.

Með því að gera kannanir/rannsóknir fást upplýsingar um hvort áhrif og afleiðingar grímunotkunar barna kalli á sérstakt inngrip sviðsins, framlagningu mótvægisaðgerða eða annað sem mildað gætu neikvæð áhrif grímunotkunar á andlega líðan og félagsleg samskipti. R20110105
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

börn með grímu minni

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband