Hef ekki lent í öðru eins við að koma máli á dagskrá

Loksins fékk ég að flytja Loftkastalamálið í Borgarstjórn. Ég hef sjaldan lent í öðru eins við að koma einu máli á dagskrá í borgarstjórn. Fæstir myndu trúa því þótt ég segði frá því.

Hér er bókunin í málinu:
Á eigendum Loftkastalans hefur Reykjavíkurborg brotið sem fólst í að borgin útfærði ekki í deiliskipulagi það sem þó ber að gera skv. skipulagsreglugerð, afstaða gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa. Þetta er ákveðið og gert án vitundar lóðarhafa. Eigendur kærðu í þrígang til kærunefndar Umhverfis- og auðlindamála en málinu jafnoft vísað frá með þeim rökum að borginni væri í lófa lagið að leiðrétta mistökin og einnig að málið væri einkaréttarlegs eðlis. Viðurkennt er að borgin gerði mistök, leiðrétti þau ekki nægjanlega til að eignin verði nothæf.
Borgin lagði fram um lausn sem var lækkun á götum sem var þó látin halla að húsum Loftkastalans. Gatan er enn hærri en gólf núverandi húsa. Eigendur hafa ekki getað nýtt byggingarréttinn og er Reykjavíkurborg ábyrg fyrir skerðingu á rekstri 2ja fyrirtækja í 5 ár. Á meðan lóðin er ónothæf hafa eigendur haldið eftir greiðslu þrjú og fjögur sem eru vegna byggingarréttar og gatnagerðargjalda og háðar því að unnt sé að byggja á lóðinni. Borgin hefur nú lýst yfir að vilja rifta samningnum vegna vanefndanna jafnvel þótt Reykjavíkurborg hafi ekki orðið fyrir tjóni þar sem þessar greiðslur vegna byggingarréttargjalda og gatnagerðargjalda eru verðtryggðar samkvæmt kaupsamningnum.

Máttur samtryggingarinnar

Flokkur fólksins stendur fyrir margt en megináhersla er á  að ekkert þjóðfélag getur verið án heimila. Heimilið er í raun grunnforsenda öryggis. Við búum á Íslandi í samfélagi sem þýðir að við sem þjóð erum í raun ein stór fjölskylda. Ef einhver þegn glímir við vanda sem hann ræður af einhverjum orsökum ekki við að leysa úr, komum við hin sem erum á betri stað í lífinu hvort heldur fjárhagslega eða persónulega, til hjálpar.  Þessi hjálp kemur að sama skapi til okkar sé fótum kippt undan okkur og grunnstoðum tilveru okkar. Svoleiðis virkar samtryggingin. Íslenska þjóðin hefur margoft þegar samlandar okkar verða fyrir áfalli opinberað þjóðarsál sína sem er engri lík.

Flokkur fólksins hefur frá upphafi sett hagsmuni eldra fólks í forgang og hefur einn flokka á Alþingi átt frumkvæði að gagngerum umbótum á lífsskilyrðum þeirra og aðstæðum. Íslendingar lifa nú lengur af ástæðum sem er okkur flestum kunnar. Meðal baráttumála fyrir þennan hóp er að tryggja aukið framboð húsnæðis fyrir eldra fólk og tryggja með lögum að öryrkjar og eldri borgarar fái 450.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur skatta- og skerðingarlaust. Listinn er lengri og má sjá hann í stefnuskrá Flokks fólksins.

 

Ævikvöldið

Eldra fólk á Íslandi hefur það alla jafna gott. Það nýtur ævikvöldsins og nýtur afraksturs vinnu sinnar og framlegðar til samfélagsins. Grunnforsenda þess að njóta ævikvöldsins er fyrst og síðast að búa við ágæta heilsu við öruggar aðstæður. Ellikerling lætur eðli málsins samkvæmt á sér kræla þegar komið er á þetta ævistig. Flokkurinn hefur barist fyrir frá upphafi hans að stofnað verði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Meginhlutverk hagsmunafulltrúa er að skoða málefni eldri borgara og halda utan um hagsmuni þeirra, fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hann myndi kortleggja stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgjast með framkvæmd heimaþjónustu.

 

Lengi legið á Landspítalanum

Þeir eru ófáir sem hafa þurft að dvelja á Landspítala vikum eða mánuðum saman löngu eftir að meðferð er lokið vegna þess að ekkert annað úrræði er til. Skortur er á hjúkrunarrýmum og sérstaklega er skortur á plássum á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk sem þarf fulla þjónustu og mikla umönnun. Einnig er löng bið eftir hvíldarinnlögn. Hluti þeirra sem „hafa dagað“ uppi á sjúkrahúsi kemst ekki heim vegna manneklu í heimaþjónustu. Mannekla er rótgróið mein í umönnunarstörfum.


Flestir vilja búa sem lengst heima hjá sér og ganga hugmyndir nútímans út á að veita þeim sem vilja og geta búið heima þann möguleika. Ýmist vill fólk halda áfram að búa á sínu gamla heimili eða flytjast í sjálfstæða búsetu sem er hannað með þjónustuþarfir þessa aldurshóps að leiðarljósi. Flokkur Fólksins vill róttækar aðgerðir í þessum málum strax. Komist Flokkur fólksins til áhrifa á þingi mun hann ráðast í að gera stórátak í fjölgun hjúkrunarrýma. Efri árin eiga að vera gæðaár, ár sem ekki eiga að einkennast eða litast af kvíða og óvissu.

 

Andlega hliðin

Það eru ekki einvörðungu aðstæður fólks sem komin eru á þetta aldursskeið sem eru mismunandi eins og gengur heldur einnig andlega hliðin. Sem sálfræðingur með víðtæka reynslu hefur mér verið sérstaklega umhugað um að þessi hópur gleymist ekki, einangrist og líði fyrir einmanaleika. Sumir hafa misst maka sína og ekki eru allir sem eiga fjölskyldu sem getur hlaupið undir bagga eða stytt stundir. Þess vegna hef ég lengi talað fyrir mikilvægi þess að þeir sem búa heima eða á hjúkrunarheimili fái sálfélagslegan stuðning til að draga úr líkum á einmanaleika og samhliða virkja fjölþættar heilsueflandi aðgerðir. Þjónustu sem þessa þarf að formgera og virkja með skilvirkum hætti og vera aðgengileg án tafa.

 

Kæri kjósandi

Við frambjóðendur  í Flokki fólksins erum ótrúlegt baráttufólk þótt ég segi sjálf frá. Í flokknum er samsafn einstaklinga sem vílar ekkert fyrir sér að berjast með kjafti og klóm þegar kemur að sanngirnismálum, auknu réttlæti og jöfnuði. Við viljum einnig sjá meiri mennsku í kerfinu, betri hlustun og að tekið sé meira tillit til einstaklingsþarfa. Við viljum ekki sjá fólki varpað fyrir borð án björgunarhrings. Nú stendur Ísland á krossgötum. Breytinga er þörf, skipta þarf um fólk í brúnni. Flokkur fólksins vill endurvekja drauminn um öruggt heimili fyrir alla til að geta lifað öruggu lífi. Heimili er aðalgrunnstoðin og án heimilis þrífst enginn sama á hvaða aldursbili hann er. 

Flokkur fólksins er kominn með reynslu og hefur á að skipa valið fólk í hverju sæti, hokið af lífsins reynslu með raunverulegar lausnir í farteskinu. Við erum málsvarar minnihlutahópa og þeirra sem minna mega sín og við stöndum ótrauð fast í þeirri trú að ríkið beri og eigi að axla ábyrgð á framtíð og öryggi.

Setjum x-ið við bókstafinn F.

Fólkið fyrst – og svo allt hitt

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi skipar 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir Flokks fólksins í komandi Alþingiskosningum

Birt á visi.is 18. nóvember 2024


Reynsla sem sálfræðingur rak mig í pólitík

Á Íslandi stunda um tugir þúsunda nemenda nám á framhaldsskólastigi. Sumir í þessum hópi glíma við andlegar áskoranir í sínu lífi á borð við streitu og depurð. Að mati Flokks fólksins hefur þörfin aldrei verið meiri en núna að grípa inn í og veita ráðgjöf, stuðning eða meðferð eftir því sem við á hverju sinni. Ef andleg vanlíðan er ekki meðhöndluð hefur það neikvæð áhrif á námsgengi nemendanna og getur aukið líkur á brotthvarfi eða seinkað námslokum verulega. Það hefur margsýnt sig að því fyrr sem hægt er að fá aðstoð er dregið úr líkum þess að vandinn verði flóknari síðar á lífsleiðinni og hafi í för með sér aukinn samfélagslegan kostnað.

Þess vegna vill Flokkur fólksins að sálfræðingar verði í öllum framhaldsskólum landsins. Sálfræðingar eru í einhverjum framhaldsskólum en Flokkur fólksins vill, komist hann til áhrifa á Alþingi, berjast fyrir að fá sálfræðinga í alla framhaldsskóla landsins. Í framhaldsskólunum eru krakkarnir undir lögaldri fyrstu tvö árin.

Mikill áhugi er meðal framhaldsskólanema að boðið sé upp á ókeypis sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna. Langir biðlistar eru eftir sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Nemendur kjósa persónuleg samtöl við sálfræðinga. Þetta hefur komið fram m.a. í könnunum. Í framhaldsskólum eru námsráðgjafar og þeir vinna sannarlega ómetanlegt starf. En það er ekki nóg nú þegar hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að líðan ungmenna fer versnandi. Í mörgum framhaldsskólum eru sérdeildir, starfsbrautir og annað námsframboð sem er sérstaklega ætlað fötluðum nemendum. Þörfin er því mikil.

Flokkur fólksins vill að aðgengi að sálfræðingum fyrir börn og ungt fólk verði stóraukið og gert verulega gott. Fyrir því munum við berjast komumst við til áhrifa á Alþingi. Samhliða þarf að útrýma biðlistum sem eru alvarlegt mein í íslensku samfélagi. Með því að auðvelda aðgengi að viðeigandi þjónustu er líklegt að nemendur leiti sér aðstoðar og nái fyrr betri tökum á lífi sínu.

Kæri kjósandi. Sem sálfræðingur til rúmlega þrjátíu ára þekki ég þessi mál vel, þörfina og er þetta m.a. ástæðan fyrir að ég taldi mig knúna til að fara í pólitík. Nú er ég auk þess komin með reynslu sem borgarfulltrúi þar sem ég hef barist í á sjöunda ár sem málsvari barna og ungs fólks auk þeirra sem minna mega sín. Ríkisvaldið ber ásamt sveitarfélögum ábyrg á því að tryggja ungu fólki þjónustu. Flokkur fólksins hefur sterka rödd fyrir fólkið á Alþingi og hefur sýnt réttlæti í verki. Við erum málsvarar barna og ungmenna og berjumst fyrir réttlæti. Flokkur fólksins hefur reynslu og raunverulegar lausnir sem eru byggðar á reynslu.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!


Endurskoða hugmyndir um bílastæðahús- fjölnotahús, skoða þarf þessa hugmynd nánar

Er með þessa tillögu í borgarráði að fallið verði frá hugmyndum um bílastæðahús eða fjölnotahús og þessar hugmyndir skoðaðar betur, kannað með samráð sem dæmi.

Fulltrúi Flokks fólksins vill að borgaryfirvöld og skipulagsyfirvöld endurskoði  hugmyndina um bílastæðahús í borgarlandinu eða fjölnotahús eins og þau eru stundum kölluð. Það kann vel að vera að hús sem þetta virki vel erlendis og hafi eitthvað notagildi en það eru miklar efasemdir um að slík bygging falli i í kramið hér. Þetta kom skýrt fram í máli íbúa í Grafarvogi á íbúafundi vegna byggingaráforma í Grafarvogi á fundi í Rimaskóla 11. nóvember sl. Bílastæðahús er ein af hugmyndum í byggingaráformum í Grafarvogi og ein 6 slík eiga að rísa í Keldnalandinu. Það má telja vel líklegt að hér sé verið að fara offari í hugmynd sem þeim sem eiga að nýta húsið telja ekki góða. Um er að ræða allt að 5 hæða hús og það segir sig sjálft að erfitt gæti verið fyrir fjölskyldu með lítil börn og matvörur að fara frá bílahúsinu og ganga ef til vill nokkurn spöl heim til sín. Í þessum húsum er ekki gert ráð fyrir lyftum eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur

 


Ef byggja á í grónum hverfum gengur ekki að vera með einhvern göslagang

Einn stærsti vandinn í Reykjavík er skortur á húsnæði. Lítið framboð er af lóðum sem aðeins fást í gegnum útboð og verktakar halda að sér höndum. Hagkvæmt húsnæði af öllum gerðum, sárvantar í Reykjavík.
Of mikill áhersla hefur verið á að þétta byggðina og þá helst í kringum borgarlínuverkefnið. Að þétta byggð er dýrt og íbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar.
Auka þarf framboð á lóðum. Byggja þarf í hverfum þar sem er rými og innviðir sem þola fjölgun íbúa. 

Til stendur að rúmlega tvöfalda íbúafjölda Grafarvogs. Þetta þarf að gera í samráði við íbúa sem fyrir eru en ekki með einhverju göslagangi. Hægt er að byggja mikið meira í Úlfarsárdal og fleiri stöðum þar sem er gott rými og fólk vill byggja á. Flokkur fólksins vill hefja skoðun á að brjóta nýtt land undir byggð. Öðruvísi verður húsnæðisskorturinn aldrei leystur.

Á meðan ástandið er slæmt þarf að gera eitthvað fyrir þá sem eru á leigumarkaði. Leiguþak er hugmynd sem Flokkur fólksins hefur nefnt. Lágtekjufólk, öryrkjar og einstæðir foreldrar eru að kikna undan hárri leigu.

Of mikið af kærum

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í vikunni voru teknar fyrir fjöldi stjórnsýslukæra á hendur borginni sem nú eru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Alls eru kærurnar 11 talsins og snúa þær allar að meðferð skipulagsyfirvalda í borginni á hinum ýmsu málum.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins furðar sig á fjöldanum og segir að oft hafi heyrst fullyrðingar um að ekki sé unnið að þessum málum hjá borginni af fullum heilindum.

https://www.dv.is/frettir/2024/11/1/fjoldi-stjornsyslukaera-hendur-reykjavikurborg-til-medferdar/

Í sumum málanna á fundinum tók umhverfis- og skipulagssvið eingöngu fyrir erindi úrskurðarnefndarinnar vegna viðkomandi í kæru en í öðrum var lögð fram greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs vegna málsins.

Kærurnar eru af ýmsu tagi. Þær varða umsögn skipulagsfulltrúa vegna niðurrifs á gömlum skjólvegg, synjun á byggingarleyfi fyrir fjóra gististaði, ákvörðun um að samþykkja nýtt hverfisskipulag fyrir Háteigshverfi, Hlíðahverfi og Öskjuhlíðarhverfi en alls hafa þrjár kærur verið lagðar fram vegna þess máls. Einnig hefur ákvörðun um að falla frá dagsektum vegna girðingar á lóðamörkum verið kærð. Byggingarleyfi vegna framkvæmda við sendiherrabústað Bandaríkjanna hefur verið kærð o breyting á deiliskipulagi nokkurra lóða hefur verið kærð af tveimur mismundandi aðilum. Loks hefur synjun á að samþykkja nýja íbúð í húsi verið kærð sem og synjun á byggingarleyfi vegna breytinga á fjöleignarhúsi.

Furða og pottur brotinn

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í umhverfis- og skipulagsráði furðar sig á þessum mikla fjölda kæra og segir bera á fullyrðingum um að eitthvað sé mikið að í meðferð mála sem tengjast þessu málaflokki hjá borginni. Í bókun hennar á þessum fundi ráðsins segir:

„Fulltrúi Flokks fólksins lýsir furðu sinni á þeim óvenju mikla fjölda kæra sem hér koma fram en þær eru nú 11 og hafa sjaldan verið svo margar. Ítrekað hafa komið upp mál þar sem skipulagsyfirvöld eru sökuð um að segja ekki satt – jafnvel „falsa gögn“ eða breyta þeim eftir því sem skjólstæðingar umhverfis- og skipulagssviðs hafa sagt á opinberum vettvangi. Allt of oft fást ekki svör, gögnum og upplýsingum er haldið leyndum og hefur verið fullyrt að ekki sé alltaf unnið  af heiðarleika og gagnsæi.

Þetta er miður og telur Flokkur fólksins að endurreisa þurfi embætti umboðsmanns borgarbúa eins og það var á árunum 2013-2020. Það voru mistök að leggja af embættið. Verkefni umboðsmannsins voru flutt yfir til innri endurskoðunar og búinn til eins konar „ráðgjafi íbúa“ hjá því embætti. Þetta fyrirkomulag hefur virkað illa og nú hefur fólk sem telur á sér brotið af skipulagsyfirvöldum ekki annað fært en að fara með málið fyrir dómstóla sem er bæði dýrt og tímafrekt.“

 


Upplýsingaóreiða bílastæðakjallara og húsa, einkarekin eða borgarrekin?

Tillaga lögð fram í umhverfis- og skipulagsráði

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að teknar verða saman upplýsingar um bílastæðahús og bílastæðakjallara í Reykjavík, hver þeirra eru rekin af borginni og hver eru einkarekin.

Einnig er lagt til að Bílastæðasjóður taki aftur upp að leggja sektarmiða undir rúðuþurrku í stað þess að senda rukkun beint í heimabanka, sem fer framhjá mörgum. Með þessu fyrirkomulagi eru miklar líkur á því að sektin hafi hækkað þegar fólk áttar sig á að hafa fengið sekt.

Greinargerð

Hér er um algeran frumskóg að ræða. Það koma skýrt í ljós á Menningardag en þá taldi fólk vera frítt í stæði í Reykjavík. Í ljós kom að þeir sem ólánuðust við að leggja í “einkastæði” eins og  Guðrúnartúni fengu háa reikninga eftir daginn. Reikningar koma þá samstundis einn á einkabanka viðkomandi. Þeir sem aka á P merktum bílum og leggja í P merkt stæði þurfa að greiða í þessi stæði (einkarekin) sem hlýtur að stríða gegn lögum.

Það vantar alla umgjörð um rekstur bílastæða og menn virðast fá að hafa sína hentisemi á sektargreiðslum. Borgin hætti að rukka P-korthafa, sem hafa rétt til þess að leggja án greiðslu í P-stæði og gjaldskyld almenn bílastæði skv. umferðarlögum og er staðfest af ráðherra (sjá: 2164/154 svar: gjaldheimta af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða | Þingtíðindi | Alþingi (alþingi.is)), að því tilskyldu að þeir láti vita af sér fyrirfram (sem er líka gagnrýnivert fyrirkomulag), en einkaaðilar neita að láta af rukkunum. Það vantar stórlega yfirsýn yfir hvaða stæði og hús eru rekin af borginni og hver af einkaaðilum og þá hverjum. Þess utan er álagning sennilega frjáls og er hægt að okra eins og enginn sé morgundagurinn


Íbúar hafa lengi verið að kalla eftir auknu umferðaröryggi við Sæbraut

Sumt verður bara að laga strax og það á við um umferðaröryggi á Sæbraut. Því miður virðist oft þurfa alvarlegan atburð til að eitthvað fari að hreyfast. Flokkur fólksins hefur ítrekað í mörgum bókunum og tillögum óskað eftir betrumbótum og að hraða máli vegna hættunnar þarna. Íbúar hafa lengi verið að kalla eftir úrbótum.
Síðasta bókun Flokks fólksins var í janúar á þessu ári til að að ítreka og aftur ítreka. Hér er bókun um málið lögð fram í janúar í umhverfis- og skipulagsráði

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á tímabundinni göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut við Vogabyggð:
Flokkur fólksins hefur margsinnis talað um og bókað um hversu hættulegt þetta svæði er gangandi vegfarendum og fagnar þess vegna tímabundinni göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut. Sífellt er talað um “tímabundna” brú en þarna þarf auðvitað að tala um varanlega lausn sem er stokkur. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í júní 2022 um að strax yrði hafist handa við að byggja bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð, en þannig er málum háttað að börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Íbúar Vogabyggðar hafa þurft að takast á við ótta um öryggi barna sinna allt of lengi.


Eyðublöð í þúsunda tali við að svara einföldum já/nei spurningum

Ég legg fram þessa fyrirspurn í borgarráði nú í morgunsárið í tilefni fréttar um að það þurfi að skila út­­prentuðum eyðu­blöðum í haust ætli foreldrar að hafa börn sín í leikskóla í haust- og vetrarfríi grunnskóla og jólafríi. Ekki náðist þó í tæka tíð að gera foreldrum kleift að skrá börnin í vistun í Völu og því þurfa allir foreldrar leikskólabarna í Reykjavík að skila útprentuðu eyðublaði til leikskólastjóra ætli þau að hafa börnin í leikskóla í þessum fríum.
 
Stafræn mál í Reykjavík eru á ótrúlegum stað þegar horft er til þess gríðar mikla fjármagns sem farið hefur í málaflokkinn.
 
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju það gengur svo erfiðlega hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði að leiða stafræna umbreytingu sem halda á utan um skráningar í leikskólum borgarinnar í ljósi alls þess fjármagns sem veitt hefur verið til sviðsins.
Einnig vill fulltrúi Flokks fólksins fá að vita hvort foreldrar þurfi enn að fylla út 4 handskrifuð blöð og skila til leikskóla þegar barn er að flytja á milli leikskóla eða þegar aðrar breytingar á högum barna þurfa að eiga sér stað?


Greinargerð

Líkt og flestir foreldrar leikskólabarna í Reykjavík furðar fulltrúi Flokks fólksins sig á því hversu illa gengur að framkvæma stafræna umbreytingu á mörgum sviðum í borgarkerfinu og ekki hvað síst skráningu barna í leikskólum. Gefið er lítið fyrir þær skýringar sem birst hafa í fjölmiðlum þess efnis að ábyrgðin á þessum seinagangi liggi fyrst og fremst hjá eiganda Völu kerfisins. Fyrir utan þá handavinnu og keyrslur sem foreldrar þurfa að sinna við skráningar á handskrifuðum blöðum, hafa foreldrar í núna í mörg ár þurft að fylla út handvirkt 4ra síðna umsókn þegar barn er að skipta um leikskóla. Hvort um sé að ræða fleiri atriði varðandi leikskólaskráningar sem fylla þarf út handvirkt á pappír og aka með milli staða hefur fulltrúi Flokks fólksins ekki vitneskju um. Í öllum helstu sveitarfélögum í landinu eru allt þetta orðið rafrænt. Það hlýtur að vera ljóst að stafrænt ráð þarf að fara gaumgæfilega ofan í saumana á verkefnastjórn sviðsins sem oft virðist vera ansi handahófskennd hvað varðar flokkun verkefna eftir mikilvægi. Eftir alla þá fjármuni, 20 milljarða plús sem farið hefur í stafræna umbreytingu frá 2019 er Reykjavík eins og aftur úr fornöld í einföldustu stafrænum ferlum sem smæstu sveitarfélög eru komin með í fulla virkni og það fyrir löngu.

Bráðavandann í umferðinni verður að leysa

Bráðavandann í umferðinni verður að leysa. Í morgun var ástandið sérlega slæmt enda skólarnir að byrja. Hægt væri að laga mikið ef ráðist væri í að nútímavæða umferðarljósastýringar. Miklubraut og Kringlumýrarbraut eru þær götur sem eru með mesta umferðarflæði í Reykjavík og í morgun var þar bara allt fast. Ljósin voru stillt þannig að græna ljósið logaði í 15 sekúndur og rauða í 50 sekúndur á leið vestur í bæ. Þetta ætti að vera búið að leysa.  Snjallljósastýringarkerfi sem les umferðina og bregst við samkvæmt aðstæðum má finna í öllum borgum í Evrópu. Með snjallljósstýrikerfi er umferðarflæði meira og eyðsla, mengun og skemmdir á malbiki minni. Ef tafir eru miklar eru bílar sífellt að hægja á sér, nema staðar og taka af stað með tilheyrandi mengun. Það klukkuprógramm sem er við lýði með fjórum stillingum er ekki snjallkerfi. Tafir eru miklar og afkastageta á umferðargötum borgarinnar er í mesta lagi 50%. Ef snjallljósastýringar væru við lýði myndu ljósin nema þörfina og flæði umferðar yrði í samræmi við umferðarþunga og aðstæður.

 


Verða bara að hringja á leigubíl

Sú eina lausn sem stendur íbúum í Gufunesþorpi núna er í formi pöntunarþjónustu. Skal farþegi láta vita með minnst hálf tíma fyrirvara fyrir áætlaða brottför og stilla sér upp við merkta  biðstöð hjá Gufunesþorpi og bíða þar eftir leigubíl sem  kemur þeim á næstu skiptistöð Strætó.
Meirihlutinn samþykkti að hækka fjárheimildir til strætósamgangna um 14,6 milljónir króna  til að auka almenningssamgöngur í Gufunesi á fundi sínum þann 7. desember 2022 og er þetta útkoman. Flokki fólksins finnast það varla geta verið að þetta fyrirkomulag sé hugsað til  framtíðar. Hér kann að vera um millibilsástand að ræða sem er reyndar orðið alltof langt. Varla munu íbúar sætta sig við þetta mikið lengur. Lítið sem ekkert hefur verið gert í þessu máli þrátt fyrir að tæp tvö ár séu liðin frá því að borgin gaf vilyrði fyrir lóðum undir Gufuneshverfið.

 

Flokkur fólksins lagði til í síðustu viku að komið verði upp fleiri bílastæðum í Þorpinu í Gufunesi. Það stóð til að fólk gæti lifað bíllausum lífsstíl í Þorpinu en það er með öllu útilokað vegna fjarlægðar frá þjónustu og engar almenningssamgöngur eru á staðnum þrátt fyrir tillögur þar um.  Flestir hafa nú þegar neyðst til að kaupa sér bíl en í Þorpinu er skortur á bílastæðum og neyðast bíleigendur til að leggja bíl sínum á svæði sem ekki eru merkt sem bílastæði.

Íbúar keyptu sér eignir þarna í góðri trú um að almenningssamgöngur býðst þeim eins og flestum öðrum Reykvíkingum en svo er ekki. Nýlegar fréttir bárust af því að verið væri að sekta fólk fyrir ólöglega lagningu bíla í Þorpinu. Það er eðli málsins samkvæmt afar ósanngjarn þar sem mikill skortur er á bilastæðum og almenningssamgöngur engar. Byggingarframkvæmdir eru auk þess í gangi á staðnum. Finna þarf svæði í Þorpinu þar sem hægt er að koma fyrir nægum bílastæðum svo fólk þurfi ekki að leggja ólöglega. Ekki er hægt að búa í Þorpinu án þess að eiga bíl eins og sakir standa vegna skorts á almenningssamgöngum auk þess sem talsverð fjarlægð er í alla almenningsþjónustu.


Eiga að lifa bíllausum lífsstíl þar sem engar eru almenningssamgöngurnar

Ég sárvorkenni fólkinu sem býr í Gufunesþorpinu. Það hélt það gæti lifað þar bíllausum lífsstíl en annað kom heldur betur á daginn

Ég lagði fram þessa tillögu á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs:

Tillaga Flokks fólksins um að Strætó bs. skipuleggi strætóferðir inn í Þorpið

Flokkur fólksins leggur til að strætó aki inn í Þorpið í Gufunesi, að Þorpið verði einfaldlega hluti af almenningssamgangnakerfinu. Engar almenningssamgöngur eru í vistþorpinu utan þess að hægt er að hringja á leigubíl.

Greinargerð

Fólk sem fjárfesti í íbúð í Þorpinu var lofað að hægt væri að lifa þar bíllausum lífsstíl en hefur orðið að kaupa sér bíl þar sem engar almenningssamgöngur standa þessu fólki til boða. Bílastæði eru fá sem bæta þarf úr hið snarasta. Fólk hefur neyðst til að leggja ólöglega og nú er bílastæðasjóður farin að sekta bíleigendur sem hvergi geta lagt bílnum sínum. Það er ámælisvert að meirihlutinn geti ekki tryggt aðgang að almenningssamgöngum í íbúðahverfi í Gufunesi sem hefur verið kynnt sem vistþorp. Án almenningssamgangna kemst fólk ekki spönn frá rassi enda langt í almenningsþjónustu. Í grein sem íbúi skrifaði í des. 2021 á visi.is segir:
"Næsta strætóstoppistöð er í 20-25 mínútna göngufjarlægð, en þá leið getur manneskja einungis farið ef hún er fullfær og ófötluð enda liggur sú leið upp brattan, ólýstan slóða í gegnum móa (einungis er um slóða að ræða, enga formlega leið eða gangstétt). Og ef manneskja ætlar að taka strætó með barnavagn þá þarf hún að ganga um 45 mínútna leið - og úti á miðjum Gufunesveginum, því engin gangstétt er þar meðfram heldur,"
Einnig eru alvarlegar athugasemdir gerðar við að skortur sé á göngustígum sem liggja að hverfinu. Almenningssamgöngur í Gufunesið snúast ekki bara um íbúana sjálfa heldur einnig fjölskyldur og vini þeirra sem vilja koma í heimsókn.

 

 

Tillaga um að fjölga bílastæðum í Þorpinu Gufunesi.

Flokkur fólksins leggur til að komin verði upp fleiri bílastæðum í Þorpinu í Gufunesi. Það stóð til að fólk lifði bíllausum lífsstíl í Þorpinu en það  er með öllu útilokað vegna fjarlægðar frá þjónustu og engar  almenningssamgöngur eru á staðnum þrátt fyrir tillögur þar um.  Flestir hafa nú þegar neyðst til að kaupa sér bíl  en í Þorpinu er skortur á bílastæðum og neyðast bíleigendur til að leggja bíl sínum á svæði sem ekki eru merkt sem bílastæði.

Greinargerð

Nýlegar fréttir bárust af því að verið væri að sekta fólk fyrir ólöglega lagningu bíla í Þorpinu. Það er eðli málsins samkvæmt afar ósanngjarn þar sem mikill skortur er á bilastæðum og almenningssamgöngur engar. Byggingarframkvæmdir eru auk þess í gangi á staðnum. Finna þarf svæði í Þorpinu þar sem hægt er að koma fyrir nægum bílastæðum svo fólk þurfi ekki að leggja ólöglega. Ekki er hægt að búa í Þorpinu án þess að eiga bíl eins og sakir standa vegna skorts á almenningssamgöngum auk þess sem talsverð fjarlægð er í alla almenningsþjónustu. Sú eina lausn sem stendur fólki til boða núna er í formi pöntunarþjónustu. Skal farþegi láta vita með minnst hálf tíma fyrirvara fyrir áætlaða brottför og stilla sér upp við merkta  biðstöð hjá Gufunesþorpi og bíða þar eftir leigubíl sem  kemur þeim á næstu skiptistöð Strætó.
Meirihlutinn samþykkti að hækka fjárheimildir til strætósamgangna um 14,6 milljónir króna  til að auka almenningssamgöngur í Gufunesi á fundi sínum þann 7. desember 2022 og er þetta útkoman. Fulltrúa Flokks fólksins finnast það varla geta verið að þetta fyrirkomulag sé hugsað til  framtíðar. Hér kann að vera um millibilsástand að ræða sem er reyndar orðið alltof langt. Varla munu íbúar sætta sig við þetta mikið lengur. Lítið sem ekkert hefur verið gert í þessu máli þrátt fyrir að tæp tvö ár séu liðin frá því að borgin gaf vilyrði fyrir lóðum undir Gufuneshverfið.

 


Torfþakið varð að mýri

Mál Brákarborgar á Kleppsvegi 150-152 er allt hið ótrúlegasta. Ljóst er að mis­tök voru gerð í hönn­un eða byggingarfram­kvæmd leik­skól­ans en ekki liggur fyr­ir hver beri ábyrgð. Komið hefur í ljós að burðurinn sem heldur uppi þakinu er ekki í samræmi við núgildandi staðla sem leitt hefur m.a. til að hurðir hafa skekkst í dyrakörmum.

Hér er um alvarleg mistök að ræða sem kostar gríðarlegt fjármagn og mun koma illa við borgarsjóð og borgarbúa. Fulltrúi Flokks fólksins mun vilja fá upplýsingar um hvernig þetta gat gerst í ljósi þeirra þekkingar sem liggja fyrir í byggingariðnaði. Talið er að kostnaður muni hlaupa á tugum milljóna. Flokkur fólksins mun einnig spyrja um hvað þetta verkefni kostar í heild sinni þegar upp er staðið? Hver ber á þessu ábyrgð? Er kannski sambærilegur vandi í uppsiglingu í fleiri byggingum sem skarta eiga torfþökum? Af hverju torfþök núna? Torfið hægir vissulega á rennsli vatns ofan í frárennsliskerfin sem geta sprungið. Hafa skal í huga að sú mikla þétting byggðar víða í borginni eykur álag á frárennsliskerfi sem er ekki hannað nema fyrir ákveðinn mannfjölda.

 

Þakið varð að mýri

Fulltrúi Flokks fólksins lýsti yfir áhyggjum sínum á þeim tíma sem hönnunartillagan var kynnt, áhyggjur sem lutu að gerð torfþaks. Flokkur fólksins lagði þá fram viðvörunarbókun. Á húsið var lagt torfþak sem reyndist þyngra en reiknað var með og tilgreint var á teikningum.
Reikna má með að sérfræðingar á skipulags-, hönnunar- og arkitektasviði viti að vatn er þungt. Benda má á að 10 mm úrkoma, sem er ósköp venjuleg í Reykjavík, eru 10 lítrar eða 10-kg á fermetra. Losna þarf fljótt við það vatn ef það er á þaki. Það gengur illa  á flötu þaki því að vatnið má ekki renna niður í bygginguna.  Vatnið þarf að færast frá miðju þaksins út í rennur sem tekur óratíma. Því má segja að með torfþakinu á Brákarborg hafi verið mynduð mýri. Torfþök fyrr á öldum voru brött. Þá skyldu menn að vatnið þyrfti að renna fljótt brott. Sú þekking kann að hafa glatast meðal hönnuða?

 

Ótímabær opnun og verðlaun í ofanálag

Það sem gerir málið sérlega vandræðalegt er að hönnun Brákarborgar fékk hönnunarverðlaunin Grænu skófluna sem borgarstjóri veitti stoltur viðtöku. Leikskólinn Brákarborg var opnaður löngu áður en hann var tilbúinn til að hýsa starfsemina. Ástand húsnæðisins var með öllu ófullnægjandi. Vankantar voru m.a. á loftræstikerfi og ljósabúnaði. En það í sjálfu sér hefur ekki að gera með torfþakið og dómgreindarleysið að baki þeirri ákvörðun. Í svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn um af hverju lá svo mikið á að taka leikskólann í notkun áður en framkvæmdum var lokið segir að "neyðarstaða væri  komin upp varðandi annan leikskóla sem þurfti að flytja úr sínu húsnæði vegna rakamála og þurfti á eldra húsnæði Brákarborgar að halda".
Nú þarf að flytja leikskólann Brákarborg í húsnæði í Ármúla, skrifstofuhúsnæði sem engan vegin er ásættanlegur staður fyrir börn. Húsnæðið sem um ræðir er í Ármúla 28-30 og hefur áður hýst grunnskólastarfsemi. Óþægindin koma illa við börnin á Brákarborg og foreldra þeirra.

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

 


Virkja þarf þjónustustefnu Strætó bs.

Á fundi borgarráðs hyggst ég leggja fram tillögu um að gerð verði óháð úttekt á þjónustu Strætó bs., sérstaklega með tilliti til þjónustulundar, viðmóts og sveigjanleika í garð notenda Strætó bs. samkvæmt samþykktri þjónustustefnu byggðasamlagsins. Mikilvægt er að skoða einnig stjórnendur og hæfni þeirra til stjórnunar fyrirtækisins.  Skoðað verði sérstaklega þætti eins og hvort starfsfólk þ.m.t. vagnstjórar þekki hlutverk, stefnu og gildi fyrirtækisins. Einnig hvort starfsfólk:

 -sýni drifkraft í störfum sínum með frumkvæði, kjark og þor að leiðarljósi?  

-vinni vel saman að hagsmunum og framtíðarsýn Strætó og mynda þannig sterka liðsheild?  

-skapi traust þeirra sem reiða sig á þjónustu Strætó og sýna áreiðanleika og ábyrgð í verki? 

-sýni viðskiptavinum jákvætt viðmót og kurteisa framkomu?

-eru vingjarnleg og hjálpfús gagnvart öllum viðskiptavinum?

-geti veitt upplýsingar um starfsemi Strætó?

-beri virðingu fyrir ásýnd Strætó og umhverfi_

 

Þessi tillaga er lögð fram í ljósi fjölmargra kvartanna, sumar hverjar alvarlegar, sem berast reglulega til Strætó bs. Strætó er með þjónustustefnu sem virðist samkvæmt fjölda kvartanna vera meira orð á blaði en raunveruleiki. Markmið þjónustustefnunnar er m.a. að skapa traust notenda, sýna áreiðanleika og ábyrgð í verki og sýna viðskiptavinum jákvætt viðmót og kurteisa framkomu sem og að vera vingjarnleg og hjálpfús gagnvart öllum viðskiptavinum.  Á þessu er pottur brotinn. Það er þess vegna mikilvægt að óháður utanaðkomandi aðili verði fenginn til að rannsaka hverju það veldur að Strætó bs. gangi svo illa að fylgja þjónustustefnunni sem raun ber vitni. Reglulega berast fréttir af slæmri framkomu Strætó bs gagnvart farþegum. Nýlegt dæmi er að 10 ára stúlku var vísað úr  strætisvagni á miðri leið að því er virðist að tilefnislausu. Engar skýringar hafa enn verið gefnar á atvikinu.


Framtíð skóla í Laugardal, umræða og tillaga Flokks fólksins í borgarstjórn 11. júní 2024

Borgarstjórn Reykjavíkur
11. júní 2024
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að fylgja sviðsmynd 1 við uppbyggingu skólastarfs í Laugardal
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fylgja sviðsmynd 1 um framtíðaruppbyggingu skólastarfs í Laugardal sem samþykkt var árið 2022.


Greinargerð

Reykjavíkurborg hyggst ganga á bak eigin loforða um að framtíðaruppbygging skólastarfs í Laugardal verði á grundvelli skólanna sem fyrir eru. Í október 2022 samþykkti skóla- og frístundaráð Reykjavíkur að ganga í takt með íbúum hverfisins eftir umtalsvert samráð við hagaðila, stjórnendur, starfsmenn, foreldra og börn að fylgja svokallaðri sviðsmynd 1 úr skýrslu starfshóps um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnesi og Langholtshverfi. Sú sviðsmynd felur í sér að skólarnir þrír haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta fyrirsjáanlegri fjölgun nemenda í skólahverfunum. Tillagan var samþykkt í borgarráði.
Sviðsmynd 1 naut víðtæks stuðnings meðal foreldra, sem höfðu lengi gagnrýnt ákvarðanafælni og ráðaleysi borgaryfirvalda varðandi skólamál í Laugardal og var þessari niðurstöðu því fagnað af íbúum. Í tæp tvö ár hafa borgaryfirvöld hins vegar dregið íbúana á asnaeyrum sem biðu eftir að heyra meira um framgang mála. Ítrekuðum óskum um upplýsingar varðandi stöðu og þróun mála var mætt með ærandi þögn.
Nú kemur í ljós að meirihlutinn hyggst kúvenda málinu og hefur lagt fram tillögu um að fallið verði frá fyrri ákvörðun um sviðsmynd 1 og þess í stað verði ráðist í sviðsmynd 4. Samkvæmt henni verður ekki byggt við skólana eins og áður hafði verið ákveðið og loforð gefin um heldur á að byggja nýjan unglingaskóla frá grunni fyrir Laugarneshverfi.
Kúvending meirihlutans hefur vakið sterk viðbrögð meðal foreldra, kennara og skólastjóra. Fjölmennir fundir hafa verið haldnir og vinnubrögðum borgaryfirvalda í málinu var harðlega mótmælt, sem og tillögu um allt aðra sviðsmynd en samið var um á sínum tíma.


Í sviðsmynd 4 er stefnan sú að Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli verði fyrir yngri deildir grunnskóla, sem aðeins Laugarnesskóli er nú og í Langholtsskóla verði aðeins yngri deildirnar en allir tíu bekkirnir eru þar núna. Þá verða þetta tveir yngri barna skólar sem að þýðir að vinir eru ekki endilega að fara í sama skóla. Íbúar telja að með þessu sé yngri deildum skipt upp á milli tveggja skóla og hverfið slitið í tvennt. Foreldrar telja að það sé slæm hugmynd að skilja á milli Laugarness- og Laugalækjarskóla og setja alla unglinga hverfisins í einn skóla. Um verði að ræða tvö skólahverfi.


Vinnubrögð borgaryfirvalda í skólamálum í Laugardal eru til skammar. Flokkur fólksins telur að meirihlutinn geti ekki leyft sér að koma svona fram við borgarbúa. Látið er sem borgarar hafi rödd en þegar upp er staðið er það einungis til málamynda. Foreldrafélögin hafa verið svikin og ljóst er að þau bera ekki traust til borgaryfirvalda eftir síðustu atburði. Efna þarf fyrri loforð um að byggja við skólana í Laugardal. Það er skylda meirihlutans að tryggja farsælt skólastarf og gera það í sátt og samvinnu við borgarbúa. Þess vegna leggur Flokkur fólksins til að sviðsmynd 1, sú sviðsmynd sem valin var og samþykkt verði fylgt í hvívetna.


Galið umferðarástand á efri hluta Breiðholtsbrautar

Ástandið á Breiðholtsbraut frá Jafnaseli að Rauðavatni er skuggalegt um þessar mundir. Það voru stór mistök að byrja ekki á að breikka þennan kafla Breiðholtsbrautar áður en ráðist var í framkvæmd 3ja áfanga Arnarnesvegar. Þetta ástand á eftir að vara lengi og var það slæmt fyrir. Hver ber á þessu aðalábyrgðina? Vandinn er slíkur að oft er ekki hægt að komast út úr hringtorginu frá Suðurlandsvegi til að beygja inn til hægri inn á Breiðholtsbrautina vegna bílateppu. Þrengingar eru miklar vegna framkvæmda við Arnarnesveg. Þetta ástand skapar slysahættu svo ekki sé minnst á umferðarkraðakið sem þarna myndast á háannatíma. Þetta var auðvitað fyrirsjáanlegt. Það dugar ekki að breikka aðeins smá bút af Breiðholtsbrautinni að Arnarnesvegi heldur verður að breikka Breiðholtsbrautina alla leið að Rauðavatni ef vel á að vera.
Ákall borgarbúa um breikkun er hunsað. Þetta bitnar á öllum þeim sem aka þessa leið, margir á leið út úr bænum og aðrir á leið inn í borgina. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu 2021 um „að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar frá Jafnaseli að Rauðavatni". Tillagan var felld af meirihlutanum.

Eftirfarandi tillaga er lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. maí 2024:

Tillaga Flokks fólksins um að gerð verði úttekt á þeirri ákvörðun að byrja á 3ja áfanga Arnanesvegar áður en Breiðholtsbrautin milli Jafnasels og Rauðavant var tvöfölduð. Með því að byrja fyrst á svo stórum framkvæmdum sem Arnarnesvegurinn er áður en Breiðholtsbrautin var tvöfölduð voru gerð alvarleg mistök sem einhver þarf að bera ábyrgð á.

Greinargerð 

Á þessum kafla ríki nú ófremdarástand. Umferðarteppur og tafir vegna þeirra eru þær mestu sem sést hefur á stað þar sem umferðarþungi er gríðarlegur og yfir svo langan tíma sem raun ber vitni. Vandinn er slíkur að oft er ekki hægt að komast út úr hringtorginu frá Suðurlandsvegi til að beygja inn til hægri inn á Breiðholtsbrautina. Þrengingar eru miklar vegna framkvæmda við Arnarnesveg.  Þetta ástand skapar mikla slysahættu svo ekki sé minnst á umferðarkraðak á háannatímanum. Ákall borgarbúa um breikkun hefur verið hunsað. Þetta bitnar á öllum þeim sem aka þessa leið, margir á leið út úr bænum og aðrir á leið inn í borgina. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu 2021 um „að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar frá Jafnaseli að Rauðavatni". Tillagan var felld af meirihlutanum.

 


Grófustu samráðssvikin sem ég hef orðið vitni að í borginni. Má þetta bara?

Þetta eru þau allra grófustu samráðssvik sem ég hef orðið vitni að hjá meirihlutanum í borginni á þeim 6 árum sem ég hef setið í borgarstjórn. Flokkur fólksins hefur séð ótal dæmi þess að meint samráð sem meirihlutinn segist hafa við borgarbúa er aðeins sýndarsamráð. En nú tekur steininn úr. Ég spyr eins og greinarhöfundur, má þetta bara?

https://www.visir.is/g/20242570792d/reykjavikurborg-svikur-ibua-laugardals

 


Engin bílastæði við Dalslaug

Flokki fólksins hefur borist ábending frá fólki um sára vöntun bílastæða við Dalslaug. Aðkomugestir í sundlaugina þarf að ganga dágóðan spotta, hafandi neyðst til að leggja bíl sínum einhvers staðar inn í hverfi eða upp á kant því engin bílastæði eru við laugina. Sumir eru með stóran barnahóp auk sundfarangurs eins og gengur. Hér hafa orðið stór mistök í skipulagi sem finna þarf lausn á.

Flokkur fólksins lagði inn þessa tillögu í morgun á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að bílastæðum verði fjölgað við Dalslaug í Úlfarsárdal:

Flokkur fólksins leggur til að bílastæðum verði fjölgað við Dalslaug í Úlfarsárdal og íþróttasvæðið þar í kring. Við laugina eru allt of fá stæði sem skapar öngþveiti.

Greinargerð

Örfá bílastæði eru við Dalslaug og  kvarta íbúar mikið yfir því. Sundlaugaverðir segjast fá kvartanir á hverjum degi vegna þessa bílastæðaskorts. Nokkur fjöldi  bílastæða er við íþróttamiðstöð Fram í Úlfarsárdal. Þau eru hins vegar mjög oft þéttsetin bæði af sundlaugargestum og íþróttaiðkendum.  Þegar haldin eru  fótboltamót eða einstaka fótboltaleikir spilaðir verður algjört öngþveiti á svæðinu. Bílum er lagt upp á umferðareyjar á grasbala og inn í næstu íbúðargötur. Þessi staða veldur íbúum miklu ónæði. Það er greinilega ekki gert ráð fyrir að íbúar úr öðrum hverfum borgarinnar sæki sér þjónustu við íþróttamiðstöðina eða njóti sundlaugarinnar í Úlfarsárdal. Úr þessu þarf að bæta hið snarasta. Foreldrar sem koma með börn sín, stundum mörg og tilheyrandi sundfarangur í laugina þurfa iðulega að ganga langa vegalengd frá bíl að laug vegna þess að þau fáu stæði sem eru i boði eru fullsetin.

 


Flokkur fólksins mun ekki samþykkja að hækka leigu hjá Félagsbústöðum

Félagsbústaðir eru B-hluta fyrirtæki Reykjavíkurborgar og er óhagnaðardrifið félag. Viðskiptamódel Félagsbústaða gengur ekki upp miðað við núverandi forsendur sem er að

rekstur félagsins skuli vera sjálfbær. Í umræðunni er að hækka leiguna.  Félagsbústaðir

standa ekki undir greiðslubyrði lána að óbreyttu. Það þarf atkvæði meirihluta fulltrúa í velferðarráði til að hækka leiguna hjá Félagsbústöðum. Flokkur fólksins sem á þar fulltrúa mun ekki samþykkja að

leiga verði hækkuð til þess að halda þessu fyrirtæki á floti. Finna þarf aðrar leiðir eða breyta viðskiptamódelinu. Skoða mætti að styrkja Félagsbústaði með öðrum hætti en þá er það vissulega í skjön við markmið félagsins þ.e. að verða sjálfbært. En atkvæði minnihlutans mega sín lítils því meirihlutinn í velferðarráði er með sín meirihlutaatkvæði.  Taki meirihlutinn ákvörðun um að hækka leigu félagslegum íbúðum geta þau gert það sama hvernig minnihlutinn greiðir atkvæði.

 

Aðeins verið að blekkja 

Enn og aftur er borgarbúum boðið upp á hálfgert gerviuppgjör hjá Félagsbústöðum Reykjavíkurborgar. Í því sambandi er vísað til matsbreytinga fjárfestingaeigna í ársreikningi Félagsbústaða Reykjavíkurborgar. Í þessu felst að bókfært verð íbúða Félagsbústaða er endurmetið samkvæmt matsbreytingum á almennum íbúðamarkaði.  Aukið verðmæti þeirra er ár hvert fært sem hagnaður í ársreikningi. Þessi reikningsskilaaðferð hefur margsinnis verið gagnrýnd af Flokki fólksins og fleirum. Matsbreytingar námu um 5 milljörðum króna á síðasta ári og eru þær færðar sem hagnaður sem er einungis tilkominn  vegna hækkunar á virði fasteignamats eigna Félagsbústaða. Hér er því um gervikrónur að ræða því íbúðir Félagsbústaða verða aldrei seldar á almennum markaði.

 

Áður var verðmæti eigna Félagsbústaða bókfært á kostnaðarverði en ekki samkvæmt reiknuðu gangvirði samkvæmt verðþróun á almennum markaði. Þegar harðna fór á dalnum í fjármálum var gripið til þess ráðs að skipta um matsaðferð til að láta stöðuna líta skár út. Með þessu er verið að slá ryki í augu borgarbúa til að láta svo líta út að afkoman sé betri en hún er í raun og veru.
 

Ef eignir Félagsbústaða væru metnar á kostnaðarverði fremur en gangvirði á almennum markaði þá kæmi skýrt í ljós hve illa fjárhagslega Félagsbústaðir eru í raun staddir. Reikningsskil eiga að sýna fjárhagslega stöðu fyrirtækisins (rekstur og efnahag) eins og hún er í raun og veru en ekki vera nýtt til að setja upp einhvern gerviveruleika. Það væri alveg eins hægt að reikna alla skóla borgarinnar, sundlaugar og íþróttahús upp til einhvers matsverðs til að breyta ,,efnahagslegri ásýnd“  borgarsjóðs. Rekstur félagslegs húsnæðis er lögbundið skylduverkefni sveitarfélaga og því verða allar eignir Félagsbústaða aldrei seldar allar í einu.

 

Hægt er að fullyrða að með þessari reikningsskilaaðferð sé ekki aðeins verið að slá ryki í augu borgarbúa, heldur að farið sé á svig við alþjóðalega reikningsskilastaðla sem þó er fullyrt að hafðir séu að leiðarljósi í ársreikningi Félagsbústaða. Í ársreikningi segir fullum fetum að hann sé gerður í samræmi við IFRS reikningsskilastaðalinn (International Financial Reporting Standards) sem byggir á fjórum grundvallaratriðum en þau eru skýrleiki (clarity), mikilvægi (relevance), áreiðanleiki (reliability) og samanburðarhæfni (comparability). Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér hvort ársreikningur Félagsbústaða standist þær kröfur.

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

 Greinin er birt á visi.is 10. maí 2024

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband