Bloggfærslur mánaðarins, mars 2024

Startup-kúltúr“ í stafrænni vegferð Reykjavíkurborgar

Nú þegar Reykjavíkurborg er búin að eyða yfir 20 milljörðum í stafræna umbreytingu á vegum ÞON (þjónustu- og nýsköpunarsviðs)hefði þurft að staldra við og skoða hvað borgarbúar hafa raunverulega verið að fá fyrir peninginn í tilbúnum stafrænum lausnum.

Vissulega hafa einhverjar stafrænar lausnir litið dagsins ljós síðustu ár en tilbúnar afurðir eru hins vegar ekki í neinu samhengi við það ævintýralega fjármagn sem nú þegar er búið að eyða. Allt of mörg verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg hafa dagað uppi í tilraunasmiðjum ÞON eða hafa einfaldlega ekki enn litið dagsins ljós.

Núverandi meirihluti heldur áfram að vera sama gagnrýnislausa málpípa þessa sviðs þrátt fyrir að það blasi við að farið er með fjármagn af mikilli lausung og ábyrgðarleysi. Píratar hafa sérstaklega mært þessa vegferð í blindri meðvirkni. Tugum milljóna hefur verið eytt í dýran húsbúnað, dýran tækjakost, skemmtanaviðburði með tilheyrandi veitingum og kaupum á erlendri ráðgjöf sem óljóst er hvernig hefur skilað sér í verkefnin.

Dómgreindarleysi og skortur á eftirfylgni

Á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 5. mars ætlar meirihlutinn að ræða um meintan ávinning stafrænnar umbreytingar fyrir borgarbúa. Í gegnum tíðina hefur borgarfulltrúum verið boðið upp á uppskrúfaðar kynningar um þau verkefni sem sögð eru vera í vinnslu hverju sinni og ósjaldan er það tekið fram að árangur sviðsins sé á heimsmælikvarða – án þess að einhver rök séu færð fyrir þeim fullyrðingum.

Það er ömurlegt að horfa upp á alla þá sóun og bruðl sem átt hefur sér stað á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Flokkur fólksins hefur reynt að halda uppi eftirliti og aðhaldi og einnig bent Innri endurskoðun á mikilvægi þess að gera úttekt á sviðinu því hér er um gríðarlegt fjármagn að ræða. Starfsmannavelta sviðsins er kapítuli út af fyrir sig. Það liggur við að það sé daglegt brauð að fólk sé ráðið og rekið – nú síðast einn af skrifstofustjórum sviðsins sem rekinn var á meðan viðkomandi var í veikindaleyfi.

Uppgötvunar,- tilrauna,- og þróunarfasi

Það sem sviðið virðist hafa lagt mesta áherslu á er að vilja finna upp hjólið. Margt af því sem er í tilraunafasa eru lausnir sem aðrir eru löngu komnir með. Áhersla sviðsins hefur verið á hin ýmsu mælaborð og viðburðadagatöl eins og það sé aðalatriðið. Á sama tíma eru þær mikilvægu stafrænu lausnir sem fólk er virkilega að bíða eftir sagðar sífellt vera „leiðinni“.

Þrjú uppáhaldsorð ÞON er“uppgötvunarfasi, tilraunafasi og þróunarfasi“. Samstarf við ríki og önnur sveitarfélög hófst seint og er lítið og yfirborðskennt eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst þrátt fyrir augljósan ávinning sem slíkt samstarf felur í sér. Samlegðaráhrif og samþætt virkni og útlit stafrænna lausna er öllum í hag – ekki síst almenningi sem þarf að nýta sér þjónustuna.

Enn í dag vantar mikið af grunnlausnum t.d. á skóla- og frístundasviði en þar hefði stafræn vegferð átt að byrja og í samvinnu við önnur sveitarfélög. Í gögnum frá skóla- og frístundasviði segir m.a. „að ekki verði hjá því litið að þjónustu- og nýsköpunarsvið beri ábyrgð á upplýsingatækni og gagnastjórnun Reykjavíkurborgar og þjónustu á þeim sviðum“.

„Startup kúltúr“

Fulltrúar Flokks fólksins töldu að loksins hefði einhver vaknað og gert sér grein fyrir þessu gengdarlausa bruðli þegar fréttir bárust að leggja ætti niður skrifstofu sviðsstjóra og færa verkefnin annað. En það virðist því miður ekki hafa verið raunin. Stafrænni vegferð borgarinnar hefur verið líkt við fyrirbærið „Startup cult“ sem skilgreinist m.a. þannig að fólk kaupi sig inn í umhverfið og ásýndina hvort sem það er verið að skila vöru eða ekki. Dæmigerður forstjóri slíks fyrirtækis kjaftar sig inn á fólk og tekst að selja fólki einhverja draumsýn. Þjónustu- og nýsköpunarsvið minnir sannarlega á hugmyndafræði þeirra tegunda fyrirtækja sem leggja upp með áætlanir sem alls óvíst er að muni verða að veruleika og þar sem farið er með fjármagn eins og um áhættufjármagn sé að ræða.

Fulltrúar Flokks fólksins eru ekki þeir einu sem gagnrýnt hafa framkvæmd stafrænnar umbreytingar borgarinnar, heldur hafa Samtök iðnaðarins og margir fleiri s.s.einkafyrirtæki og einstaklingar gert það einnig. Flokkur fólksins fær daglegar ábendingar frá þeim sem þekkja til þessara mála hjá borginni og hafa gjörsamlega blöskrað bruðlið. Opinberir fjármunir eins og skattur og útsvar á aldrei að vera meðhöndlað af áhættusæknum stjórnendum eins og hvert annað áhættufjármagn sem ekkert er víst að muni skila sér í verðmætum.

Höfundar: Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og Einar Sveinbjörn Guðmundsson, kerfisfræðingur sem skipar 3 sæti á lista Flokks fólksins í Reykjavík

Birt í Morgunblaðinu 5. mars 2024


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband