Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2020

Það er sko líka göngugata í Mjódd

Það er sko líka göngugata í Mjódd! Segi nú þetta til að minna skipulagsyfirvöld á ef það skyldi hafa farið fram hjá þeim í öllum þessum hamagangi þeirra að gera varanlegar göngugötur í miðbænum. Það var gert án viðunandi samráðs við kaupmenn sem starfað hafa við Laugaveginn í áratugi með þeim afleiðingum að verslun þar hefur skaðast.

Stundum finnst mér sem fátt hafi komist að hjá skipulagsyfirvölum á þessu kjörtímabili annað en göngugötur í miðbænumMjódd mynd 2 eins og þar komi til með að vera nafli alheimsins.

Það lítur út sem það hafi verið einhvers konar lífsspursmál fyrir þeim að loka götum í miðbænum varanlega og gera þær að göngugötum. Nú hefur verið miklu fé í að skreyta þær, mála glaðlegum litum, kaupa í þær stóla og borð og sjá til þess að um leið og sólin skín eru viðburðir á hverju horni. 

En það er alla vega ein göngugata í borginni sem fengið hefur mun minni athygli hjá skipulagsyfirvöldum ef þá nokkra og það er göngugatan í Mjódd.

Kannski skipulagsyfirvöld geti nú gefið sér tíma til að snúa sér að henni, mála hana með glaðlegum litum og blása í svæðið lífi?

Í Fréttablaðinu í dag er grein um Mjóddina. Meira líf í Mjódd, en Flokkur fólksins hefur lagt fram í borginni þrjár tillögur sem lúta að endurgerð og betrumbótum á göngugötunni í Mjódd og á umhverfi Mjóddar. 

 

 


Bíll að láni

Í viðtali á Útvarpi Sögu í vikunni ræddi ég heilmikið um lífið og tilveruna í borgarstjórn. Auðvitað hef ég, sem sálfræðingur, oft verið að reyna að greina samskiptin milli meiri- og minnihlutans. Allir vita að þau hafa stundum verið skrautleg en færri vita kannski að einnig eru dæmi um ágæt samskipti.

Eftir auglýsingahlé leiddi Magnús Þór Hafsteinsson sem stýrði þættinum talið í umræðuna um borgarlínu og samgöngur í borginni. Í þættinum á undan var nefnilega formaður skipulags- og samgönguráðs í viðtali. Spyrillinn hafði spurt hana hvernig hún hafði komið á staðinn og svaraði hún því til að hún hafi þurft að fá lánaðan bíl til að aka börnum sínum í pössun til að hún kæmist í viðtalið. Þau hjónin hafa ákveðið að komast af án bíls og hjóla allar sínar ferðir. En svo koma stundir sem ekki er hægt að hjóla og þá þarf að fá lánaðan bíl.

Ég get vel skilið að það geti verið snúið að eiga ekki bíl ekki síst þegar börn eru á heimilinu sem stundum þarf af hinum ýmsu ástæðum að skutla hingað og þangað. Ég vorkenni formanni skipulagsráðs að eiga ekki bíl og býðst til að lána henni minn þegar svona aðstæður koma upp.  

En aftur að umræðunni um borgarlínu. Í þessum sama þætti sagði formaðurinn að með tilkomu borgarlínu væri verið að auka val.
Vissulega er hér um nýjan valkost að ræða svo fremi sem ekki annar valkostur verði á sama tíma tekinn af. 

Í öllu þessu kappi skipulagsyfirvalda að fækka þeim stöðum þar sem koma má á bíl upplifa ekki allir að verið sé að auka val. Mörgum finnst sem nú þegar sé farið að handstýra fólki, jafnvel með afli, í að losa sig við bíla sína og nota einungis borgarlínu og almenningsvagna og gildir þá einu hvort það henti lífsstíl fólks. Samt er borgarlína aðeins framtíðarsýn og er aðeins til sem líkan enn sem komið er.

Staðreyndin er sú að búið er að loka stóru svæði fyrir bílaumferð og fækka verulega götustæðum. Gjaldið hefur verið hækkað og það svæði sem er dýrast að leggja á hefur verið stækkað. Einnig er farið að krefjast stæðisgjalds á sunnudögum. Allt eru þetta skilaboð um að "ekki koma hingað á bíl".

Formaður samgöngu- og skipulagsráðs segir þetta gert í góðu samráði við borgarbúa og með þarfir þeirra, t.d. öryrkja og hreyfihamlaðra að leiðarljósi. Við þetta er hins vegar ekki kannast nema síður sé. Hvernig kemur borgarlína til með að henta hreyfihömluðu fólki þegar ekki enn er vitað hvernig fólk á að komast frá heimilum sínum á kjarnastöð borgarlínu. Hreyfihamlaðir hljóta að koma akandi á kjarnastöð? Geta þeir geymt bíla sína þar? Þegar á áfangastað er komið, hvernig kemst hinn hreyfihamlaði frá borgarlínustöðinni og til áfangastaðar? Í strætó?  
Ég er að reyna að sjá þetta fyrir mér. Spyrja má hvort skipulagsyfirvöld hafi útfært þessar tengingar með hagsmunasamtökum hreyfihamlaðra? 

Formaðurinn sagði einnig að borgarlína myndi gagnast fátæku fólki því ódýrara er að ferðast með borgarlínu en að reka bíl. Eitthvað kann að vera rétt í þessu en samt er málið flóknara en þetta. Foreldrar sem þurfa að fara með börn í leik- og grunnskóla og tómstundir í borgarlínu og koma sér svo sjálfir í vinnu getur orðið snúið. Tími er líka peningar. 

En alla vega, það er ekki hikað við að draga inn í umræðuna viðkvæmustu hópa samfélagsins til að sýna fram á réttmæti aðgerðanna. Borgarlínuverkefnið er komið af stað, búið er að setja í það mikið fjármagn nú þegar. Þetta risaverkefni á eftir að koma verulega við pyngju skattgreiðenda. Það eru nokkur ár í að 1. áfanga verði lokið og kannski 10-15 ár þar til borgarlína hefur tekið á sig einhvers konar lokamynd.

Það er því alveg óþarfi að ráðast svo harkalega að útrýmingu bíla núna. Mikið nær væri að styðja við aðgerðir sem flýta myndu orkuskiptum bíla enda aðeins 10 ár þangað til bannað verður að flytja inn bensín og dísil bíla. Það þarf að setja kraft í orkuskiptin og það er hlutverk skipulagsyfirvalda að koma með hvatana. Setja mætti aftur inn á lista vistvænna bíla tvinnbíla sem dæmi. Svo er það allt metanið, græna afurðin okkar sem er sóað því SORPU hefur ekki tekist að markaðssetja það. Borgaryfirvöld gætu ákveðið að allir strætisvagnar skuli vera metanvagnar. Síðast en ekki síst geta borgaryfirvöld styrkt enn frekar þá sem vilja setja upp hleðslustöðvar.

  


Mótsagnir meirihlutans

Við þurfum líka að flýta orkuskiptum. Eftir 10 ár verður bannað að flytja inn bensín og dísil bíla. Af hverju leggur borgarmeirihlutinn ekki áherslu á að hvetja til orkuskipta frekar en að hamast við að útrýma einkabílnum?
Í grein eftir Sigurborgu Ósk, formann skipulags- og samgönguráðs í Morgunblaðinu í dag talar hún um útblástursvanda. Í nýjum reglum sem tóku gildi 1.1. 2020 um hverjir eiga rétt á visthæfum skífum eru hvorki metanbílar né tvinnbílar á listanum. Það eru þessar mótsagnir hjá meirihlutanum sem fara hvað mest fyrir brjóstið á mér sem borgarfulltrúa og manneskju.

Borgarbúar eiga fleiri málsvara nú

Það gengur ekki allt illa í borgarstjórn eins og fram kemur í pistli Björn Jóns Bragasonar og fjallað er um á dv.is. Flokkur fólksins samþykkir og styður mál meirihlutans sem falla innan stefnu flokksins og lúta að því að auka og bæta þjónustu við fólkið. Sjálfstæðismenn voru í fyrra, í borgarstjórn með áskorun til Alþingis um endurskoðun fjölda borgarfulltrúa og þá lagði ég fram þessa bókun:

Fjölgun borgarfulltrúa var tímabær og af hinu góða. Ótalmargt hefur breyst til hins betra. Minnihlutinn er fjölbreyttari og fleiri sjónarmið komast að. Eldra fyrirkomulagið var gallað og kostnaðarsamt. Sem dæmi, fólk sem var jafnvel lítt tengt pólitíkinni tók sæti í hinum ýmsu nefndum því borgarfulltrúar gátu ekki annað þeirri vinnu. Núna sjá kjörnir fulltrúar um mestu vinnuna. Það er lýðræðislegra en vissulega óhemju álag fyrir litla flokka. Kosturinn við fjölgunina er að nú eru fleiri mál, fyrirspurnir, tillögur, dýpri og lengri umræða sem er allt af hinu góða. Öflugur minnihluti getur stuðlað að bættum rekstri í borginni, aukins aðhalds og gegnsæi. Borgarbúar eiga fleiri málsvara nú. Fleiri eyru hlusta og meðtaka skilaboð frá borgarbúum. Ef borgarfulltrúar eru fáir falla mörg greidd atkvæði dauð sem kemur verst niður á litlum flokkum. Stórir flokkar nýta atkvæði sín best við þessar aðstæður og því kom þessi tillaga Sjálfstæðismanna ekki á óvart.

Má nefna að sá flokkur hélt oft meirihluta í Reykjavík fyrr á árum með minnihluta atkvæða. Það eru minni líkur á slíku þegar borgarfulltrúar eru 23 en ekki 15. Álit Alþingis er að borgarfulltrúar í Reykjavík eigi að vera 23-31. Lægsti mögulegi borgarfulltrúafjöldi er í Reykjavík eins og er.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband