Bloggfærslur mánaðarins, júní 2024

Framtíð skóla í Laugardal, umræða og tillaga Flokks fólksins í borgarstjórn 11. júní 2024

Borgarstjórn Reykjavíkur
11. júní 2024
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að fylgja sviðsmynd 1 við uppbyggingu skólastarfs í Laugardal
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fylgja sviðsmynd 1 um framtíðaruppbyggingu skólastarfs í Laugardal sem samþykkt var árið 2022.


Greinargerð

Reykjavíkurborg hyggst ganga á bak eigin loforða um að framtíðaruppbygging skólastarfs í Laugardal verði á grundvelli skólanna sem fyrir eru. Í október 2022 samþykkti skóla- og frístundaráð Reykjavíkur að ganga í takt með íbúum hverfisins eftir umtalsvert samráð við hagaðila, stjórnendur, starfsmenn, foreldra og börn að fylgja svokallaðri sviðsmynd 1 úr skýrslu starfshóps um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnesi og Langholtshverfi. Sú sviðsmynd felur í sér að skólarnir þrír haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta fyrirsjáanlegri fjölgun nemenda í skólahverfunum. Tillagan var samþykkt í borgarráði.
Sviðsmynd 1 naut víðtæks stuðnings meðal foreldra, sem höfðu lengi gagnrýnt ákvarðanafælni og ráðaleysi borgaryfirvalda varðandi skólamál í Laugardal og var þessari niðurstöðu því fagnað af íbúum. Í tæp tvö ár hafa borgaryfirvöld hins vegar dregið íbúana á asnaeyrum sem biðu eftir að heyra meira um framgang mála. Ítrekuðum óskum um upplýsingar varðandi stöðu og þróun mála var mætt með ærandi þögn.
Nú kemur í ljós að meirihlutinn hyggst kúvenda málinu og hefur lagt fram tillögu um að fallið verði frá fyrri ákvörðun um sviðsmynd 1 og þess í stað verði ráðist í sviðsmynd 4. Samkvæmt henni verður ekki byggt við skólana eins og áður hafði verið ákveðið og loforð gefin um heldur á að byggja nýjan unglingaskóla frá grunni fyrir Laugarneshverfi.
Kúvending meirihlutans hefur vakið sterk viðbrögð meðal foreldra, kennara og skólastjóra. Fjölmennir fundir hafa verið haldnir og vinnubrögðum borgaryfirvalda í málinu var harðlega mótmælt, sem og tillögu um allt aðra sviðsmynd en samið var um á sínum tíma.


Í sviðsmynd 4 er stefnan sú að Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli verði fyrir yngri deildir grunnskóla, sem aðeins Laugarnesskóli er nú og í Langholtsskóla verði aðeins yngri deildirnar en allir tíu bekkirnir eru þar núna. Þá verða þetta tveir yngri barna skólar sem að þýðir að vinir eru ekki endilega að fara í sama skóla. Íbúar telja að með þessu sé yngri deildum skipt upp á milli tveggja skóla og hverfið slitið í tvennt. Foreldrar telja að það sé slæm hugmynd að skilja á milli Laugarness- og Laugalækjarskóla og setja alla unglinga hverfisins í einn skóla. Um verði að ræða tvö skólahverfi.


Vinnubrögð borgaryfirvalda í skólamálum í Laugardal eru til skammar. Flokkur fólksins telur að meirihlutinn geti ekki leyft sér að koma svona fram við borgarbúa. Látið er sem borgarar hafi rödd en þegar upp er staðið er það einungis til málamynda. Foreldrafélögin hafa verið svikin og ljóst er að þau bera ekki traust til borgaryfirvalda eftir síðustu atburði. Efna þarf fyrri loforð um að byggja við skólana í Laugardal. Það er skylda meirihlutans að tryggja farsælt skólastarf og gera það í sátt og samvinnu við borgarbúa. Þess vegna leggur Flokkur fólksins til að sviðsmynd 1, sú sviðsmynd sem valin var og samþykkt verði fylgt í hvívetna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband