Bloggfærslur mánaðarins, september 2023
Fyrirspurn um aðkeypta ráðgjafa-, greininga og verkfræðiþjónustu
30.9.2023 | 11:03
Reykjavíkurborg kaupir óhemju mikla þjónustu af ráðgjafa-, greininga- og verkfræðifyrirtækjum.
Einnig er heilmikil aðkeypt þjónusta frá fyrirtækjum sem bjóða þjónustu á sviði stefnumótunar og fjármögnunar.
Til að átta mig á hversu umfangsmikil þessi kaup eru lagði ég fram fyrirspurn í borgarráði í vikunni
Óskað er eftir upplýsingum um aðkeypta ráðgjöf Reykjavíkurborgar á tímabilinu 2019-2023. Upplýsingarnar óskast sundurliðaðar eftir sviðum/skrifstofum þar sem fram kemur hvaða ráðgjöf er keypt, af hverjum og fjárhæð kaupanna.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
Ferðavenjukönnun, svipaðar niðurstöður og í fyrra og árið þar áður
21.9.2023 | 10:39
Kynntar voru niðurstöður Ferðavenjukönnunar í vikunni. Niðurstöður eru svipaðar og á síðasta ári og árinu þar áður.
Hér er bókun Flokks fólksins frá umhverfis- og skipulagsráði í gær og fyrirspurnir sem ég lagði fyrir í borgarráði í morgun
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt ferðakönnun haustið 2022 kemur fram að einkabíllinn er yfirgnæfandi mest notaði samgöngumátinn. Það á eftir að vinna mikla vinnu til að aðrir samgöngumátar geti tekið við af einkabílnum. Sem betur fer má ætla að rafbílum sé að fjölga gríðarlega. Til stendur að hækka álagningu á rafbíla en ekkert liggur fyrir um ívilnanir. Engu að síður eru orkuskiptin í fullum gangi og vonandi verður ekki bakslag í þeim efnum. Fjölgun bíla kemur ekki á óvart í ljósi þess að ekki er um aðra alvöru valkosti að ræða. Hjólandi vegfarendum hefur vissulega fjölgað en eru engu að síður aðeins 5%. Ekki allir treysta sér til að hjóla um hávetur í vondu veðri. Ferðum almennt séð hefur fækkað sem rekja má e.t.v. til þess að í Covid kenndi fólki á fjarfundakerfi í stórum stíl og hefur fólk nýtt það síðan. Strætó bs. hefur dregið saman þjónustu sína vegna fjárhagserfiðleika og aðeins 5% notar strætó sem eru einu almenningssamgöngur borgarinnar. Borgarlína verður ekki raunveruleiki í Reykjavík á komandi árum eftir því sem heyrst hefur í máli forsætisráðherra. Það hlýtur þess vegna að þurfa að gera eitthvað róttækt til að hressa upp á einu almenningssamgöngurnar sem til eru hér.
Fyrirspurnir fyrir borgarráð 21.9.
Nýlega voru kynntar niðurstöður Ferðavenjukönnunar. Þar kemur fram að hlutfall þeirra sem nota strætó stendur í stað, eingöngu 5% íbúa nota strætó.
Í könnuninni var spurt um ástæður og eru þær reifaðar í spurningu 25 í könnuninni sem sjá má á vef Reykjavíkurborgar undir fundi umhverfis- og skipulagsráði frá 20.9. 2023.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort framkvæmdastjóri og stjórn Strætó ásamt eigendum byggðarsamlagsins hyggist taka þessar niðurstöður alvarlega og gera þær breytingar sem kallað er eftir til að freista þess að fjölga í hópi viðskiptavina Strætó? Helstu ástæður sem nefndar eru sem ástæða fyrir að fólk vill ekki nota strætó og velur frekar annan ferðamáta eru m.a.:
Of lítil tíðni; Hátt fargjald; Löng leið að stoppistöð: Löng bið eftir strætó; Vandamál með Klappið; Langur ferðatími; Neikvætt viðmót
Mun fleira er nefnt