Bloggfærslur mánaðarins, október 2021
Bara eitthvað mjálm og suð sagði formaður Viðreisnar
28.10.2021 | 17:24
Í borgarráði var lögð fram húsnæðisáætlun 2022 og 10 ára úthlutunaráætlun til afgreiðslu. Fulltrúi Flokks fólksins gerði bókun.
Segir í gögnum að stefnt er að byggingu 1000 íbúða í Reykjavík árlega og af þeim eru 250 íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Þetta er gott eins langt og það nær en er bara ekki nóg. Það á eftir að taka langan tíma að vinna upp þau ár sem of lítið var byggt. Úthluta þarf mörgum lóðum fyrir ólíkar tegundir af húsnæði. Sárlega vantar sérbýli og raðhús ef halda á eðlilegum húsnæðismarkaði. Þétting byggðar hefur leitt til þess að það sem byggt er er einsleitt, mest litlar og meðalstórar blokkaríbúðir, á rándýru þéttingarsvæðum.
Í ljósi þess að eftirspurn eftir rað- og sérbýlislóðum er nú í sögulegu hámarki þarf að auka sveigjanleika byggðastefnunnar. Um 30% fasteignakaupenda eru fyrstu kaupendur. Í sölu eru eitthvað um 200 eignir en þær þyrftu að vera allt að 900 ef hægt ætti að vera að viðhalda eðlilegu flæði. Mæta þarf ólíkum þörfum í þessum málum sem öðrum. Erfiðleikar með að fá byggingarlóð í Reykjavík hefur verið mein í borgarkerfinu. Þess utan er mikill seinagangur í afgreiðsluferlinu öllu og líður allt of langur tími frá umsókn þar til eign kemst í notkun. Þetta eru staðreyndir en ekki eitthvað mjálm eða suð eins og formaður Viðreisnar orðaði það viðtali á Útvarpi Sögu þegar spurð um hvað henni fyndist um málflutning minnihlutans í borginni um skort á húsnæði í Reykjavík vegna.
12 bílastæði
26.10.2021 | 13:38
Bætum rétt barna sem eiga tvö heimili
16.10.2021 | 10:52
Á fundi borgarráðs lagði ég til fyrir hönd Flokks fólksins að reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar yrðu rýmkaðar. Taka ætti mið af bæði lögheimili og búsetuheimili barns og að börn, sem sækja skóla í öðru skólahverfi en lögheimili þeirra segir til um, ættu einnig rétt á strætókorti.
Einnig lagði ég til aukin réttindi fyrir þau börn, sem sækja skóla í hverfi utan lögheimilis þeirra af annars konar ástæðum. Hér er m.a. átt við börn sem hafa þurft að skipta um skóla vegna eineltis og sækja þá skóla fjarri heimili sínu af þeim sökum eða börn sem hafa flust í nýtt hverfi en vilja halda tengslum við vini í gamla skólanum þar til haldið er í menntaskóla. Fráleitt er að neita þeim um strætókort ef fjarlægðarviðmiði milli heimili og skóla er náð sem er 1,5 km göngufjarlægð frá hverfisskóla sínum fyrir nemendur í 1.-5. bekk og 2 km fyrir nemendur í 6.-10. bekk.
Tökum mið af breyttum lífsháttum
Reglur um strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar kveða á um að miða skuli við lögheimili barns og fjarlægð þess frá skóla þegar ákveðið er hvort barnið eigi rétt á strætókorti eða skólaakstri. Nú er það svo að sum börn eiga tvö heimili þótt einungis annað þeirra sé lögheimili . Sífellt verður algengara að barn dveljist viku í senn hjá hvoru foreldri og ekki búa allir foreldrar í sama hverfi. Flokkur fólksins leggur til að reglum sé breytt þannig að tekið sé tillit til fjarlægðar skóla frá báðum heimilum barns til að auðvelda foreldrum að ala börn sín upp í sameiningu. Þessi tillaga er í samræmi við nýsamþykktar breytingar á barnalögum sem taka gildi næstu áramót og opna á það að foreldrar skrái bæði lögheimili og búsetuheimili barns, og taki sameiginlegar ákvarðanir um hagsmuni barnsins í slíkum tilvikum.
Réttlátari tilhögun ætti ekki að auka kostnað borgarinnar nema lítillega en getur skipt hlutaðeigandi börn og foreldra miklu.
Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Greinin er birt á visi.is 16. október 2021
Hafa börnin með í að skipuleggja hverfið
14.10.2021 | 12:56
Brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð segir seðlabankastjóri
7.10.2021 | 08:57
Fulltrúi Flokks fólksins rakti helstu vanefndir þessa meirihluta á fundi borgarstjórnar 5. október sl. með því að fara í gegnum meirihlutasáttmála þeirra.
Íbúðaskortur og biðlistar er kjarninn í vanefndum þessa meirihluta sem er þvert á það sem stendur í meirihlutasáttmálanum þar sem segir að byggja eigi sem aldrei fyrr. Samt hafa aldrei verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Ástæðan er skortur á lóðaframboði. Lóðaskorturinn kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu á þéttingarreitum. Margir sérfræðingar hafa stigið fram og bent á þetta, t.d. Samtök iðnaðarins sem og seðlabankastjóri sem nefndi að brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð. Nú eru eingöngu um 3400 íbúðir í byggingu en byggja þarf árlega 3000-3500 nýjar íbúðir ef vel ætti að vera.
Aðrar vanefndir
Langur biðlisti er eftir félagslegri leiguíbúð og sértæku húsnæði fyrir fatlaða.
Fátækt er vandamál í Reykjavík. Lágtekjufólk á ekki mikið eftir milli handanna þegar búið er að borga leiguna. Hópurinn sem leitar til hjálparstofnana hefur stækkað. Á þremur árum hefur biðlisti eftir fagfólki í skólaþjónustu þrefaldast og nú bíða 1448 börn á listanum. Á sama tíma sýna kannanir að andleg líðan barna fer versnandi.
Ekki voru efnd loforð um sveigjanleg starfslok eldra fólks. Atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu eru sárafá. Grænum áherslum hefur verið hampað á meðan metan er brennt á báli í stórum stíl. Ævintýralegar upphæðir hafa streymt í alls konar stafræn tilraunaverkefni til að borgin geti verið stærst og mest á heimsmælikvarða. Fátt er um afurðir, hvar er t.d. Hlaðan og Gagnsjáin, nýtt skjala- og upplýsingakerfi sem átti að koma í notkun fyrir 2 árum.
Ekki skal undra ef einhverjir eru farnir að telja niður þetta kjörtímabil í þeirri von að nýr meirihluti breyti forgangsröðun verkefna í þágu þjónustu við fólk, börn, öryrkja og eldri borgara.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
www.kolbrunbaldurs.is
Birt í Fréttablaðinu 7. október 2021